19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

1. mál, fjárlög 1981

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það er að vísu ekki í fyrsta skipti sem afgreiðsla fjárlaga fer fram með því að fundir eru haldnir eiginlega daga og nætur, e,n yfirleitt hefur verið reynt að haga fundarhöldum á þann veg að halda ekki kvöldfundi nema tvö kvöld í einu og hafa nokkurt hlé á milli, því að þm. þurfa vafalaust að kynna sér þskj. og þingmál. En nú finnst mér fyrir mitt leyti hafa keyrt um þverbak í þessum efnum. Það eru geymdir frá 2. til 3. umr. stórir málaflokkar. Það er geymd til 3. umr. tekjuhlið fjárlagafrv., og það hefur oft áður gerst, en síðan tekin til umr. þegar komið er kvöld og illa sóttir fundir, enda kannske von að þm. séu orðnir þreyttir á löngum fundum að undanförnu. Þó að þessu verði ekki breytt við afgreiðslu þessara fjárlaga held ég að þingið eigi að sjá sóma sinn í því að breyta þessum vinnubrögðum í framtíðinni. Ég held að ekki verði hjá því komist, eftir að þskj. liggja fyrir og allt fjvn. og þeirra, sem að þeim málefnum standa, að þm. gefist eitthvert ráðrúm til að kynna sér, hvað er verið að bera á borð fyrir þá, og gefist tækifæri til að fræðast af þeim mönnum sem í fjvn. starfa, en hér er haldið áfram á svo mikilli ferð að þm. vita sennilega mjög takmarkað um það sem þeir eiga að greiða atkv. um í fyrramálið. Ég tek það fram, að þetta er ekkert einsdæmi, en er orðinn leiðindasiður sem Alþingi á að breyta að mínum dómi.

Ég hef leyft mér að flytja hér ásamt öðrum þm. nokkrar brtt. Ég flyt ásamt Albert Guðmundssyni nokkrar tillögur sem hann lýsti við 2. umr. og ég þarf engu þar við að bæta, en þó við ég gera nokkuð að umræðuefni eina þá till, sem ég er fyrri flm. að og Albert Guðmundsson flytur með mér, en það er till. um að hækka framlag til sjúkrahúsbyggingarinnar á Ísafirði um 100 millj., í 430 millj. kr.

Undirbúningur að þessari byggingu stóð lengi, hönnun tók óhemjumörg ár. Síðan byggingarframkvæmdir hófust má segja að þær hafi verið með nokkuð góðum hætti þangað til á árinu 1979 eða við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1979. Þá keyrir alveg um þvert bak því að dregið er mjög úr framkvæmdahraða. Menn segja: Ja, hefur ekki verið sæmilegt framlag á fjárlögum 1979 og 1980 og eru ekki 330 millj. nokkurt framlag á árinu 1981? En hér fylgir allstór böggull skammrifi frá framkvæmdavaldinu. Það vantar ekki að Alþingi afgreiði fjárlög yfirleitt fyrir jól, að undanskildu þessu ári, sem var af sérstökum ástæðum, en í stað þess að hefja framkvæmdir og hafa framkvæmdaþætti tilbúna hefur Alþingi af mikilli framsýni fyrir allmörgum árum stofnað til svokallaðrar samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir og þessi samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir fjallar um ákveðna framkvæmdaflokka. Hún hefur tekið sér það vald, ef maður mætti svo að orði komast, að þvælast alltaf fyrir árum saman. Þessi stofnun ákveður sjálf hvað skuli boðið út í framkvæmdum, eins og í sjúkrahúsamálum, og hún þarf ekki að svara heimamönnum í þeim efnum því að hún ákvarðar það sjálf. Í raun og veru setur hún fjvn. og fjárveitingavaldið upp við vegg og segir: Þetta er komið í útboð, þetta höfum við ákveðið, þetta höfum við tekið til og þetta verður framkvæmt. En þó að framlög séu veitt til annarra staða en hljóta náð fyrir augum hennar liggur hún á þeim mánuðum saman og í 50–60% verðbólgu brennur fjárlagaframlagið upp. Það hefur gerst í sambandi við þessa byggingu á Ísafirði sem ég skal koma nánar að.

