19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1958)

1. mál, fjárlög 1981

Frsm. samvn. samgm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 327 er nál. frá samvn. samgm. og á þskj. 328 eru till. hennar um fjárveitingar til flóabáta og vegna vöruflutninga á landi.

Samvn. samgm. hefur að venju fjallað um erindi þau sem Alþingi hafa borist um fjárframlög til stuðnings við rekstur flóabáta vegna vöru- og fólksflutninga á hinum einstöku svæðum, svo sem Ísafjarðardjúpi, Breiðafirði, Faxaflóa og til Vestmannaeyja, um Eyjafjörð og til Siglufjarðar, allt til Grímseyjar, og vegna samgangna milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar.

Enn fremur hefur n. fjallað um erindi er borist hafa vegna vetrarflutninga á landi, svo sem til rekstrar snjóbifreiða, eða vegna mikils snjómoksturs þar sem erfitt reynist viðkomandi byggðarlögum að standa straum af þeim kostnaði er þau verða að bera samkv. snjómokstursreglum Vegagerðarinnar. Þrátt fyrir að reglurnar hafi verið verulega rýmkaðar á síðustu árum verða íbúar í snjóþungum héruðum fyrir verulegum kostnaði umfram aðra þegna þjóðfélagsins við að halda uppi nauðsynlegum samgöngum. Til að minnka þennan aðstöðumun hafa verið veitt á fjárlögum hvers árs fjárframlög til þeirra aðila sem að dómi n. eru verst settir að þessu leyti.

Þó ekki verði komist hjá fjárstuðningi við þá aðila sem hér eiga hlut að máli, ber nauðsyn til að endurskipuleggja ýmsa þætti þessara mála þar sem flutningaþörfin er á sumum svæðum önnur en áður var. Sumir flóabátarnir eru orðnir gamlir, allt upp í 22 ára, óhentugir og rekstrarkostnaður mjög mikill miðað við þá flutninga sem fyrir hendi eru.

Að dómi n. má það ekki dragast öllu lengur að gerðar verði ráðstafanir til að endurnýja þessa úreltu og óhentugu flóabáta og miða stærð þeirra og búnað allan við þá þjónustu sem veita þarf á hverju svæði.

Nefndinni bárust umsóknir frá 45 aðilum. Halldór S. Kristjánsson deildarstjóri í samgrn. og Guðmundur Einarsson forstjóri Skipaútgerðar ríkisins mættu á fundum n. og veittu henni margvíslegar upplýsingar sem komu n. að verulegu gagni. Nefndin færir þeim sérstakar þakkir fyrir þeirra störf.

Skal nú gerð sérstök grein fyrir hinum einstöku þáttum, sérstaklega að því er hin stærri verkefni varðar, þ.e. flutninga á sjó. Hvort tveggja er, að til þeirra gengur mestur hluti þess fjármagns, sem n. úthlutar, og svo hitt, að um allt það, sem lýtur að sjóflutningum, hefur n. miklu fyllri upplýsingar.

Fyrir liggur, að hækkun rekstrarkostnaðar bátanna hefur orðið enn meiri en almennar verðhækkanir í landinu, enn fremur, að fram þurfa að fara verulegar, viðgerðir á sumum þessara báta á næsta ári ef þeir eiga að vera þess megnugir að veita þá þjónustu sem til er ætlast og nauðsyn er að veita. Af þessu leiðir að ekki verður hjá því komist að dómi n. að veita nú nokkru hærri fjárhæðir til þessara þjónustuþátta en verðhækkunum nemur.

Akraborg: Samkv. rekstraryfirliti frá 1. jan. til 31. okt. 1980 var halli á rekstrinum án afskrifta 91.4 millj., þar með taldir vextir og bankakostnaður upp á 253.6 millj. kr.

Í byrjun þessa árs var eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 266 millj. Til samanburðar skal þess getið, að bókfært verð Akraborgar er 377.2 millj. kr. Í árslok 1979 nam skuld fyrirtækisins við Ríkisábyrgðasjóð 521.6 millj. kr. og reiknar sjóðurinn 3.75% vanskilavexti af skuldinni, þ.e. um 19.6 millj. á mánuði. Um næstu áramót er áætlað að þessi skuld verði orðin 828.2 millj. kr. Bera þessar tölur með sér hvert stefnir ef engar ráðstafanir verða gerðar nú þegar um skuldabreytingar.

