19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

1. mál, fjárlög 1981

Frsm. 2. minni 61. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þarf ekki og skal ekki við 3. og síðustu umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1981 hafa mörg orð. Við 2. umr. frv. gerði ég grein fyrir afstöðu Alþfl. og viðhorfum til frv. og þeirra forsendna sem þar liggja að baki. Við þessa umr. hafa mál ekkert breyst til batnaðar og í ljósi þess er afstaða okkar til frv. hin sama og þá var, að hér sé ekki um að ræða að líklegt sé að þær forsendur, sem frv. byggist á og á að afgreiða á, standist í raunveruleikanum miðað við það sem menn sjá fram í tímann eins og kringumstæður nú eru.

Það var tekið fram þá og hefur verið tekið fram enn, að þær efnahagsráðstafanir, sem eiga að treysta forsendur frv. og frv. er raunar meira og minna byggt á, hafa enn ekki séð dagsins ljós. Enginn veit hvenær eða hvort þær koma. Af lánsfjáráætlun hefur ekki sést nema lítið brot sem þarf til að menn geti áttað sig á þessu heildardæmi og gert sér grein fyrir því, hvað er verið að tala um.

Ég minntist á lánsfjáráætlun. Hér á dögunum var umr. um lántökuheimild til handa hæstv. ríkisstj. og í þeim umr. kom í ljós, það var upplýst, að þrátt fyrir samþykktar lántökuheimildir fyrir yfirstandandi ár hefur hæstv. ríkisstj. í engu farið eftir þeim, heldur farið svo milljörðum skiptir fram yfir þær heimildir sem Alþingi hefur veitt hæstv. ríkisstj. til lántöku á yfirstandandi ári. Ekkert bendir til þess, að ekki verði eins að farið fyrir komandi ár. Í raun og veru má því segja að það sé til afskaplega lítils að Alþingi sé að samþykkja lántökuheimildir til handa hæstv. ríkisstj., fjárlög eða annað, ef á engan hátt er farið ettir því sem Alþingi hefur samþykkt í þessum efnum.

Ég vil því ítreka þá afstöðu Alþfl., sem fram kom við 2. umr. málsins, að meðan ekki eru lagðar á borð þm. þær tvær meginforsendur, sem eiga að liggja til grundvallar því sem frv. gerir ráð fyrir, er í raun og veru afskaplega erfitt og raunar ekki hægt að neinu gagni, svo að vit sé í, að fjalla um fjárlög fyrir árið 1981. Það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. telji að hvorki Alþingi né þjóðinni komi við hvað hún ætlar sér að gera að því er varðar stefnu og ráðstafanir í efnahagsmálum, og það er furðulegt að það skuli þurfa viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að ganga eftir því hjá hæstv. ríkisstj. að Alþingi fár um það vitneskju hvað á að gerast til lausnar þeim efnahagsvanda sem við höfum búið við, búum við og fer vaxandi ef ekkert verður að gert. Ég held að það sé hinn mesti misskilningur hjá þeirri hæstv. ríkisstj., sem nú situr og að eigin mati bjargaði heiðri Alþingis, að líta svo á að hvorki Alþingi ná þjóðinni komi við hvert á að stefna í efnahagsmálum á komandi ári eða árum. Ég held að það sé krafa alþm. og þjóðarinnar allrar til stjórnvalda hverju sinni, að þessir aðilar geri grein fyrir því, hvert þeir ætla sér að stefna að því er varðar þessa meginþætti þjóðlífsins, ekki síst þegar ástandið er með þeim hætti sem það nú er og fer greinilega versnandi, eins og allar spár sýna nú.

