28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

349. mál, fuglaveiðar útlendinga hér á landi

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 4. þm. Norðurl. e. skal eftirfarandi tekið fram:

Heimild til að veita útlendingum leyfi til að flytja með sér til landsins skotvopn er að finna í 20. gr. reglugerðar nr. 16 frá 20. janúar 1978, sbr. reglugerð nr. 174 27. apríl 1979, en þar segir:

„Heimilt er að veita erlendum ríkisborgurum, sem dveljast um skamman tíma hér á landi, leyfi til þess að flytja til landsins skotvopn til eigin nota með eftirgreindum skilyrðum:

1. Að viðkomandi fullnægi skilyrðum íslenskra laga um að mega eiga skotvopn.

2. Að hann hafi skotvopnaleyfi útgefið í heimalandi sínu.

3. Að hann leggi fram meðmæli eins eða tveggja manna, búsettra hér á landi, er þekki umsækjanda persónulega, og heimild eigenda þess lands þar sem hann hyggst nota skotvopnið.

Í umsókn skal umsækjandi tilgreina:

1. Fullt nafn, ríkisfang, fæðingardag og ár og heimilisfang.

2. Til hvers hann hyggst nota skotvopnið og hvar hann hyggst nota það.

3. Tegund, hlaupvídd, verksmiðjuheiti og verksmiðjunúmer þeirra skotvopna er hann hyggst flytja með sér til landsins.

4. Tegund og magn skotfæra, ef óskað er innflutnings þeirra.

Með umsókn skal umsækjandi senda staðfest endurrit eða ljósrit af skotvopnaleyfi því er hann hefur fengið útgefið í heimalandi sínu.

Lögreglustjórinn í Reykjavík gefur út umrædd leyfi svo og leyfi til handa viðkomandi að mega nota þau vopn sem hann flytur inn.

Skylt er þeim, er fær umrædd leyfi, við brottför frá landinu, að flytja úr landi þau skotvopn er hann hefur flutt með sér til landsins.

Lögreglustjóri skal tilkynna viðkomandi tollyfirvöldum um leyfi til erlendra manna.“

Þessi heimild hefur verið lítið notuð, en síðan 1978, að lög um þetta efni gengu í gildi, hafa 6 útlendingar fengið slík leyfi alls 10 sinnum. Ekki eru veitt leyfi fyrir skotvopnum sem bönnuð eru samkv. íslenskum lögum. Þá geta erlendir ríkisborgarar, sem dveljast hér á landi, fengið skotvopnaleyfi eftir þriggja ára samfellda búsetu á landinu, en áður en slík leyfi eru veitt skal lögreglustjóri leita umsagnar útlendingaeftirlitsins, sbr. 7. gr. áðurnefndrar reglugerðar.

Útlendingum, sem á framangreindan hátt hafa fengið leyfi til að nota skotvopn hér á landi, mun vera heimilt að stunda fuglaveiðar hér á landi þar sem þeir hafa leyfi landeiganda til veiðanna, en íslenskum ríkisborgurum einum er heimilt að stunda slíkar veiðar í almenningum utan landareigna lögbýla og á afréttum svo og í íslenskri landhelgi utan netlaga lögbýla.

Ég hef fengið skrá yfir þá erlendu ríkisborgara sem fengið hafa skammtímaskotvopnaleyfi útgefið af lögreglustjóranum í Reykjavík. Þar eru greind nöfn þeirra og heimilisföng, ábyrgðarmaður á Íslandi, skotvopn, hverrar tegundar, hverrar gerðar og leyfistími. Þetta eru alls 6 menn, eins og ég sagði, 3 Norðmenn, 2 frá Bandaríkjunum og 1 frá Englandi. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa skrána upp.

Hitt er svo annað mál, að þessar reglur kunna að vera brotnar eins og önnur lög og reglur, og þá er að tilkynna það hið snarasta lögregluyfirvöldum landsins.