Núna standa sakir þannig, að búið er að skrifa þessari virðulegu stofnun, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins, bréf og óska eftir að útboð fari fram í næsta áfanga. Búið er að skrifa heilbrrn. bréf og búið er að skrifa heilbrrh. persónulega bréf út af þessu. Fyrsta bréfið er dags. 23. apríl til framkvæmdadeildarinnar og sama dag til heilbrrn. Næsta bréf til framkvæmdadeildarinnar er dags. 30. júní og bréf til sjálfs heilbrrh. er dags. 30. júní, en það kemur ekkert svar. Hvorki framkvæmdadeildin, rn. né ráðh. svara. 12. nóv. skrifar byggingarnefnd þessa sjúkrahúss og heilsugæslustöðvar aftur og spyr nú enn um svör. Síðast þegar ég vissi hafði ekkert svar komið. M.ö.o.: hvað eru svona fínir menn og fínar stofnanir að standa í bréfaskriftum við óheflað útkjálkafólk? Það er fyrir neðan virðingu þessara háu herra. Og meðan brenna framlögin á fjárlögunum upp í verðbólgunni og þeim mun minna fæst fyrir þau. Enn þá eru til menn hér á Alþingi sem telja að það hafi verið stórkostlegt „patent“ að setja upp þessa samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Mikið þurfa þeir menn á góðri endurþjálfun að halda.

Nú segja þeir vísu menn, sem um þetta mál hafa fjallað, að með þessu framlagi verði hægt að klára þátt heilsugæsluhlutans í þessu sjúkrahúsi í árslok 1982. En þá á eftir að kaupa allt inn í þann hluta sjúkrahússins. Jafnvel þó ríkisstj., sem núna situr, taki mun betur á í baráttunni við verðbólguna, eða réttara sagt þegar hún hefur baráttu við verðbólguna, þó að hún nái einhverjum árangri, sé ég ekki fram á að þetta sjúkrahús verði tilbúið fyrr en komið er nokkuð fram yfir árið 2000. Þá á ég einnig við að það eru alltaf látin bíða öll útboð þangað til komið er að áramótum.

Ef mönnum finnst þetta góður búskapur, þá þeir um það. Mér finnst hann ekki góður. Mér finnst hann afleitur. Ég hef áður sagt að ég vilji fara að minnka eitthvað þetta bákn og fækka eitthvað þeim kerfiskörlum sem alls staðar eru að þvælast fyrir og eru að verða þjóðinni til sárra leiðinda og gremju. Ég held að það sé kominn tími til fyrir Alþingi að taka hendurnar úr vösunum og hreinsa eitthvað til og sópa þessu drasli víða út úr húsum og láta þau líta almennilega út. En það er bara komið hér saman þegar menn eru orðnir grútsyfjaðir, slæpir og þreyttir og sennilega lyfta nógu margir upp hendinni á morgun og greiða atkv. með því að þetta sé ekki hægt og það eigi að halda áfram eins og áður.

Ég hef þessi orð ekki fleiri um þetta atriði, en ætla að reyna að mæta við atkvgr. í fyrramálið og greiða atkv. með till. mínum þar og sjá einnig hvað aðrir gera og hvort þeim finnst sanngjarnt hvernig farið er að á þessum stað, sem er stærsti staðurinn á Vestfjörðum, en hefur ekki fengið framlag til heilbrigðismála fyrr en var farið í þessa byggingu. Sjúkrahúsið þar var byggt árið 1925 og var fremsta sjúkrahús á landinu þegar það var byggt, en er fyrir löngu orðið gersamlega úr leik hvað snertir að inna þá þjónustu af hendi sem nú er krafist, enda eru flestir sjúklingar, sem eitthvað er að, fluttir á stóru sjúkrahúsin í Reykjavík. En það er ekki það sem fólkið, sem þarna býr, ætlast til. Það ætlast til þess, að staðið sé við þá löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt, þá stefnu í heilbrigðismálum sem Alþingi hefur markað. Í frv., sem var lögfest árið 1973, var það stefnan að hraða framkvæmdum og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu þar sem hún var bágborin fyrir. Þá geta menn séð hverjar efndirnar hafa verið, sérstaklega síðustu tvö árin, hvað snertir þetta sjúkrahús.

