19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

1. mál, fjárlög 1981

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þeir hafa, samnm. mínir í hv. fjvn., bæði gert grein fyrir tillögum, sem n. stendur að, og eins fyrir viðhorfum 1. minni hl. og þarf ég þess vegna ekki að koma inn á öll þau mál sem æskilegt hefði verið að ræða við 3. umr. og ekki gafst tími til að fjalla um við 2. umr. fjárl. Þar flutti ég reyndar enn fremur ræðu. Í henni fjallaði ég sérstaklega um nokkur atriði sem voru þá nýkomin fram, eins og t.d. vörugjaldið sem sumir kalla Guðmundarskattinn, en aðrir hrossakaupalögin, en þau eru dæmi um skattaaukningu sem byggist á því, að hæstv. ríkisstj. notfærir sér bágindi atvinnugreinar í landinu. Nánar tiltekið gerist það með þeim hætti, að inn í fjárlög eru settir 2.7 milljarðar undir yfirskriftinni „aðlögunargjald,“ þótt vitað sé að innan hæstv. ríkisstj. sé engin eining um slíkt. Svo þegar fella þarf þetta gjald niður, eins og allir vissu að stóð til um áramót, er efnt til nýrrar skattheimtu og látið líta svo út að hún komi í staðinn fyrir aðlögunargjaldið. Um þetta höfðum við fjallað í báðum deildum Alþingis á undanförnum dögum, og það er ekki skrýtið að brestur hafi komið í stjórnarliðið þegar um þetta mál var fjallað.

Ég minntist jafnframt á verðbólguþróunina í ræðu minni við 2. umr. fjárlaganna og benti á þá staðreynd, að íslensk verðbólga, innlend verðbólga, sem stundum er kölluð svo, hefur losnað frá hinni alþjóðlegu verðbólgu. Verðbólga á Íslandi er orðin frá 5 og upp í 10 sinnum meiri en í nágranna- og viðskiptalöndunum, í stað þess að vera frá helmingi til þrisvar sinnum meiri, eins og hún var um árabil. Ástæðan er sú, að verðbólgan fylgir innlendum lögmálum og aðeins lítill hluti hennar er innfluttur. Á þetta leggur raunar seðlabankastjóri áherslu í nýlegri grein, sem ekki var komin fram þegar við ræddum saman við 2. umr. fjárlaga. Hann staðfestir þetta og segir til viðbótar að líkast til sé eini möguleikinn til að ná þessari verðbólgu niður að gera það með samstilltu snöggu átaki sem standi yfir í mjög stuttan tíma, þvert á þær skoðanir sem nú virðast vera ráðandi í stjórnarherbúðunum og barist er fyrir undir merkjum svokallaðrar „niðurtalningar.“ Það er eðlilegt að þessi viðhorf komi upp núna hjá þeim mönnum sem taldir eru fróðastir og færastir í þessum málum. Þetta þóttust aðrir hafa vitað fyrir nokkrum mánuðum.

Ég sýndi fram á svikin loforð í ræðu minni, — svikin loforð sem kæmu fram í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj., — og átti reyndar von á því, að hæstv. fjmrh. tæki þá málið upp og reyndi að svara því á einhvern veg og þá sérstaklega þeim þáttum sem sneru að húsnæðismálunum. Það var ekki gert, aðeins var kroppað í málið. Nokkrum dögum síðar kom hæstv. félmrh. í ræðustól hér á hv. Alþingi og sagði að það væri ekki tími til að tala um þessi mál núna, við skyldum ræða þau seinna. Það blasir við sú staðreynd í húsnæðismálunum að það vantar bein framlög úr ríkissjóði á bilinu frá 4.6 milljörðum og upp í tæpa 12 milljarða, eftir því hvernig reiknað er, en lægra er ekki hægt að komast, hvernig sem lítið er á málið, það er almennt viðurkennt.

Hv. síðasti ræðumaður ræddi nokkuð um opinberar framkvæmdir og lögin um skipan opinberra framkvæmda, og það gerði ég reyndar líka í ræðu minni við 2. umr. Ég benti þá á að 20. gr. þeirra laga, um skilamat, hefði aldrei komið til framkvæmda. Ég get verið hjartanlega sammála síðasta hv. ræðumanni um að auðvitað á að breyta þessu, og það verður gert að sögn forráðamanna ríkisendurskoðunar annars vegar og forráðamanna framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar hins vegar. Um þetta mál ræddi ég afar ítarlega og benti á þessi atriði og get verið síðasta ræðumanni fyllilega sammála um að það er ástæða til að athuga gaumgæfilega hvort ríkisendurskoðunin á ekki fremur heima undir Alþingi en undir framkvæmdavaldinu.