Samgrn. hefur yfirleitt fallist á umsóknir fyrirtækisins um gjaldskrárhækkanir á þessu ári, enda er afkoma útgerðarinnar til muna betri en t.d. á síðasta ári.

Á næsta ári þarf að fara fram mikil viðgerð á Akraborg og er gert ráð fyrir að hún komi til með að kosta á annað hundrað millj. kr. Því telur n. að ekki verði hjá því komist að veita Akraborginni í rekstrarstyrk á árinu 1981 75 millj. kr. og stofnstyrk 50 millj. kr.

Hins vegar er það almenn skoðun nm., að ef vanskilaskuldum fyrirtækisins yrði breytt t.d. í 6– 8 ára lán og engar hindranir verða af hendi hins opinbera með breytingar á gjaldskrá fyrir Akraborg ætti að vera hægt að reka þetta skip án allra rekstrarstyrkja, og að því ber að stefna.

þá er Baldur: Flóabáturinn Baldur hefur átt við mikla rekstrarerfiðleika að stríða sem virðast fara vaxandi, og má segja að enginn rekstrargrundvöllur sé fyrir skip af hans stærð og gerð, miðað við flutningaþörfina á því svæði sem Baldur þjónar. Í því sambandi má geta þess, að áburðarflutningar og þungaflutningar, sem hann hefur flutt á hafnir við Breiðafjörð, eru að mestu eða öllu leyti búnir. Hér er um að ræða mál sem ekki verður hjá komist að dómi n. að leysa á næsta ári. Í stað Baldurs þarf að koma skip sem er miðað við þá þjónustu sem þarf að veita byggðunum við Breiðafjörð, og miða verður gerð þess og búnað við að rekstrarkostnaður þess komi til með að verða í lágmarki.

Í trausti þess, að stefnt verði að því að skipta um skip á næsta ári, leggur n. til að rekstrarstyrkur verði 180 millj. kr., en vegna halla á fyrra ári 40 millj. kr. eða samtals 220 millj.

Á fjárlögum þessa árs fékk Baldur í styrk 118.5 millj., en auk þess 25 millj. á aukafjárveitingu vegna rekstrarerfiðleika og mikils viðhaldskostnaðar á þessu ári.

Fagranes: Með umsókn rekstraraðila bátsins er greinargott yfirlit yfir rekstur hans sem af er þessu ári. Þar kemur fram að verulegar líkur eru fyrir því, að rekstur hans standi í járnum á árinu, en ríkisstyrkurinn var 97.3 millj. Útgerð bátsins fer fram á 137.5 millj. kr. framlag til rekstrar og 18.4 millj. vegna halla liðinna ára.

Fagranesið er orðið 16 ára gamalt og er því viðhaldskostnaður á bátnum verulegur. Rekstraraðilar eru farnir að hugleiða að fá hentugra skip til þessara flutninga. Í því sambandi þarf að gera athugun á þjónustuhlutverki báts á þessu svæði þar sem fyrir liggur að miklar breytingar hafa orðið þar á samgöngum á landi.

Samgrn. hefur nýlega skipað nefnd til að gera athugun á samgöngumálum Vestfirðinga og má vænta þess, að þessi þáttur verði sérstaklega athugaður í því sambandi.

Í fréttum hefur komið fram, að Fagranesið strandaði fyrir einum 2–3 dögum og varð fyrir verulegum skemmdum. Gerir rekstraraðili ráð fyrir að á eigendur skipsins komi allt að 10 millj. kr. reikningur fyrir það tjón. Kann að vera að það verði að hlaupa undir bagga, a.m.k. ef þessar skemmdir eru meiri en lítur út fyrir nú.

Drangur er orðinn 22 ára gamall og er því viðhaldskostnaður hans orðinn mikill. Í greinargóðri greinargerð, sem fylgir umsókninni, kemur fram að viðhaldskostnaður er áætlaður 46 millj. kr. á næsta ári og er það veruleg hækkun frá því sem verið hefur. Áætlað er að rekstrargjöld hækki um 90% milli ára eða úr 124 millj. 1980 í 236 millj. 1981. Full þörf er á því að hefja athugun á smíði skips í staðinn fyrir Drang.