Þá hef ég leyft mér að flytja hér till. um að hækka framlög til sjúkrahúsbyggingar á Hólmavík. Það gerði ég einnig í fyrra og fleiri. Meðflm. mínir að þeirri till: eru þrír þm. Vestfirðinga: Þorv. Garðar Kristjánsson, Sighvatur Björgvinsson og Karvel Pálmason. Við leggjum til að það verði hægt að fara í framkvæmdir á Hólmavík. Í tvö ár í röð hefur verið veitt smáframlag til þessa, en ekki er lokið enn þá hönnun því að nefndin, sem ég minntist á áðan, hefur staðið þar líka í vegi. Í bréfi, sem hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps skrifar, segir að heilsugæslustöðin á Hólmavík hafi verið starfrækt í leiguhúsnæði undanfarin ár. Húsnæði þetta er í eigu sjúkraskýlisins á Hólmavík og er algerlega ófullnægjandi. Húsnæði þetta er allt of lítið og hentar illa. Auk þess þarf sjúkraskýlið nú þetta húsnæði til sinna þarfa. Starfsaðstaða læknis er slæm. Það er líka bent á að þarna er löngum læknislaust og þegar læknir fæst er það aðeins skamman tíma í einu. Það laðar ekki lækna að slíkum stöðum að starfaðstaða er ekki fyrir hendi. Það er því ekki að furða þó að fólkið, sem byggir þetta læknishérað, sé orðið órólegt að bíða eftir framkvæmdum frá hendi löggjafans, framkvæmdum á þeim lögum sem í gildi eru. Við leyfum okkur að flytja hér tillögu um að 80 millj. verði varið á liðnum um byggingu sjúkrahúsa til heilsugæslustöðvar á Hólmavík, 80 millj. komi í stað 30 millj. sem eru inni og þýða að það er ekki hægt að hefja framkvæmdir á þessu ári á þeim stað. Þau eru ekki mörg heilsugæsluhéruðin á landinu þar sem ekki eru komnar heilsugæslustöðvar eða eru í byggingu. Þess vegna er einnig kominn tími til að taka við sér hvað snertir heilsugæslu í þessu byggðarlagi.

Þá leyfum við okkur, sömu þm., að flytja fjórar till. aðrar. Það er í fyrsta lagi till. um hafnarmannvirki í Norðurfirði í Árneshreppi, en Árneshreppur er afskekkt byggðarlag sem er ekki í neinu vegasambandi við önnur byggðarlög nema hásumarið. Það er hvergi upphleyptur vegur frá Kaldrananeshreppi og langleiðina norður í Árneshrepp og þarf feikilega mikið átak að gera í vegamálum þar. Það er því enn brýnni þörf á að taka undir margra ára óskir Árneshreppsbúa um hafnarframkvæmdir í Norðurfirði, en það er verslunarstaður hreppsins. Það eru nú í fjárlagafrv. 19.5 millj. til þessa staðar, til bátalyftu, en ekkert í hafnarframkvæmdir. Við leggjum hér til að í þessa framkvæmd verði varið 40 millj. kr. á þessu ári. Við værum ekki að flytja þessa till. ef þetta væri fyrsta, annað eða þriðja árið sem væri verið að bíða með þessar framkvæmdir. Það er búið að bíða svo lengi að varla er hægt að bíða lengur og þm. Vestfirðinga varla stætt á öðru en vekja athygli þingsins á því.