Ég ræddi í ræðu minni jafnframt um málefni Reykjavíkurborgar og lagði fsp. fyrir hæstv. fjmrh. af því tilefni að nú skuldar ríkissjóður Reykjavíkurborg frá a.m.k. 3 milljörðum að tæpum 6 milljörðum, sé talað um verðlag fjárlagafrv., vegna sjúkrahúsabygginga í Reykjavík. Á fjárlögum ársins í ár er heimildargrein fyrir hæstv. ráðh. um að semja við Reykjavíkurborg. Sú heimildargrein verður áfram í fjárlögum samkv. fjárlagafrv. Ég fagna því svari hæstv. fjmrh., sem hann gaf við þessari fsp., að hann sé tilbúinn fyrir sitt leyti að beita sér í þessu máli og að hann tók undir þau sjónarmið, að til greina kæmi að ríkið afhenti upp í þessa skuld landspildu sem er eign ríkisins, en er á Reykjavíkursvæðinu.

Um tæknileg atriði, sem snerta fjárlög, núllgrunn og nýjar aðferðir við fjárlagagerð, ætla ég ekki að fjalla að þessu sinni, en tek undir orð síðasta ræðumanns um núllgrunninn að skoða þarf það mál vandlega. Því miður hefur ekki gefist tími til þess, en við höfum loforð fyrir því, ekki einungis í fjárlagafrv., heldur af vörum hagsýslustjóra, að það verði gert eftir áramótin. Ég hygg að hv. fjvn. ætli sér að fylgjast vel með framkvæmd þeirra mála.

Á bls. 192 í fjárlagafrv, er fjallað um Rannsóknaráð ríkisins. Þar er langur texti um samþykktir ályktana Alþingis og ríkisstj. um gerð langtímaáætlana, um grunnstærðir stofnana, samræmingu á gjaldskrá og slík atriði sem ég hygg að fáir þm. gefi yfirleitt gaum. Í tilefni af því, að í fjárlagafrv. kemur fram að ekki var lokið við að endurskoða í frv. þau atriði sem snúa að rannsóknastofnunum og Rannsóknaráði, tel ég ástæðu til að fara örfáum orðum um þessi atriði.

Það fjármagn, sem varið er til rannsókna og þróunarstarfsemi í þágu úrvinnslugreinanna, er miklum mun lægra en eðlilegt getur talist, bæði í alþjóðlegum samanburði og í samanburði við það sem varið er til þessarar starfsemi í þágu frumvinnslugreinanna. Þetta kemur fram í því, að til byggingariðnaðar og fiskvinnslu er einungis varið nálægt 0.2–0.3% af vinnsluvirði í þessum greinum, en hins vegar milli 2 og 3% til fiskveiða og landbúnaðar og raunar yfir 6% vegna orkuframleiðslu. Í samanburði við önnur lönd ætti hlutfallið í úrvinnslugreinunum sjálfsagt að vera vel yfir 1%, e.t.v. eðlilegt að stefna að 1.5–1.8%. Sömuleiðis er þáttur fyrirtækja í því að kosta rannsóknir og þróunarstarfsemi mun minni hér á landi en annars staðar gerist, t.d. í öðrum ríkjum á Norðurlöndum. Þetta tvennt er að áliti framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs stærstu vanþróunarþættir í rannsókna- og þróunarkerfinu og um þetta mun Rannsóknaráð ríkisins hafa ályktað á fundi sínum s.l. vor. Jafnframt því sem þessar staðreyndir liggja fyrir beinast nú augun mjög að eftirtöldum greinum:

1. Í fyrsta lagi er iðnaður talin vaxtarbroddur framtíðarinnar og efnahags- og atvinnulíf er talið munu byggjast að verulegu leyti á þeirri nýsköpun sem verði á vettvangi iðnaðar. Jafnframt er ljóst að stórauka þarf framleiðni í hinum starfandi iðnaði og því auka þá aðstoð sem hann fær frá stofnunum iðnaðarins í því sambandi.

2. Vitað er að í byggingarstarfsemi þarf að tryggja skynsamlega notkun fjármuna og getur skortur á þekkingu valdið milljarðatjóni, ef ekki er beitt þekkingu til að tryggja rétt val og notkun efna í mannvirkjagerð við hérlendar aðstæður. Sömuleiðis eru stórfelldir möguleikar til nýsköpunar í byggingarefna- og byggingareiningaiðnaði.

