19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

1. mál, fjárlög 1981

Guðmundur Karlsson:

Herra forseti. Þar sem þeir félagar mínir úr 1. minni hl. fjvn., þeir hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 10. þm. Reykv., gera afstöðu okkar til afgreiðslu fjárlaga glögg skil ætla ég að leyfa mér að fara fáum orðum um stöðu og horfur í sjávarútvegi, fiskvinnslu og útgerð nú um áramótin.

Þótt oft hafi syrt í álinn held ég að sjaldan eða aldrei hafi horfur verið jafndökkleitar og nú á þeim vettvangi. Framleiðsla og útflutningur frystra afurða hefur aldrei verið meiri en á þessu ári og verð í flestum tilvikum hátt, en afkoma frystihúsanna flestra slæm og margra mjög léleg. Jafnframt benti margt til þess, að staða þeirra mundi enn versna á þessu ári. Forráðamenn frystihúsanna margvöruðu við þessari mjög neikvæðu þróun, en töluðu fyrir daufum eyrum. Því miður reyndust þeir sannspáir, eins og í ljós kom s.l. sumar og haust þegar fjöldi frystihúsa varð að stöðva rekstur um lengri eða skemmri tíma vegna fjárhagsörðugleika. Hér varð ekki bágum ytri skilyrðum um kennt, heldur óstjórn og ráðleysi í íslenskum efnahagsmálum og duglausri ríkisstj.

Sem dæmi um þróunina má taka að frá byrjun árs 1979 til ársloka hækkuðu laun í fiskvinnslunni um 51.6%. Hráefni hækkaði á sama tíma um 59.7%. Þá hækkuðu flestir rekstrarliðir og þjónusta að sama skapi a. m. k, og jafnvel meira, svo að ekki sé minnst á vextina því að vaxtastefna sú, sem fylgt er, er að kafkeyra alla framleiðslu í landinu. Láta mun nærri að afurðalánavextir í fiskvinnslu séu nú milli 70 og 80% þegar tillit er tekið til 5% gengissigs á mánuði eins og verið hefur. Menn spyrja hve lengi slík vitleysa geti gengið og hver samkeppnisaðstaða fyrirtækja með slíkar byrðar sé. Stærstur hluti tekna hraðfrystiiðnaðarins er vegna útflutnings sem greitt er fyrir í bandarískum dölum, en verð helstu tegunda hélst að mestu leyti óbreytt í erlendri mynt allt árið 1979. Á sama tíma hækkaði verð á dal aðeins um 24.2%. Frá ársbyrjun 1979 fram til nóvembermánaðar í ár hefur hækkun launa verið í fiskiðnaðinum 37%, hækkun hráefnis 137%, en hækkun á bandaríska dalnum aðeins 82.

Fyrir fáum árum var stöðug og mikil hækkun fiskverðs í Bandaríkjunum eins konar náttúrulögmál sem íslensk stjórnvöld gátu treyst á til bjargar úr efnahagsörðugleikum, en slíkt er nú liðin tíð og þar er ekkert á að treysta fremur en annars staðar á mörkuðum okkar. Gengið á að vera skráð miðað við afkomu veiða og vinnslu, en stöðugt er stimpast við að viðurkenna orðnar staðreyndir í efnahagslífinu og oftast dregið að færa skráninguna til sannvirðis og framleiðslufyrirtækjunum látið blæða á meðan, enda ekki að undra þótt stjórnvöld hiki við að viðurkenna og opinbera eigin ósigur. Hér gefur að líta hluta af neðanjarðarhagkerfinu. Þar sem ríkisstj. neitar orðnum staðreyndum þegar starfsgrundvöllur fyrirtækjanna er ákveðinn er raunafkoma ársins framreiknuð. Nú stendur svo á að byggt verður á raunafkomu ársins 1978. Þá var afkoman mjög léleg yfir heildina, viðhald og fleiri kostnaðarliðir dregnir saman og koma því hvorki rétt né sanngjarnt fram í framreikningunum. Þá skekkir stöðugt vaxandi verðbólga útkomuna mjög og gefur ranga mynd. Breytingar á vaxtakjörum hafa verið mjög neikvæðar frá miðju árinu 1979, en þá voru ákveðnir grunnvextir og verðbótaþáttur að auki sem mjög verður erfitt að meta inn í afkomu ársins og framreikna.

Þótt látið sé í veðri vaka að stefnt sé að hinum svo kallaða núllpunkti í afkomu á meðalfyrirtæki er langt frá því, að hér sé jafnvægi náð í afkomu, því aldrei hafa vextir af eigin fé verið virtir í útreikningunum og verður þetta því óréttlátara sem vextir verða hærri. Í fiskvinnslu áætlar Þjóðhagsstofnun vextina 8.4% af tekjum eða 23.8 milljarða, en vextir og gengissig af afurðalánum lætur nærri að séu 12% af tekjum ársins 1980 eða um það bil 50% af launalið í fiskvinnslunni, og eru því vextir í fiskvinnslunni vanmetnir um 8–10 milljarða. Einnig er launaliður vanmetinn og þrátt fyrir áætlaðan núllpunkt hafa hlaðist upp vanskil hjá fiskvinnslunni og útgerðinni. Þrátt fyrir tól sín og tæki sjá reikningslista- og spámenn ríkisstj. ekki við verðbólgunni og spár þeirra og framreikningar standast ekki sem skyldi þegar á reynir.