Herjólfur: Svo virðist sem rekstraráætlun skipsins, sem fylgdi umsókn um rekstrarstyrk 1980, muni standast í öllum aðalatriðum, nema viðhaldsliðurinn, hann hækkar um 44 millj. kr. Í umsókn um rekstrarstyrk fyrir næsta ár er vakin athygli á því, að gera má ráð fyrir aukinni fjárþörf vegna þessa liðar, bæði að komið er að fjögurra ára skoðun skipsins og nauðsynlegt kunni að reynast að framkvæma kostnaðarsamar endurbætur á skrúfu og skrúfuútbúnaði skipsins þar sem komið hefur fram titringur í búnaðinum.

Fjárhagsvandi fyrirtækisins er mikill og var uppsafnaður fjárhagsvandi þess í byrjun þessa árs talinn vera 131 millj. kr. í lausaskuldum. Rekstraráætlun ársins 1981 er byggð á rauntölum ársins í ár og að hluta til á áætlunum síðustu mánuði ársins með 42% hækkun frá þeim tölum. Gjöld skipsins verða alls 1 milljarður 93.6 millj., en samsvarandi tala fyrir yfirstandandi ár var 810.2 millj. kr. eða hækkun um 35%. Tekjur eru áætlaðar 849.2 millj., sem er 42% hækkun milli ára.

Til þess að ná jöfnuði fer útgerð Herjólfs fram á 244.4 millj. kr. ríkisframlag, en auk þess 140.2 millj. til greiðslu á uppsöfnuðum halla fyrri ára, eða samtals 384.6 millj. kr. Á fjárlögum þessa árs var heildarframlagið 201.3 millj. kr. Samkv. þessu er farið fram á 91% hækkun ríkisframlags.

Ekki er neitt tillit tekið til fjármagnskostnaðar vegna stofnkostnaðar skipsins, en skuld fyrirtækisins við Ríkisábyrgðasjóð nam 1 milljarði 185.6 millj. kr. í árslok 1979, og samkv. upplýsingum sjóðsins er áætlað að hún verði 2 milljarðar 257.6 millj. kr. nú um næstu áramót. Ef yrðu reiknaðir 3.75% dráttarvextir á þessa upphæð mundi hún verða rúmlega 84 millj. á mánuði og þá sjá menn hvað þessi marglofaða vaxtastefna leiðir af sér.

Nefndin telur að ríkisstj. verði nú þegar að taka ákvörðun um hvernig gera eigi upp áfallnar skuldir fyrirtækisins við Ríkisábyrgðasjóð og hvernig standa eigi að greiðslu afborgana og vaxta á næstu árum, og það sama gildir um skuldir Akraborgar.

Hríseyjarferjan: Hríseyingar fengu nýja og glæsilega ferju á árinu 1979, sem leysti af hólmi alls ófullnægjandi farkost. Mikill stofnkostnaður fylgdi þessu nýja skipi eða rúmlega 200 millj. kr. Greiðslubyrðin af þessum kostnaði er talin verða 79 millj. á þessu ári og geymdur vandi frá þessu ári er 20.6 millj. kr. eða 99.6 millj. Rekstrarstyrkur á þessu ári var 16.2 millj. og bendir allt til þess, að töluverður halli verði á árinu. Sótt er um 32 millj. kr. rekstrarstyrk. Nefndin telur, að hægt ætti að vera að mæta þeirri fjárþörf að einhverju leyti með því að hækka gjaldskrá, og leggur því til að rekstrarstyrkurinn verði 25 millj. á næsta ári.

Málefni annarra flóabáta verða ekki rakin hér, en það er Mjóafjarðarbátur, Mýrabátur, Dýrafjarðarbátur og Langeyjarnesbátur.