3. Benda má á vaxandi markaðserfiðleika í sjávarútvegi og nauðsyn þess að halda uppi öflugri vöruþróunar- og umbótastarfsemi í fiskiðnaði og efla leit að nýjum vinnslumöguleikum og betri nýtingu þess hráefnis sem landað er úr sjó. Miklu varðar að rannsókna- og þróunarstarf á þessum sviðum sé í sem nánustum tengslum við raunveruleika atvinnulífsins og að fyrirtækin sjálf séu með í því að ákveða hvaða verkefni eru valin og hvernig fjármunum er varið í þessu sambandi. Það er því rökrétt og eðlilegt, að um leið og stefnt er að auknum rannsóknum og þróunarstarfsemi á þessu sviði verði leitað eftir auknu fé frá fyrirtækjum og þannig reynt að láta sjónarmið þeirra ráða ferðinni að nokkru og tryggja þannig að niðurstöður verði hagnýttar sem fyrst. Með hliðsjón af þessum viðhorfum hefur framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins samþykkt að leita eftir stuðningi atvinnuveganna, Alþingis og stjórnvalda við eftirtalda stefnu, sem kemur fram í þremur liðum:

1. Að fyrirtækjum verði veitt sérstök heimild til að draga frá skatti 50% umfram þann raunverulega kostnað sem fyrirtækin verða fyrir af rannsókna- og þróunarstarfsemi sem stunduð er hjá þeim sjálfum eða þau greiða fyrir hjá öðrum aðilum, þ. á m. opinberum stofnunum. Með þessu fái fyrirtækin hvatningu til að auka hlutdeild sína á þessu sviði.

2. Þær rannsóknastofnanir, sem þjóna úrvinnslugreinunum, þ.e. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Iðntæknistofnun, fái fyrirmæli um það frá stjórnvöldum að leita sér í vaxandi mæli eigin tekna og bjóða fyrirtækjum svo og öðrum stofnunum, þ. á m. opinberum sjóðum, aðild að rannsókna- og þróunarverkefnum sem þær vinna og að mati þessara aðila þættu gagnleg.

3. Til að hvetja stofnanir í þessu skyni væri þeim gefið fyrirheit um að þær fengju á fjárlögum auknar fjárveitingar, sem næmu helmingi þess sem þær ykju rauntekjur sínar um milli ára, og þannig stefnt að því, að þriðjungur af kostnaði við starfið kæmi af fjárlögum, en 2/3 hlutar frá sjóðum og stofnunum sem með öðrum hætti styðja umbótastarf hjá atvinnuvegunum, t.d. Húsnæðisstofnun ríkisins, Framkvæmdastofnun og fleiri slíkar.

Það er skoðun ýmissa framámanna rannsókna- og þróunarstarfseminnar í landinu, að ef samstarf næðist um þessa stefnu væri hægt að tryggja gagnlegri uppbyggingu stofnana og skynsamlegri nýtingu fjármagns sem til þeirra yrði varið en með beinum fjárveitingum á fjárlögum samkv. hefðbundnum hætti. Enda þótt stefnumótun með þessum hætti yrði viðurkennd væri engin ástæða til að hætta að meta verkefni stofnananna eða hætta að bregða mælistiku á verkefni stofnananna og halda við hugmyndum um núllgrunnsáætlanagerð og bæta innri stjórnun stofnananna. Talið er að kostir stefnumótunar af þessu tagi séu þeir, að hún er einföld og skýr gagnvart öllum aðilum málsins og ætti að verka mjög ákveðið í þá átt sem stefnt er að. Hún er einnig einföld í framkvæmd gagnvart þeim sem þurfa að hafa eftirlit með henni.

Ég hef gerst nokkuð langorður um þennan þátt, en vil vekja athygli á honum öðrum þræði vegna þess að ég tel, að í fjárlagafrv. hafi ekki verið gætt sem skyldi að hlut Iðntæknistofnunar Íslands, og bendi á að samtök iðnaðarins a.m.k. hafa lýst yfir stuðningi við þá stefnu sem kom fram í því sem ég las rétt áðan.

Mig langar til að vekja næst athygli á afgreiðslu á málefnum tveggja B-hluta stofnana. Ég hef áður fjallað í ræðu um fjárlög um Þjóðleikhúsið. Önnur stofnunin, sem ég ræði um núna, er Ríkisskip, hin Ríkisútvarpið.