Rafmagnskostnaður í fiskvinnslu er gífurlega hár og misjafn kringum landið og er gjarnan vanmetinn kostnaðarliður í framreikningi. Í fiskiðnaðinum, sem er í raun okkar eina innlenda stóriðja og ef á heildina er lítið stórkaupandi rafmagns, sýnist hvorki ósanngjarnt né óeðlilegt, miðað við gildi fiskvinnslufyrirtækjanna fyrir sveitarfélögin úti á ströndinni og fyrir þjóðarbúið í heild, að rafmagn fengist við sama verði og stóriðjufyrirtæki, sem verið er að byggja upp með aðstoð og í sameign með útlendingum og með erlendu fjármagni, greiða. Frystihúsin hafa yfirleitt stöðugan rekstur árið um kring og hljóta því að teljast fastur og áreiðanlegur orkukaupandi.

Um Verðjöfnunarsjóð er það að segja, að hann hefur til þessa skilað hlutverki sínu með ágætum því að viðmiðunarverð var ákveðið í erlendri mynt. En nú er staða í frystideild hans með þeim hætti, að um það bil 1 milljarð vantar til að ljúka greiðslum þessa árs og ekki króna eftir til að mæta næsta ári. Ekki verður sjóðnum bjargað með gengisfellingu með því fyrirkomulagi afurðalána sem nú er í gildi.

Nú stöndum við frammi fyrir því, að sjómenn hljóta að gera kröfur um 20–30% fiskverðshækkun um áramót. Til að halda sínum hlut í launum miðað við landverkafólk verða þeir að fá 22% hækkun. Skyldi maður því ætla að fiskverðshækkun verði ekki undir 15 – 20% um áramótin. Jafnvel þó olíugjald yrði með öllu fellt niður yrði hlutur fiskvinnslunnar í hækkuninni ekki undir 14–15%. 15% hækkun á hráefni og afkoma frystingarinnar á núlli þýddi 15% gengisfellingu við þessar aðstæður. Sjómenn verða að fá leiðréttingu launa sinna, útgerðinni veitir sannarlega ekki af sínum hlut, en fiskvinnslan, a.m.k. frystingin, þolir enga hækkun við óbreyttar aðstæður, enda hefur hún hlaðið upp lausaskuldum á þessu ári. Væri sannarlega forvitnilegt fyrir hv. alþm. að fá upplýsingar um hvernig ríkisstj. ætlar að leysa þennan mikla vanda nú um áramót meðan þeir eru fjarri góðu gamni. Verður gerð fyrirkomulagsbreyting á Verðjöfnunarsjóði og afurðalánafyrirkomulagi? Segja má að endurgreiðsla á gengismun í haust hafi verið viss viðurkenning á að afurðalánakerfið hafi brugðist. Verður byrjað á að fella nýkrónuna okkar um 15 – 20%? Eða hvernig ætlar ríkisstj. að taka á þessum vanda?

Um ástandið hjá útgerðinni þarf vart að vera margorður því að allar greinar hennar eru nú reknar með meira eða minna tapi. Í yfirlitsræðu formanns LÍÚ á landsfundi samtakanna nýlega kom fram að hin gífurlegu vanskil, sem safnast hefðu hjá útgerðinni, næmu yfir 30 milljörðum kr. og að dráttarvextir einir af vanskilunum yrðu um 17 milljarðar á ári eða 1425 millj. á mánuði. Skuldaskil þau, sem nú eru boðuð, eru því sannarlega ekki að ófyrirsynju, en spurning er hvaða tilgangi það þjónar að hlaða lánum á lán ofan með þeim vaxtakjörum sem í boði eru. Þarna pissa menn bara í skóinn sinn, því að flest eru lánin aðeins til 5 ára og annaðhvort á lánskjaravísitölu eða verstu kjörum Fiskveiðasjóðs, sem eru litlu betri kjör en að greiða dráttarvexti af öllu saman. Það verður fróðlegt að bera saman tap sjávarútvegsins, útgerðar og fiskvinnslu, við gróða Seðlabanka og Fiskveiðasjóðs nú í árslok og sjá hvort nemur hærri fjárupphæðum.

Ef svo fer fram sem horfir sjá bæði einstaklingar og fyrirtæki í þessum atvinnuvegi fram á greiðsluþrot. Með því er að vísu þjónað tilgangi þeirra þjóðfélagsafla sem vilja flytja rekstur og eign atvinnutækjanna frá einstaklingunum yfir til ríkisins.

Hv. alþm., þegar við nú afgreiðum einhver mestu verðbólgufjárlög í sögu þjóðarinnar skulum við hafa í huga að öll útgerð landsmanna er rekin með stórfelldu tapi. Söltun situr nokkurn veginn við slétt borð, enda hefur vinnufriður haldist allt árið og afurðir sendar jafnharðan út á markaðina og því lítill vaxtakostnaður í greininni. Eina vinnslugreinin, sem skilar sæmilegri afkomu, er herslan sem alltaf verður að líta á sem hálfgert fjárhættuspil. En frystiiðnaðurinn, eini raunverulegi stóriðnaður þjóðarinnar, stendur frammi fyrir hrikalegri vandamálum en nokkurn tíma áður um áramót. Það fólk, sem starfar að framleiðslu og útflutningi, spyr hve lengi ríkisstj. og Alþingi ætli að halda áfram að flytja út heimatilbúna óðaverðbólgu og hvenær komi að þeim tímamótum að erlendur markaður taki ekki lengur við óráðsíunni.