19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

1. mál, fjárlög 1981

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Í þessum ræðustól komst hv. 1. þm. Vesturl. áðan svo að orði, að hér væri um tímamótafjárlög að ræða. Það hygg ég að sé að vissu leyti rétt hjá honum. Hér erum við að fjalla um fjárlög sem gera ráð fyrir 42% verðhækkun á milli ára þegar fyrirsjáanlegt er að verðbólgan verður a. m. k. 70%. Hann getur, sá ágæti þm., verið stoltur af því, hvernig tekist hefur til um niðurtalningarstefnu Framsfl. í framkvæmd. Það sést hér svart á hvítu. Þau orð, sem um hana hafa verið töluð, hafa reynst markleysa ein.

Sitt hvað fleira sagði þessi hv. þm. sem ég mun víkja að hér á eftir. Hann sagði að það væri þjóðarvilji að stjórnarandstaðan styddi efnahagsaðgerðir ríkisstj. Hvaða aðgerðir? Hvaða efnahagsaðgerðir? Það veit enginn neitt um þær efnahagsaðgerðir sem boðaðar hafa verið. Það hefur verið spurt viku eftir viku, og það hafa verið gefin svör sem eru engin svör.

Ég ætla að víkja hér að brtt. sem ég flyt á þskj. 351 ásamt hv. þm. Benedikt Gröndal og varðar fjárhag Ríkisútvarpsins.

Undanfarin tvö ár hefur fjárhagur Ríkisútvarpsins verið afar bágborinn. Um s.l. mánaðamót nam skuldahali Ríkisútvarpsins, halli þeirrar stofnunar, 1230 millj. kr. Þetta er fyrir árið 1979 og fram til loka nóv. 1980. Það er því alrangt, sem, hv. 1. þm. Vesturl. hélt fram áðan, að vandi þessarar stofnunar hefði verið meiri í fyrra. Hann hefur aldrei verið meiri en nú.

Hann vék sömuleiðis að því, að meðan ég gegndi formennsku í fjvn. hefði ég ekki sýnt mikinn vilja til að bæta úr vandræðum þessarar stofnunar sem mér væri þó kannske næsta skylt. Ég veit að þessum hv. þm. er það jafnljóst og öðrum hér, að meðan ég gegndi formennsku í fjvn. var ég í þeirri sérstæðu aðstöðu að vera í minni hl., og þegar fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins var í fyrra skorin niður við trog gerðist það ekki í fjvn., það gerðist á sérstökum fundi meiri hl. n. sem átti sér stað uppi í fjmrn. rétt fyrir páskana, þar sem hv. þm. Alexander Stefánsson var viðstaddur, en þar sem minni hl. n. og þar með talinn formaður kom hvergi nálægt. Fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins má því að mjög verulegu leyti rekja til aðgerða meiri hl fjvn., fyrst í fyrra og síðan í ár. Það eru staðreyndirnar í þessu máli eins og hv. þm. Friðrik Sophusson, 10. þm. Reykv., raunar staðfesti í ræðu sinni áðan.

till., sem ég hef leyft mér að flytja, gerir ráð fyrir að framlag komi úr ríkissjóði til að mæta rekstrarhalla Ríkisútvarpsins, þessum 1230 millj. undanfarna 23 mánuði, og það verði greitt í tvennu lagi: 615 millj. kr. á þessu ári og 615 millj. kr. á hinu næsta.

Hv. þm. Alexander Stefánsson talaði um að það þyrfti að finna Ríkisútvarpinu nýja tekjustofna. Hann minntist ekkert á hverja. Vandinn er ekki sá að það þurfi að finna Ríkisútvarpinu nýja tekjustofna. Það þarf bara að tryggja Ríkisútvarpinu eðlileg afnotagjöld. Það kom fram í kvöld í ræðu formann fjvn., hv. 4. þm. Reykn., að gert sé ráð fyrir 40% hækkun á afnotagjöldum Ríkisútvarpsins á næsta ári, — 40% á sama tíma og fjárlögin gera ráð fyrir 42% hækkunum sem allir vita að er gersamlega óraunhæft. Nær var að tala um 70% eða kannske þaðan af hærri tölu. Það er því augljóst að enn á að halda Ríkisútvarpinu í fjárhagslegri spennitreyju. Það er ekki nóg að þm. eins og hv. 1. þm. Vesturl. fari um það fögrum orðum úr þessum ræðustól, að það þurfi að bjarga við fjárhag þessarar mestu menningarstofnunar þjóðarinnar, og það er ekki heldur nóg, að hæstv. menntmrh. lýsi hér góðum vilja sínum í þá átt, ef nákvæmlega ekkert er gert. Nú hafa þm. þó sannarlega tækifæri til að leiðrétta þetta mál. Það vill svo til, að á þeim degi sem nú er runninn á Ríkisútvarpið 50 ára afmæli og þess verður minnst á morgun. Það væri vissulega verðugt ef löggjafarsamkoman sæi nú sóma sinn í því að leiðrétta fjárhag þessarar stofnunar sem er í senn menningarstofnun og öryggistæki fyrir landið allt. Ég veit að þess verður beðið með eftirvæntingu að sjá og heyra hvernig hv. þm. stjórnarliðsins, þ. á m. hv. þm. Alexander Stefánsson, greiða atkv. um þessa till. á morgun, svo og hæstv. menntmrh. Þá geta þessir ágætu menn sýnt í verki að þeir meini það sem þeir hafa verið að segja hér. Það verður fróðlegt að sjá.