Nú kunna menn að spyrja: Hvers vegna skiptið þið þá ekki öðruvísi þeim fjárveitingum sem Vestfirðir fá af hlutdeildinni í hafnarframkvæmdum? — Því er til að svara, að sá skammtur hefur ekki verið það burðugur að það hafi verið hægt að skipta því fé með öðrum hætti en gert er. Þar er einnig margt sem verður enn þá að bíða. Vitaskuld verður margt að bíða í framkvæmdum í okkar landi, en ég vek athygli á að þarna er um afskekkt byggðarlag að ræða sem hefur engar samgöngur aðrar, nema þá flugsamgöngur að Gjögri þegar hægt er að fljúga, en það eru margir dagar sem falla þar úr á svona stað.

Í fjárlagafrv. eru framlög í ferjubryggjur. Ég furða mig á skiptingunni á ferjubryggjurnar hjá fjvn. Nú þykir mér leitt að þurfa að fara að skamma þá nefnd sem mér er langkærust af öllum nefndum þingsins, fjvn., og þarf mikið verk að vinna hverju sinni og vandasamt. En þar fór skiptingin þannig fram, að Vita- og hafnamálaskrifstofan benti á viðhald og endurbætur á fjórum ferjubryggjum á Vestfjörðum, en einhver hefur tætt fimmtu ferjubryggjunni inn, ekki veit ég hver það er, enda skiptir það ekki máli. 55 millj. eru á þessum lið, og við þá fimmtu fer skiptingin þannig fram, það er afskaplega einfalt hvernig nefndin vann: Þeir deildu með 5 í 55 og fengu 11 millj. út á hverja bryggju. Þetta finnst mér vera of einföld afgreiðsla á skiptingu á fjármunum og í fyrsta skipti sem engu er varið á fjárlögum til nýframkvæmda við ferjubryggjur. Við flytjum till. um að ferjubryggja verði byggð á Hvallátrum á Breiðafirði og Skáleyjum á Breiðafirði.

Þegar síðasta nýframkvæmd í ferjubryggju var tekin inn, fyrir tveimur eða þremur árum, sem var Hvítanes í Ögurhreppi við Djúp, reiknuðum við með að þeirri framkvæmd yrði lokið á einu ári. Þá var ætlunin að taka aðra þessa ferjubryggju á Breiðafirði næst að dómi þm. Vestfirðinga. Það er byggð í Skáleyjum, en Hvallátrar fóru nýlega í eyði. Þangað er nú að koma ungur og dugandi bóndi sem ætlar að byggja þar upp og nýta föðurleifð sína og hlunnindi öll sem þessar eyjar gefa. Ferjubryggjan getur skipt sköpum um hvort honum tekst að framkvæma áform sín. Það er eftirtektarvert þegar ungur vélstjóralærður maður fer af einum aflasælasta skuttogara landsins og ætlar að setjast að á þessum stað, eins og þessi ungi maður áformar. — Það vantar ekki að búið er að gera áætlanir um uppbyggingu Flateyjarhrepps og það eru fleiri manns bullsveittir við það frá morgni til kvölds og árið út að gera áætlanir. En það verður lítið með þessar áætlanir gert ef aldrei á að veita neitt fjármagn til að framkvæma þær. Það þýðir ekki alltaf að hafa fögur orð um allt, en láta svo efndirnar vanta.

Síðasta till., sem við þessir fjórir þm. Vestf. flytjum, er um 4 millj. kr. framlag í hafnargerð á Djúpuvík, en þar hefur einstaklingur, dugandi skipstjóri og útgerðarmaður, staðið að verulegu leyti fyrir hafnarframkvæmdum, en fengið dálítinn styrk frá ríkinu á s.l. ári. (Gripið fram í: Er það þar sem síldarverksmiðjan er?) Já það er þar sem síldarverksmiðjan er eða „rautt sólarlag“. — Ég skal þá ekki hafa fleiri orð um þessar brtt.