Ég tel ástæðu til að vek ja athygli á því, að engin sérstök markmið virðast vera með starfsemi og rekstri Ríkisskips. Það er að vísu talað um byggðastefnu, það er talað um félagslegan þátt, bæði hjá Ríkisskip og eins hjá RARIK, en slíkt er ekki skilgreint neitt frekar. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar, eins og ég hygg að flestir aðrir þm. séu, að halda eigi úti lágmarksþjónustu og greiða eigi með fjármunum skattborgaranna til slíkrar þjónustu — samgönguþjónustu á borð við Ríkisskip. En það hlýtur að vera umhugsunarefni þegar ríkissjóður þarf að borga 1730 millj. eða 45% af rekstrarkostnaði fyrirtækisins, eins og kemur fram á fjárlögum næsta árs. Þetta er þeim mun athyglisverðara þegar haft er í huga að því er haldið fram af öðrum flutningaaðilum í landinu, sem telja sig jafnvel vera skattaða enn meira en Ríkisskip er sem sleppur að sjálfsögðu við allflesta skatta, að Ríkisskip stundi undirboð í sambandi við farmsamninga og vöruflutninga. Þá hefur ekki komið nægilega skýrt fram, finnst mér, að nú hefur verið tekin ákvörðun um að byggja nýtt skip. Það kemur fram í lánsfjáráætlunarbrotunum sem liggja fyrir. Slík ákvörðun er auðvitað mikilvæg, en hún hefur hvergi verið rædd. Ljóst er að hún hefur verið tekin orðalaust.

Varðandi Ríkisútvarpið get ég verið stuttorður. Ég býst við að hv. 5. þm. Vesturl. eigi þar eftir að svara ásökunum sem fram komu á hendur honum af hálfu þingbróður hans, Alexanders Stefánssonar, sem var síðasti ræðumaður, því að fullyrðingar eins og þær, sem komu frá hv. 1. þm. Vesturl., voru algerlega út í bláinn. Það get ég vottað sem fjvn.-maður með hv. 5. þm. Vesturl. þegar hann var formaður n. og jafnframt nú í ár. Það er eðlilegt að fram komi tillögur á borð við þá sem hv. þm. Eiður Guðnason hefur flutt, vegna þess að Ríkisútvarpið fær ekki gjaldskrárhækkanir til að koma fjármálunum í það horf að eitthvað sé til upp í þann skuldahala sem hefur myndast, en skuldahalar eru sjúkdómseinkenni hjá Ríkisútvarpinu á tímum vinstri stjórna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt skeður hjá þessari stofnun. Það virðist fylgja vinstri stjórnum. Sama ástand var uppi um áramótin 1974–1975, þegar vinstri stjórn hafði setið um þriggja ára skeið.

Þá langar mig til að vekja athygli hv. þm. á breytingu til lækkunar frá frv. um 200 milljarða, á þskj. 326, 101. tölul., um Landspítalann, þar sem tekið er af liðnum K-bygging og fært á annan byggingarlið á landspítalalóð. Ég bendi á þetta sérstaklega vegna þess að það er almenn skoðun, að K-byggingin sé næsta stórverkefni sem verður að ráðast í ef full not eiga að verða af Landspítalanum. Í K-byggingunni eiga að vera svokallaðar stoðdeildir legudeilda spítalans og þar á að fara fram rannsóknarstarfsemi og ýmiss konar sérmeðferð. Á þetta bendi ég vegna þess að það hlýtur að koma að því og það verður að gerast á næsta ári, að hæstv. ríkisstj. geri upp við sig hvernig hún ætlar að standa að uppbyggingu á heilbrigðissviðinu. Það kerfi, sem gildir um stofnkostnað í heilbrigðismálunum, er algerlega sprungið. Það kemur fram í því, að ríkið skuldbindur sig til að greiða 85% af kostnaði sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva um allt land. Menn verða að fara að átta sig á því að 200 þús. manna byggð, eins og er hér á landi, sem krefst þess að heilbrigðismál séu í svipuðu horfi og í nágrannalöndum, verður að gerast með öðrum hætti en hefur þróast undanfarin ár.