Ýmsir hafa í þessum umr. vikið að Landhelgisgæslunni og rekstri hennar. Vikið hefur verið að því, að nú á að selja aðra Fokker F-27 flugvél gæslunnar. Um þetta eru skiptar skoðanir. Nú hygg ég að ef menn athuga hvernig rekstur þessarar flugvélar var á s.l. ári komi það í ljós — ég hef þær tölur ekki hér við höndina því miður — að henni var næsta lítið flogið og suma mánuði nánast ekkert. Þegar forstjóri Landhelgisgæslunnar kom á fund fjvn. snemma í haust, þegar margumrædd þyrlukaup voru m.a. til umr., taldi hann að með tilkomu þyrlunnar væri ekki ástæða til að vera með tvær Fokker Friendship flugvélar í rekstri. Það kom skýrt fram er hann mætti á fundi fjvn.

Hitt er svo annað mál, að hér hefur einnig borið á góma sölu varðskipa. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki hagkvæm ráðstöfun að selja vitaskipið Árvakur sem sniðið er sérstaklega til ákveðinna verkefna.

Hins vegar vantar það á um Landhelgisgæsluna, að það hefur engin heildarstefna verið mótuð. Í því sambandi vil ég leyfa mér að minna á þáltill. sem flutt var á þskj. 16 af hv. þm. Benedikt Gröndal og Árna Gunnarssyni, þar sem gert er ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að kanna hversu mikla og hvers konar gæslu 200 mílna efnahagsog mengunarlögsaga útheimtir og hvernig Íslendingar eru í stakk búnir til að gegna því hlutverki á viðunandi hátt. Þetta er auðvitað það sem vantað hefur. Það hefur ekki verið nein stefna fyrir hendi um hvernig á að framfylgja Landhelgisgæslunni, hvernig á að gæta 200 mílnanna, með hvaða tækjum og hvernig það verði hagkvæmast gert. Við þurfum fyrst að gera okkur grein fyrir því og síðan verðum við að gera það upp við okkur með hvernig tækjakosti og tæknibúnaði á að annast landhelgisgæslu.

Ég vil þá víkja að annarri brtt. sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 370, en hún er á þann veg, að við 6. gr. fjárlaga bætist nýr liður sem hljóði svo, með leyfi forseti:

„Að breyta vanskilaskuldum Skallagríms hf. við ríkisábyrgðasjóð vegna Akraborgar í föst lán.“

Það kom fram fyrr í kvöld í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., Stefáns Valgeirssonar, er hann mælti fyrir áliti samvn. samgm. um styrki til flóabáta, að rekstur Akraborgar og rekstur Herjólfs og raunar fleiri flóabáta er mjög illa á vegi staddur. Að því er Akraborgina varðar er málum nú þannig komið, að vanskilavextir af skuldum til ríkisábyrgðasjóðs eru 19.6 millj. kr. á mánuði. Það liggur líka fyrir, að á s.l. ári, þegar eðlilegar hækkanir hafa fengist á fargjöldum, hefur rekstur þessa skips gengið vel. Hann hefur gengið svo vel að ef skipið losnaði við þennan margumrædda skuldahala gæti reksturinn gengið án framlaga úr ríkissjóði. Því er þessi till. flutt, að fjmrh. verði heimilað að breyta þessum vanskilaskuldum í föst lán.

Að því er Herjólf varðar er vandamálið annað og langtum stærra. Vanskilavaxtagreiðslur Herjólfs munu nú nema um 85 millj. kr. á mánuði, og um áramótin núna er áætlað að skuldir Herjólfs við ríkisábyrgðasjóð verði 2 milljarðar 257 millj. kr. Hér er auðvitað um að ræða vandamál sem taka verður á. Það er ekki lausn á málinu að breyta þessari skuld í fast lán. Hins vegar mætti sem best, og er raunar útlátalaust, breyta vanskilaskuldum Skallagríms í föst lán og leysa þannig þetta fyrirtæki undan þessum skuldahala og ríkissjóð jafnframt undan greiðslum.

Þessi skuldahali er þannig til kominn, eins og ýmsir kannske minnast hér, að þegar skip þetta kom til landsins og hóf ferðir skorti á að aðstaða væri fyrir hendi í Reykjavíkurhöfn þannig að flutningarými skipsins nýttist að fullu. Á meðan skipið gat ekki flutt nema tiltölulega mjög fáa bíla myndaðist þessi skuldahali sem síðan hefur vaxið. Kann að vera að ekki sé brýn nauðsyn beinnar lagaheimildar til þess að hæstv. fjmrh. sé heimilt að gera þessa breytingu. Hins vegar væri það auðvitað viljayfirlýsing af hans hálfu ef hann féllist á að þetta kæmi inn á 6. gr. fjárlaga.