Enn fremur flytja brtt. auk mín Steinþór Gestsson, Karl Steinar Guðnason, Ólafur G. Einarsson, Karvel Pálmason og Halldór Blöndal þess efnis, að framlag til Byggðasjóðs hækki úr 3 milljörðum 750 millj. í 5 milljarða 550 millj. eða um 1800 millj. kr. Til skýringar skal ég geta þess í sambandi við flm., að þeir eru allir stjórnarmenn eða varastjórnarmenn í Framkvæmdastofnun ríkisins.

Ég hrökk dálítið ónotalega við í kvöld þegar ég heyrði fréttirnar í útvarpinu. Þá heyrði ég það haft eftir einum hv. þm., sem er formaður Framkvæmdastofnunar ríkisins, að hann hefði gert góða verslun hér á Alþingi, 6. þm. Suðurl., og fregnin var svo endurtekin í sjónvarpinu, enda mjög merkileg fregn. Það er mjög merkilegt þegar einn þm. segir: Ég er á móti máli. Ég fékk þó skattinn heldur lækkaðan og ég fékk líka loforð fyrir 1500 millj. kr. til Byggjasjóðs og tryggði alveg það sem á vantar Síðan höfðu fréttamennirnir eftir honum að þetta væru hrossakaup í pólitíkinni. Ég hugsaði með mér: Hvað kosta hinir stjórnarþm.? (Gripið fram í: Það er ekki gefið upp.) Nei, það er sennilega rétt að gefa það ekki upp og það hefði sennilega verið réttast að gefa þetta ekki heldur upp. En hvað hugsar almenningur í landinu þegar hann heyrir að menn segja: Ég skal vera með þessu rangláta máli ef ég fæ þetta og þetta? Menn hljóta að hugsa: Eru þetta allt skúrkar þarna á Alþingi? (EgJ: Almenningur er farinn að þekkja þessa ríkisstj.) Já, en það er hart að við hinir, Egill minn, skulum fá óorð af þessu. Ég er alveg gáttaður á þessu. Er þetta virkilega satt, hæstv. fjmrh.? Hagar fjmrh. sér svona? Ég hélt að hæstv. fjmrh. væri saklaus, prúður og strangheiðarlegur maður. Hvað hefur skeð hér? Hvað á sér stað? Ég hélt að ekki hefði þurft að versta neitt fyrir Byggðasjóðinn. Byggðasjóðurinn á lögum samkvæmt örugg framlög sem ríkisstj., bæði fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj., hafa verið að skera niður á undanförnum árum. Hann á að fá í tekjur 2% af gjaldahlið fjárlaganna og hafði það 1977 eða 1.8% af gjaldahlið fjárlaga. 1978 fer hann niður í 1.5% og 1979 fer hann niður í 1.2%. 1980, eftir að þessi ríkisstj. tekur við, fer hann í 0.7% og í fjárlagafrv., sem við erum núna að ræða, er hann 0.7% eins og það var lagt fram, og það tekur töluverðum framförum hér í meðförum Alþingis hvað hækkanir snertir bæði tekna- og gjaldamegin, svo að þetta hlutfall er enn lægra. Ég hef sagt að ég álasi ekki ríkisstj. fyrir það að hún takmarki eitthvað frekar en verið hefur framlög til hinna ýmsu sjóða. Við þurfum að gera það. Ég tel að ef þeir stóru og háu í þjóðfélaginu ætlast til að almenningur fylgi landslögum eigi þeir að gera það líka. Þeir eru ekki hafnir yfir lög. Ef þeir vilja einhvern samdrátt á þessu hefði verið hægur vandi að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuna um breytingu, en ekki þann niðurskurð sem hæstv. fjmrh. leyfir sér að gera.