Þá vil ég næst vekja athygli á því, að hefð er brotin í störfum fjvn. og samskiptum hæstv. fjmrh. við nefndina, því að á liðnum Styrkur til dagblaða hefur orðið hækkun frá fjárlögum til frv. Þetta er athyglisvert, vegna þess að þessi liður hækkaði langt umfram meðaltal á fjárlögum yfirstandandi árs, eða úr 60 millj. í 100 millj., en tekur nú risastökk í frv., um 70 millj., sem er þá auðvitað 70% hækkun og langt umfram verðlagsforsendur fjárlagafrv. Þessi hækkun er aftur á móti sniðin við þær verðlagsforsendur sem Þjóðhagsstofnun hefur bent á að tryggara væri að reikna frv. eftir. Þetta er athyglisvert þegar haft er í huga að nokkrir þm. hafa verið látnir flytja slíkar hækkunartillögur á undanförnum árum. En nú er brugðið á þetta ráð. Ég hygg — ég skal segja það umbúðalaust — að ástæðan sé einfaldlega sú, hve Þjóðviljinn er illa staddur fjárhagslega.

Að auki er í frv., eins og á síðasta ári, heimild fyrir fjmrn. til að festa kaup á 250 eintökum af dagblöðum. Ég veit að hv. þm. Albert Guðmundsson mun gera þetta að umtalsefni. Mér finnst algerlega út í bláinn að taka slíkt inn sem sérlið. Auðvitað eiga stofnanir ríkisins að kaupa dagblöð, ef á þarf að halda, og taka fjármagn af rekstrarliðum, en það á ekki að koma fram í slíkum styrkjum. Reyndar veit ég að sumt af þessum styrkjum er ekki ætlað til dagblaðakaupa, heldur til að kaupa eða styrkja byggðablöð svokölluð. Hluti af þessu fjármagni fer þangað, en þó mikill minni hluti þess fjármagns.

Nokkuð hefur verið rætt um það á undanförnum árum, að jafna þurfi símakostnað landsbyggðarinnar og á Reykjavíkursvæðinu. Í því sambandi hafa forráðamenn Pósts og síma bent á að það þurfi svokallaðan Karlssons-talningarútbúnað á Símstöðinni í Reykjavík. Það skal tekið fram að annað árið í röð féllst fjvn. ekki á að taka inn í heimildargrein texta sem kominn er frá samgrn. og hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Að endurgreiða aðflutningsgjöld af nýju gjaldheimtukerfi fyrir innanbæjarsamtöl á höfuðborgarsvæðinu, sbr. pöntun Póst- og símamálastofnunar nr. 95 7935 og pöntunarstaðfestingar L. M. Ericson nr. 800 6593.“

Þetta þýðir að fjvn. fellst ekki á að 135% tollur sé endurgreiddur úr ríkissjóði. Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta þar sem ákvörðun um að panta þessi tæki var á sínum tíma tekin af hæstv. samgrh., sem þá hét Ragnar Arnalds, en það er sami maður og nú fer með fjmrn.

Því miður gefst ekki tækifæri né tími til þess hér að fjalla um uppsetningu á fjárl., en ég tel að menn séu almennt orðnir sammála því að breyta þurfi uppsetningu á tekjuáætlunarhlið fjárlaganna. Í reynd gerist þetta með þeim hætti, þegar tekjuáætlunin er undirbúin, að Þjóðhagsstofnun tekur tekjuáætlun síðasta árs og framreiknar tíðina án þess að gera nokkrar tillögur til formbreytiaga á tekjuáætlunarliðum. Það er ljóst í sambandi við þessa uppsetningu, að hún falsar, ef svo má segja, bókhaldið eins og það kemur fram í fjárlögunum. Á þetta hefur reyndar verið bent því að það virðist vera tilhneiging til þess hjá fjmrh., ekki aðeins þess sem nú er, heldur ætíð áður og hefur venjulega gerst þegar stærri skattabreytingar hafa átt sér stað eða mikil tilfærsla í tekjuöflunarkerfinu, að reyna að halda fjárlagafrv. sem mest á lágu nótunum með nettótölum. Þess vegna er ekki hægt að lesa út úr fjárlagafrv. hve mikill tekjuskattur t.d. er innheimtur af þeim einstaklingum sem borga tekjuskatt, einfaldlega vegna þess að sú upphæð, sem er á bls. 7 í 3. gr. frv., er nettótala. Það er búið að draga frá þeirri tölu þá upphæð sem er áætlað að gangi til sveitarfélaganna vegna útsvars, en á því fyrirkomulagi var gerð nokkuð stórvægileg breyting á síðasta ári þegar útsvörin voru hækkuð. Þetta þýðir það í raun; að fjármagnsstreymið um ríkissjóð sést ekki í fjárlögunum, og þetta gildir um fleiri staði. Ég vil þess vegna skora á hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því, að ríkisendurskoðun og hagsýslustofnun fái þessi mál til meðferðar og geri tillögur um breytingu á uppsetningu fjárlaga sem leiði til þess, að menn sjái fjármagnsstreymið um ríkissjóð í fjárlögunum, og kanni sérstaklega hvort ekki sé ástæða