Ég vil þá víkja hér að till. sem ég hef flutt ásamt hv. þm. Jósef H. Þorgeirssyni á þskj. 303 og fjallar um það, að aukin verði nokkuð fjárveiting til byggingar grunnskóla á Akranesi. Þannig er mál með vexti, að Fjölbrautaskólinn á Akranesi, sem er vaxandi stofnun og þjónar öllu kjördæminu, nýtir nú húsnæði þar sem áður var barnaskóli. Byggð á Akranesi hefur vaxið ört að undanförnu, töluvert örar en að landsmeðaltali, og fyrirsjáanlegt er að á komandi hausti skapast þar neyðarástand í skólamálum verði ekki unnt að taka í notkun þann áfanga hins svonefnda Grundarskóla sem nú er verið að vinna að. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér, með leyfi forseta, að vitna í grg. skólanefndar Grunnskóla Akraness um húsnæði grunnskólans þar. (ÓRG: Ég ætla að vona að þú farir ekki að flytja neina till. svo að menn geti farið heim að sofa.) Já, ég vona að ef hv. þm. er orðinn þreyttur fari hann heim að sofa. Ég hugsa að það sakni hans ekki margir héðan.

Grunnskóli Akraness sér nú um kennslu nemenda í forskóla til og með 8. bekk. Nemendur 9. bekkjar eru undir stjórn Fjölbrautaskóla Akraness og eru í hans húsnæði. Nú í vetur eru 930 nemendur í skólanum.

Um húsnæðið er það að segja, að kennsla fer fram á sex stöðum, auk íþrótta- og sundkennslu. Í aðalbyggingu, sem er hús sem var byggt árið 1950 og viðbótarbygging árið 1960, er 1.–6. bekk kennt. Í aðalbyggingu eru 12 almennar kennslustofur, allar litlar, 42 fermetrar, og þegar tekið er tillit til bekkjarstærðar er fjöldi í bekkjardeildum á bilinu 20–30.

Í grunnskótahúsinu, gamla iðnskólanum, er 8. bekkur til húsa. Þar eru fjórar mjög litlar kennslustofur tæplega 30 fermetrar hver. Þær voru úrskurðaðar óhæfar til kennslu fyrir um það bil 20 árum, m.a. vegna smæðar og lélegrar hljóðeinangrunar, en mjög heyrist þar mikið á milli stofa og milli hæða og umferð af götum, en tvær aðalumferðargötur liggja með húshliðinni.

Forskóladeildin er til húsa í kjallara íþróttahússins og er það húsnæði þannig að það er nánast heilsuspillandi. Gluggar eru litlir og nema við jörð og lofthæð er 2.20 metrar. Þarna er yngstu börnunum kennt. Þarna er forskóladeildinni kennt fjórskiptri, um það bil 30 nemendum í einu.

Nýjasta viðbótarhúsnæði grunnskólans er fjórar stofur sem teknar voru í notkun núna í haust. Þær eru byggðar ofan á búningsherbergi íþróttahússins og þar er 7. bekk kennt.

Eins og sjá má af framantöldu fer kennsla fram á ýmsum stöðum og gefur auga leið að það hefur í för með sér margs konar óþægindi, bæði fyrir nemendur og kennara, og kemur niður á skólastarfinu í heild. Enginn samkomusalur er í skólanum, honum hefur fyrir löngu verið skipt niður í kennslustofur.“

Ég ætla ekki að lengja þessar umr. með því að lesa lengra í þessari grg., sem þó væri e.t.v. ástæða til. En þarna verður neyðarástand í kennslumálum á grunnskólastigi verði ekki bætt við þá fjárveitingu sem þegar er í fjárlögum. Þetta er ljóst öllum þm. Vesturlands sem hafa kynnt sér þetta mál. Ég legg á það mikla áherslu, að þessi till. verði tekin til greina, þó ekki nema að hluta sé, þannig að hægt sé að fullnægja lögum um kennsluskyldu á Akranesi.

Að lokum, herra forseti, ætla ég að víkja að till. sem ég flutti ásamt hv. þm. Albert Guðmundssyni um að framlag til Hjartaverndar vegna úrvinnslu- og útgáfustarfsemi yrði aukið um 10 millj. kr. Ég sé að fjvn. hefur í tillögum sínum að vísu hækkað framlag til Hjartaverndar til rekstrar um 15 millj. kr. Það kemur í sama stað niður. Fyrir þetta ber auðvitað að þakka vegna þess að það gerir kleift að halda áfram rannsóknum og úrvinnslu- og útgáfustarfi á þeim gögnum sem þarna liggja fyrir.

Ég hef lokið máli mínu.