Ég ætla ekki að rekja hér einstaka þætti sem komið hafa til viðbótar að því er varðar fjárlagagerðina milli 2. og 3. umr. Það er að mínu viti engin ástæða til þess. Það væri hægt að hleypa af stað talnaflóði að því er varðar þessa þætti og stefnu efnahagsmálanna. Ég sé ekki tilgang í því. Það eina, sem almenningur í landinu skilur og skilur best að því er þetta varðar, er pyngjan sjálf. Og það er alveg öruggt mál, að á komandi ári, ef ekki verður að gert, verður það pyngja almennings í landinu sem kannske verður fyrst og fremst sá steinn sem hæstv. ráðh. stranda á á næstu vikum eða mánuðum. Breytir þá engu hvað menn telja upp í tölum eða öðru. Pyngjan er sá mælikvarði sem almenningur í landinu leggur á ríkjandi aðstæður og ríkjandi stjórnarstefnu og efnahagsstefnu. Hvað buddan segir mönnum til um er mælikvarðinn.

Það er hins vegar ljóst, eins og hv. síðasti ræðumaður kom raunar inn á, að mikill vandi blasir við sumum hverjum þeim fyrirtækjum sem fjallað-var um milli 2. og 3. umr. í fjvn., eins og nefnt var hér. Það eru Póstur og sími, Ríkisútvarpið og fleiri aðilar. En ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega út í þá sálma. Ég ætla aðeins að víkja örfáum orðum að þeim þætti frv., sem tekur til endurskoðaðrar tekjuáætlunar, og fyrst og fremst í sambandi við tekjuskattinn.

Í bréfi frá Þjóðhagsstofnun 17. des. er gerð grein fyrir nokkrum endurskoðuðum þáttum að því er varðar tekjuhlið frv., en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Endurskoðunin nær ekki til tekju- og eignarskatta, en ákvarðanir um þá stofna liggja ekki fyrir á þessu stigi.“

Nú hygg ég að þm. muni að í fjárlagafrv. er gefið til kynna að ýmsu í skattalögum eigi að breyta til að mynda þá forsendu frv. sem þar er gerð grein fyrir, þ.e. varðandi þróun næsta árs. Engin slík frumvörp hafa, að því er ég best veit, verið lögð á borð þm. nú áður en ætlast er til að þeir afgreiði fjárlagafrv. fyrir árið 1981. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir skattvísitölu 145, sem þýðir samkv. nýjustu upplýsingum Þjóðhagsstofnunar a. m. k. 10 milljörðum meiri innheimtu til ríkissjóðs í tekjusköttum á árinu 1981 að öllu óbreyttu en áður var ráð fyrir gert. Skattvísitala frv., eins og það er, gerir því ráð fyrir að a.m.k. 10 milljörðum meira verði innheimt í tekjusköttum af almenningi á árinu 1981 en frumvarpstalan gerir ráð fyrir. Því er eðlilegt að Þjóðhagsstofnun segi: Endurskoðunin nær ekki til tekju- og eignarskatta, en ákvarðanir um þá stofna liggja ekki fyrir á þessu stigi málsins.

Það hefur verið reynt af hálfu hæstv. fjmrh. og raunar fleiri stjórnarliða að bera í bætifláka fyrir það, sem haldið hefur verið fram, og draga úr að það væri íþynging skatta miðað við fjárlagafrv. fyrir árið 1981. Það er þó svo augljóst sem verða má, að fengnum nýjustu upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun og að því fengnu að engin frumvörp hafa hér verið flutt af hálfu hæstv. ríkisstj. til að breyta að því er varðar skattlagningu, á tekju- og eignarskatti t.d., eins og boðað var og boðað er í fjárlagafrv.

