19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

1. mál, fjárlög 1981

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum brtt. sem ég flutti við 2. umr., en dró til baka til 3. umr. Ég skal ekki verða langorður, en það er ástæða samt að víkja að þessum tillögum örfáum orðum.

Við 2. umr. flutti ég brtt. um framlag til Landspítalans til kaupa á CT-tæki, whole-body scan eða tölvustýrðu sneiðmyndatæki. Ég skýrði þá frá hinu nýja hugtaki í læknisfræðinni sem felst í tölvustýrðri sneiðmyndatöku eða computerized tomography. Ég gat þess, að þessi tækni væri vel þekkt í öllum nágrannalöndum okkar, en hins vegar væri Ísland eina landið í Vestur-Evrópu sem ekki hefði yfir þessari nýju tækni að ráða. Ég minnti á að alhliða CT-tæki, whole-body scan hefði verið á beiðni röntgendeildar Landspítalans fyrir tækjakaup frá því árið 1976, nauðsyn krefði að við Íslendingar gætum hagnýtt okkur þessa nýju tækni sem markaði tímamót í nákvæmri sjúkdómsgreiningu. Með tilliti til þessa var brtt. mín fram borin, auk þess sem ég benti á að vel færi á að Alþingi ákvæði að Landspítalanum væri fengið þetta tæki sem gjöf í tilefni 50 ára afmælis hans sem er á morgun.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju yfir hinum skjótu viðbrögðum hæstv. heilbrrh. við till. minni, en hann lýsti strax fylgi við þetta mál eftir að till. mín var flutt við 2. umr. fjárlagafrv. Hefur ráðh. nú lýst yfir því í tveim afmælishófum spítalans, að ríkisstj. hafi fyrir sitt leyti samþykkt að styðja mátið. Með þeirri ákvörðun var skapaður grundvöllur fyrir samstöðu um mátið hér á Alþingi. Sú samstaða kemur fram í brtt. fjvn. sem gerir ráð fyrir framlagi til Landspítalans til kaupa á tölvustýrðu sneiðmyndatæki. Ég geri því ráð fyrir að máli þessu sé tryggður framgangur.

Ég vil þá víkja að annarri brtt., sem varðar launaskatt, en þar er gert ráð fyrir að til Byggingarsjóðs ríkisins komi 15 milljarðar af launaskatti í staðinn fyrir 2.7 milljarða sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Ástæður eru fyrir þessari till. Í fyrsta lagi er það að mínu viti nauðsynlegt til að tryggja fjárhagslega stöðu Byggingarsjóðs ríkisins að þetta fjármagn af launaskattinum gangi til sjóðsins. Í öðru lagi er þess að minnast, að launaskatturinn var lagður á upphaflega í sambandi við samninga aðila vinnumarkaðarins í júní 1964 og var þá lagður á til að bæta stöðu vinnuþiggjenda í þessum samningum. Því er hæpið að breyta fyrirkomulaginu nema í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Um þessar tvær ástæður má ræða mikið, en ég skal ekki ræða um þær frekar.

En þriðja ástæðan er sú, að samkvæmt lögum eiga núna að fara 2% af launaskatti til Byggingarsjóðs ríkisins samkv. ótvíræðum ákvæðum gildandi laga. Hæstv. fjmrh. sagði við 2. umr. að hann ætlaði að leggja til að þessu ákvæði laganna um launaskatt væri breytt þannig að það færu ekki 2% af launaskattinum til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég hef fundið að því, að það hefur ekki verið gert, ef á að gera það á annað borð, og vara ég sterklega við þeirri lausn. En hæstv. ráðh. sagði við 2. umr. að þetta væru ekkert óeðlileg vinnubrögð, vegna þess að það væru mörg lög sem þyrfti að breyta til samræmis við fjárlagafrv. Hæstv. ráðh. lofaði að gera skýra grein fyrir þessum lögum við 3. umr. Hann hefur ekki gert það enn þá. Ég vænti þess, að þessari umr. ljúki ekki svo að hann geri ekki grein fyrir því sem hann lofaði við 2. umr., hvaða frv. það eru sem að hans áliti þarf að breyta, en ekki hefur verið breytt. Það nær að sjálfsögðu ekki nokkurri átt að það sé hægt að afgreiða þetta fjárlagafrv. ef það stenst ekki og fær ekki staðist, eins og í þessu tilfelli með launaskattinn, nema ákveðnum lögum sé breytt.

Ég kem þá að þriðju till. sem ég flyt og það er varðandi sveitarafvæðinguna. Ég skal ekki fara að ræða um mikilvægi sveitarafvæðingarinnar. Ég gerði það við 2. umr. En till. fjallar um að það verði teknar 700 millj. af því fé, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir að fari til styrkingar dreifikerfa rafmagns í sveitum, og fari til hinnar eiginlegu sveitarafvæðingar, þ.e. gangi til þess að gera þær framkvæmdir sem nauðsynlegt er að vinna til þess að það fólk, sem ekkert rafmagn hefur frá samveitu, fái rafmagn og lokið verði sveitarafvæðingunni eins og gert hefur verið ráð fyrir í hugmyndum og tillögum orkuráðs. Til þess að svo geti orðið þarf 700 millj. kr., en núna er samkv. frv. ekki gert ráð fyrir neinu til sveitarafvæðingar umfram það sem væntanlega fer til heimtauga.

Þó að þessi till. sé eins sjálfsögð og hugsast getur er ég ekki öruggari en svo með að hún verði samþ., að ég hef leyft mér að bera fram aðra till. til vara. Hún er á þá leið, að það verði fluttar þarna á milli 300 millj. kr., en ekki 700 millj, kr.

Þá er fjórða tillagan sem ég hef flutt. Hún er um það, að fjármagnið, sem ætlað er til styrkingar dreifikerfa í sveitum, verði ekki fært til Rafmangsveitna ríkisins, eins og frv. gerir ráð fyrir heldur sé þessi upphæð færð til orkuráðs. Gert er ráð fyrir að upphæðinni verði skipt af orkuráði og iðnrh. milli þeirra aðila sem um er að ræða, en það eru fleiri en Rafmagnsveitur ríkisins, það er líka Orkubú Vestfjarða. Að sjálfsögðu mun mest af þessu fé fara á svæði Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi till. er líka sjálfsögð. Það hefur fjvn. séð því að í brtt. fjvn. er gert ráð fyrir að þessi háttur verði hafður, fjvn. leggur til það sama sem ég legg til með minni tillögu.