Við umfjöllun málsins urðu í n. allmiklar umræður um fyrirkomulag umsókna um fjárframlög af þessum lið fjárlaga. Urðu nm. á einu máli um að setja bæri þá vinnureglu, að allar umsóknir skuli hafa borist í hendur n. fyrir 1. nóv. ár hvert, þannig að eðlilegur tími gefist til að fjalla um þær og afla þeirra upplýsinga sem á kann að skorta. Þá er það sömuleiðis skoðun nm., að allir þeir aðilar, sem umsóknir senda og bókhaldsskyldir eru, skuli senda með umsókn afrit af endurskoðuðum reikningum síðasta heils árs vegna rekstrar sem þeir óska að styrktur verði. Aðrir aðilar, einstaklingar eða samtök, sem ekki eru bókhaldsskyldir, skili með umsókn grg. um hvernig áður veitt framlag hafi verið notað og hvernig umsækjandi hyggist nota það framlag sem um er sótt.

Full samstaða náðist í n. um tillögur hennar. Var fjallað ítarlega um hverja umsókn.

Samkv. grg. þeirri, sem nál. greinir frá, leggur samvn. samgm. til að á fjárlagaárinu 1981 verði veitt samtals 1 milljarður 243.8 millj. kr. sem skiptist eins og ég mun nú frekar greina frá.

Til vetrarflutninga í Breiðavíkurhreppi 1 millj. Til vetrarflutninga í Dalahéraði 1.5 millj. Til vetrarsamgangna í Árneshreppi 1.3 millj. Snjóbifreið í Austur-Barðastrandarsýslu 800 þús. Til vetrarflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu 3.5 millj. Snjóbifreið um Botnsheiði 1.5 millj. og stofnstyrkur sömu bifreiðar 3 millj. Snjóbifreið á Hólmavík 1 millj. Vetrarsamgöngur á Auðkúluheiði, Vestur-Ísafjarðarsýslu, 1.5 millj. Snjóbifreið í Önundarfirði 600 þús. Mjólkurflutningar í Súgandafirði 300 þús. Sandsheiði 900 þús. Mjólkurflutningar í Önundarfirði og Dýrafirði 5.6 millj. Flug til Grímseyjar 5 millj. Til snjóbifreiða í Dalvíkurlæknishéraði 600 þús. Vetrarflutningar í Svarfaðardalshreppi 1 millj. Til snjóbifreiða á Akureyri, rekstur 1 millj. Til Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri 1.2 millj. Snjóbifreið í Hálshreppi í Suður-Þingeyjarsýslu 1 millj. Snjóbifreið í Fjallahreppi, rekstur 500 þús., stofnstyrkur 2.5 millj. Snjóbifreið í Austur-Húnavatnssýslu 500 þús. Snjóbifreið í Skagafirði 1 millj. Snjóbifreið í Vopnafirði 900 þús. Snjóbifreið í Kópaskeri í Axarfirði 1.2 millj. Snjóbifreið á Fjarðarheiði, rekstur 10 millj., stofnstyrkur 4 millj., sem er lokagreiðsla á þessum stofnstyrk. Snjóbifreið í Fagradal, rekstur 1.5 millj. og stofnstyrkur 700 þús., sem er einnig lokagreiðsla. Snjóbifreið á Oddsskarði, rekstur 9 millj. og stofnstyrkur 2 millj., sem er enn fremur lokagreiðsla. Snjóbifreið á Fljótsdalshéraði, rekstur 1 millj., stofnstyrkur 300 þús. Vetrarflutningar í Borgarfirði eystra 1.7 millj. Snjóbifreið í Stöðvarfirði, Egilsstaðaflugvöllur 1.4 millj. Vetrarflutningar Djúpivogur-Hornafjörður, rekstur 1.7 millj. og stofnstyrkur 2 millj. Póst- og vöruflutningar í Jökuldal, rekstur 8 millj., stofnstyrkur 2 millj. Svínafell í Nesjum 1 millj. Til vöruflutninga á Suðurlandi 9 millj. Til vöruflutninga í Árneshreppi 5 millj.

Fyrir utan þá báta, sem ég greindi frá áðan, gerir samgöngunefndin tillögu um styrk til Mjóafjarðarbáts, í rekstur 20 millj. og stofnstyrk 10 millj., og Langeyjarnesbáts til rekstrar 1.2 millj., til Mýrabáts til rekstrar 100 þús. og Dýrafjarðarbáts til rekstrar 900 þús., eða eins og áður segir 1 milljarður 243 millj. 800 þús. kr.