Það væri vissulega æskilegt að fá fram svör við því, hvað hæstv. fjmrh. segir um þessi mál. Er það ekki rétt? Eru ekki réttar hinar nýjustu upplýsingar sem nú liggja fyrir, að hann ætli sér á árinu 1981 að innheimta a.m.k. 10 milljörðum meira af launafólki í landinu í formi tekjuskatts en fjárlagafrv. gerir ráð fyrir? (Gripið fram i.) Þú sérð hann ekki, nei. (Gripið fram í.) Nei, nei, ég hef enga ástæðu til þess. Ég bið hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson — samstjórnarþm. hæstv. ráðh. — að koma þessum boðum til hans og ég hygg að hann muni gera það. En þetta er athyglisvert þegar horft er til þess, að núv, hæstv. ríkisstj., og ekki síst flokkur hæstv. fjmrh., hefur talað í þeim dúr, að nauðsynlegt væri að íþyngja ekki í sköttum, heldur létta a. m. k. skatta launafólks í landinu.

Ég vil þá geta þess, að við 2. umr. frv. lagði ég fram brtt. og þær eru endurfluttar við 3. umr. Ég sé ekki ástæðu til að gera grein fyrir þeim í einstökum þáttum. Það var gert við 2. umr. frv. En nú við 3. umr. flyt ég á þskj. 351 brtt. að því er varðar skattvísitöluna. Ég sagði áðan að hún væri í frv. 145. Mín brtt. er um að í stað „145“ komi: 165.

Af þeim brtt., sem fluttar voru við 2. umr. og nú eru endurfluttar, er ein þess eðlis að við gerum ráð fyrir að lækka tekjuskatt um 13.8 milljarða frá því sem hann er í frv. Í samræmi við þann tillöguflutning okkar og þá skoðun, að það sé í raun og veru raunhæfasta leiðin til kjarabóta eins og mál nú standa í þjóðfélaginu, a.m.k. fyrir þá lægst launuðu, og eins og fyrri daginn til að vera sjálfum okkur samkvæmir flytjum við brtt. um að skattvísitalan verði 165 stig. Það þýðir að tekjuskattur á einstaklingum mundi lækka sem nemur um 13.8 milljörðum kr.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa öllu fleiri orð um brtt.

Ég vil að lokum segja nokkur orð út af þeim þætti í 4. gr. frv. sem er á bls. 7 í hinum síðustu brtt. frá fjvn., um hafnarframkvæmdir vegna skipaiðnaðar. Um þetta voru fluttar till. af hálfu fjvn. við 2. umr., en voru svo dregnar til baka og hafa tekið nokkrum breytingum frá því. Ég vil láta það koma fram, að ég hef orð ráðh. fyrir því að það, sem af þeim var tekið milli 2. og 3. umr. málsins, sem er í kringum 40 millj. kr: af 4 eða 5 aðilum og ekki verður í fjárl. fyrir árið 1981, mun koma inn í lánsfjáráætlun fyrir árið 1981. Ekki þýðir það að neitt sé verið að draga í land, herra formaður. (Gripið fram í.) Já, það mun síðan koma í ljós, hvort ekki verður við það staðið. Ég hef ekki ástæðu til að ætla að það verði ekki við það staðið, en ég taldi rétt að þetta kæmi fram vegna þess að hér koma breyttar tölur frá því sem lagt var fram við 2. umr. málsins. Það kemur í ljós við afgreiðslu lánsfjáráætlunar hvort af því verður, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en verði, að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir þessu.

Að þessu loknu, herra forseti, skal ég ekki hafa um málið fleiri orð. Ég ítreka það, að eins og málatilbúnaður er af hálfu hæstv. ríkisstj. við þetta fjárlagafrv. og fjárlögin, sem hér er ætlast til að Alþingi afgreiði í nótt eða fyrramálið, er ógerningur, meðan ekki fást þessar höfuðupplýsingar, sem eru efnahagsráðstafanir og meira en beinagrind af lánsfjáráætlun, að ætlast til þess, að alþm. geti áttað sig á þessu dæmi í heild. Og fari svo fram sem horfir verða fjárlögin fyrir 1981 a.m.k. miklu óraunhæfari en ástæða væri til og hægt væri ef hæstv. ríkisstj. hefði hagað sér með öðrum hætti og skynsamlegri og betri en hún hefur gert að því er varðar þessa fjárlagaafgreiðslu.