til þess að sumir tíðir, sem eru frádráttarliðir tekjuöflunarmegin, ættu frekar að vera útgjaldaliðir í 4. eða 5. gr. Þetta segi ég hér vegna þess að ég er hræddur um að ef hæstv. fjmrh. ræki fyrirtæki úti í bæ mundu skattyfirvöld gera aths. við bókhald eins og í fjárlögum er. Og til þess að vara hann við, af því að við kusum landsdóm í dag, — meira sagt í gamni en alvöru, — tel ég ástæðu til þess, að ríkisvaldið hafi forgöngu um að ganga þannig frá uppsetningu fjárlaga að til fyrirmyndar sé. (Fjmrh.: Ríkissjóður er skattfrjáls.) En hann á samt að haga bókhaldi sínu þannig að það sjáist hvernig fjármagnsstreymið er. Það veit ég að maður með gott bókfærslupróf úr háskóla veit jafnvel og ég.

Á þskj. 329, lið VI, flyt ég ásamt Karvel Pálmasyni, Guðmundi Karlssyni og Lárusi Jónssyni till. um 2 milljarða fjárfestingu vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Hér er um að ræða framkvæmd sem mikið hefur verið rædd í fjölmiðlum og óþarfi er að skilgreina hér frekar. Vegna orða hæstv. viðskrh. um að eðlilegt sé að fresta þessu máli til afgreiðstu lánsfjárlaga höfum við flm. ákveðið að draga till. til baka í trausti þess að hæstv. utanrrh. nýti þann rétt sem hann hefur áskilið sér í hæstv. ríkisstj. til að flytja till. um lántöku til framkvæmdarinnar á lánsfjárlögum. Stjórnarandstaðan styður hann í þessu máli og það er meiri hl. á Alþingi fyrir málinu.

Herra forseti. Á þskj. 352, sem er framhaldsnál. 1. minni hl. fjvn., gerum við þrír þm. grein fyrir þeim skattaálögum sem hafa bæst við frá því að 2. umr. fór fram. Þar kemur í ljós — kalla má þetta aukaskattreikning— að viðbótin á milli umr. er 8.6 milljarðar, og verði skattvísitalan sú sama í 7. gr. frv. og hún er þar nú gerist það til viðbótar, að ríkissjóður fær 6.5 milljarða kr. úr tekju-, eignarskatts- og sjúkratryggingagjaldsinnheimtunni. Þess vegna höfum við flutt till. um að skattvísitalan hækki upp í 154 stig, en sú till. er varatillaga við till. Karvels Pálmasonar sem hann hefur gert grein fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða frekar um frv. eins og það lítur út við 3. umr. Þó er ástæða til þess að allra síðustu að benda á þá gífurlegu aukningu á lántökum sem virðist eiga sér stað samkv. þeim brotum af lánsfjáráætlun sem fjvn.-menn og aðrir hv. þm. hafa fengið að sjá. Menn verða að hafa það í huga, það skiptir ekki máli hver tekur við af þessari ríkisstj. eða hvort hún heldur áfram, en í báðum tilvikum verður þessi stefna til þess að við bindum meira og meira fjármagn til endurgreiðslu á þessum lánum og neyðumst því til að hækka skattana umfram það sem nú er. Það eru til mörk fyrir því, hvað hægt er að hækka skatta. Það er tvöfalt efnahagskerfi í gangi hér eins og í öllum öðrum löndum: annars vegar hið skattlagða efnahagskerfi, þar sem menn gefa upp tekjur sínar og borga skatta af því að þeir eru innan hæfilegra marka, og hins vegar það kerfi, sem við getum kallað hið óskattlagða kerfi, sem stöðugt vex ef mönnum þykja skattar verða orðnir ósiðlega háir. Því miður virðist núv. hæstv. ríkisstj. ekki hafa áttað sig á þessum staðreyndum, en ég vonast til þess hennar vegna, en þó umfram allt íslensku þjóðarinnar vegna, að hún hverfi af þessari braut.