Byggðasjóður hefur lánað til skipasmíða og það hefur verið ærið stór hluti af lánum hans, sérstaklega vegna innlendu skipasmíðarinnar, og það hafa verið veitt loforð fram í tímann í trausti þess að staðið verði við gildandi lög. En þessi ríkisstj. og fyrrv. ríkisstj. hafa þverbrotið þau og því stendur Byggðasjóður nú uppi févana. Hann getur ekki sinnt hlutverki sínu fyrir því hvað hann er búinn að binda mikið fjármagn í lánsloforðum. Á sama tíma og við teljum að fiskiskipaflotinn sé of stór er hleypt hverju fiskiskipinu á fætur öðru í byggingu til að binda lengur þann flota sem fyrir er, og það er hamast í því að fá afgreiðslu á þessum málum og ekkert spurt að því frá hendi einstakra ráðh. Forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins lagði fram tillögu 25. nóv., sem ekki hefur enn þá verið afgreidd í stjórninni, á þann veg að „stjórn stofnunarinnar samþykkir að lækka viðbótarlán til innlendrar skipasmíði úr 10% í 5% frá og með deginum í dag vegna þeirra nýsmíða sem framkvæmdir eru hafnar við eða samið hefur verið um“. Viðkomandi skulu í góðri trú lánuð 10% viðbótarlán, en þó með því skilyrði að framlög til Byggðasjóðs verði aukin um 1800 millj. kr. Till., sem við erum að flytja hér, er í samræmi við þá till. Hún er þess eðlis, að það verður dregið úr þessum lánum. Það hafa þá orðið snögg umskipti hjá stjórnarmönnum Framkvæmdastofnunarinnar ef þessari till. verður hafnað.

Það vill nú svo til að á fundi sem haldinn var í stjórn stofnunarinnar 24. okt. austur á Höfn í Hornafirði, vakti ég athygli á málefnum Byggðasjóðs og gerði að umræðuefni fjárlagafrv. fyrir árið 1981, en í þessu frv. er gert ráð fyrir framlagi til sjóðsins að upphæð 3 milljarðar 750 millj. kr., lántökuheimild upp á 3 milljarða 150 millj. kr. Lántökuheimild og áætlað eigið ráðstöfunarfé er 1100 millj. kr. Allir stjórnarmenn í Framkvæmdastofnuninni töldu að hér yrði að gera lagfæringu á og þetta gæti engan veginn gengið. Ályktun var síðan samþykkt og stjórn Framkvæmdastofnunar fylgdi þeirri ályktun eftir með viðtölum við þrjá ráðherra, hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. Við sögðum þeim frá því, að þessi skipabyggingalán gætu ekki gengið lengur. Það væri í fyrsta lagi það, að lán, sem veitt væru með þessum hætti, fengjust ekki aftur greidd, það væri útilokað, þau sem færu í innlendu skipasmíðina, enda voru fyrir hálfum öðrum mánuði átta skip, sem byggð höfðu verið innanlands, í vanskilum með afborgun og vexti við Byggðasjóð upp á 1026 millj. kr. auk dráttarvaxta. Fiskveiðasjóður reynir að tryggja sig með því að hækka hlutfallið af aflaverðmætinu, sem fer til hans, allt upp í 20% eða jafnvel hærri upphæð. Það þýðir að sjóður, sem kemur á eftir, fær ekki neitt og lán, sem eftir er að veita, eru fyrir fram töpuð. Hvað segir svo Alþingi eftir nokkur ár við stjórn Framkvæmdastofnunar? Hvað voruð þið að gera með að lána vitlaust og botnlaust til aðila sem ekki geta borgað neitt? Svo ætlast ríkisstj. til að sjóðurinn taki erlend lán upp á 3150 millj. En það þýðir ekkert fyrir Byggðasjóð að haga sér eins við erlendu lántakana og þeir haga sér við Byggðasjóð sem taka lánin innanlands. Þar verður ekkert gefið eftir og þar brennur upp fjármagn Byggðasjóðsins. Er heil brú í þessari fjármálastefnu?

Hvar er hæstv. fjmrh., ég þarf að tala við hann? (HBI: Ég held að hann sé orðinn þreyttur.) Hann verður að koma. Annars frestum við fjárlagaumr. ef hann er þreyttur. (Gripið fram í.) Nei, ég vil sjá hann á meðan.

Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hvað þýðir yfirlýsing sú sem kom í fréttunum í kvöld? Ætlar ríkissjóður samkv. þessari yfirlýsingu að leggja til 1500 millj. kr. umfram það sem er í fjárlagafrv., eða ætlar ríkissjóður að útvega Framkvæmdastofnuninni lán upp á 1500 millj. sem Framkvæmdastofnun á að vera ábyrg fyrir og lána svo aftur þeim sem aldrei munu borga það? Þá vil ég nú segja að formaður stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, ef rétt er síðari tilgáta mín, hafi ekki gert góða verslun og þá sé best að leggja slíka verslun til hliðar. En ég vona að hæstv. fjmrh. upplýsi þetta. Málefni Byggðasjóðs eru ekkert gamanmál. Það hafa sumir kannske, sem e.t.v. eru ekki vel inni í þessum málum, haft oft horn í síðu Byggðasjóðs, og ekki skal ég neita því að einhver mál hafi þar verið afgreidd sem betur hefði mátt með fara. En höfuðverkefnin og eiginlega að mestöllu leyti hafa verið með þeim hætti að þau hafa komið atvinnuuppbyggingu í landinu mjög til góða. Ég er fyrir mitt leyti einlægur stuðningsmaður Byggðasjóðs. Fjmrh.: Það eru fleiri.) Já, þá verða þeir að sýna það í verki, þessir fleiri, en ekki með því að leggja fram þetta fjárlagafrv., sem hæstv. ráðh. hefur gert, og líka fjárlagafrv. fyrr á árinu fyrir 1980, og sömuleiðis fyrirrennari hans og sá sem var þar á undan.

Það er af mörgu að taka og um margt að tala í fjárlagafrv., en það verður ekki gert eins og háttað er tíma og umr. Mig langar samt til að gera eitt mál nokkuð að umræðuefni, en það er landhelgisgæslan.

Þegar við stöndum eða höfum staðið í deilum við útlendinga telur öll þjóðin að það eigi að styðja og styrkja landhelgisgæsluna. En mér finnst að þær athafnir, sem hafa verið í sambandi við gæsluna á þessu ári, sérstaklega seinni hluta ársins, hafi ekki borið því vitni að styrkja eigi stöðu gæslunnar. Ég fagna kaupunum á hinni nýju flugvél og komu hennar, en ég er mjög andvígur því að selja Fokker F-27 vélina, sem er seld fyrir 675 millj., aðeins 1/5 hluta andvirðis nýrrar flugvélar. Mér finnst líka stórhættulegt að taka þá stefnu, sem nú hefur verið tekin, án þess að áætlun stjórnvalda liggi fyrir í landhelgis- og gæslumálum. Hún liggur engan veginn fyrir. Það er verið að selja flugvél. Það er verið að taka úr notkun og selja tvö varðskip, Þór og Árvakur. Árvakur er vitaskip sem er sérhæft, og ég tel fyrir mitt leyti rangt að selja það. Þór læt ég liggja á milli hluta. Það getur verið gott og skynsamlegt oft að selja skip þegar þau eru orðin gömul og úrelt. En það er ekkert talað um að neitt nýtt þurfi að koma í staðinn, bara að selja og selja. Við færum út í 200 mílur, við höfum losnað að verulegu leyti við útlendinga, en það þarf líka enn að spyrna útlendingum frá 200 mílna fiskveiðilögsögu. Þó að við höfum haft nokkuð góða gæslu í lofti á undanförnum árum hefur sú gæsla aðeins náð að miða út brotleg skip, en það hefur þá ekki verið til varðskip til að hirða sökudólgana, sækja þá. Það þýðir ekki að vera að tala um að stækka landhelgina og friða hana fyrir útlendingum, en draga svo saman seglin í löggæslu í fiskveiðilögsögu okkar. Ég held að meira hafi ráðið um þetta mennirnir í fjmrn. með hnífinn á gæslunni en skynsemin. Ég er þó ekki með þessum orðum að segja að ekki megi ýmislegt betur fara hjá Landhelgisgæslunni eins og öllum öðrum stofnunum í landinu. Að sjálfsögðu ber að líta á það mál af fullri sanngirni og velvilja.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.