19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

1. mál, fjárlög 1981

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er nú orðið það áliðið nætur að kannske er hæpið eins og á stendur að gera fjárlögin að umtalsefni eins og þó er ástæða til, og al ég í sambandi við fjárlagagerðina aðeins drepa á tvö atriði.

Í fyrsta lagi kemur hér fram samkvæmt breytingu meiri hluta fjvn. að gert er ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga hækki um 60% frá s.l. ári, sem sýnir að hæstv. fjmrh. ætlar að seilast enn dýpra ofan í vasa skattborgaranna en áður. Stingur þetta mjög í stúf við þær yfirlýsingar sem gefnar hafa verið um að hlífa eigi þeim sem lægri hafa launin, því að meginþunginn af þessari skattahækkun kemur náttúrlega á það fólk sem skattlaust var á s.l. ári eða skattlítið. Það verkar þannig þegar skattleysismörkin eru færð niður. Mér hefur fram að þessu þótt nóg um hvernig fólk, sem ónógar ráðstöfunartekjur hefur haft, hefur verið skattpínt af ríkisvaldinu. Ég skal svo ekki gera það að öðru leyti að umræðuefni, en ég harma, að þeir menn, sem nú ráða landinu, skuli ekki geta hugsað sér annað en að koma alltaf þarna við, og skil satt að segja ekki hvaða hvatir liggja þarna á bak við.

Ég vil segja það í öðru lagi, að það þarfnast skýringar hvernig á því stendur, að eignarskattur einstaklinga skuli hækka úr 2 milljörðum 438 millj. kr. á s.l. ári upp í 6 milljarða á þessu ári eða um 146%. Ég óska eftir því, að hæstv. fjmrh. gefi á því nokkra skýringu hvernig stendur á þessari gífurlegu hækkun. (Félmrh.: Að hvaða leyti?) Ég er að tala um eignarskatt einstaklinga. Ef ástæðan fyrir þessari gífurlegu hækkun eignarskattsins er að fasteignamatið hefur hækkað óeðlilega mikið er náttúrlega nauðsynlegt að endurskoða eignarskattsmörkin og eignarskattsstigann. Þá er ekki sama samhengi á milli og áður var íbúðarhúsnæðisins og eignarskattsmarkanna. Ég get ekki fallist á, að menn séu látnir greiða eignarskatt af venjulegu íbúðarhúsnæði, og óska eftir að hæstv. fjmrh. útskýri hvernig standi á því, að eignarskattsheimtan eigi að aukast svo mjög á næsta ári frá því sem var í ár. Í krónutölu er þarna um töluvert meira en tvöföldun að ræða. Tvöföldun eignarskattsins mundi ekki einu sinni ná S milljörðum, en þarna er gert ráð fyrir að hækka upp í 6 milljarða á sama tíma og tekjuskattur einstaklinga hækkar um 60% og hækkar hann þó umfram launahækkanir á þessu ári.

Þessi stefna er náttúrlega í samræmi við þau markmið Alþb. að reyna að koma í veg fyrir að venjulegt fólk hafi efni á að búa í eigin húsnæði. Hörmulegt er til þess að vita, að hæstv. forsrh., sem nú er til sængur genginn, skuli ljá máls á þessu. Það er sannarlega breyttur maður frá því sem áður var þegar hann var að berjast fyrir því í Smáíbúðahverfinu í gamla daga og stuðlaði að því sem borgarstjóri og markaði töluverð spor í að liðka fyrir því, að menn gætu með dugnaði og ráðdeild komið sér þaki yfir höfuðið þó efnin væru ekki mikil. En hér á sem sagt að fara enn lengra út á þá braut að skattleggja það sem menn hafa lagt til hliðar, íbúðir manna og annað sem menn hafa með fyrirhyggju önglað saman, en verðlauna á hinn bóginn þá sem öllu sóa og ekki hafa fyrirhyggju til þess að eignast neitt.

Það dugir ekki að útskýra þessa miklu hækkun eignarskattsins með því að þarna sé verið að reyna að ná í eitthvert fjármagn frá einhverjum ríkum mönnum. Þessi hækkun er miklu, miklu meiri en svo að hana megi skýra með þeim hætti. Þarna er um hreina skattheimtu á fólkið sjálft að ræða, og hana ekki litla, sem bitnar fyrst og fremst náttúrlega á gamla fólkinu, sem skuldlaust er, og öðrum þeim sem búa í gömlum íbúðum, en tekjur eru farnar að minnka hjá. Þetta ber ekki heldur núv. ríkisstj. fagurt vitni né þeim mönnum sem að fjárlagagerðinni stóðu, og er nauðsynlegt að þetta mál verði tekið til frekari endurskoðunar síðar á þessu þingi.

Ég sé ekki ástæðu til að flytja brtt. til lækkunar á eignarskattinum, stjórnarsinnar eru svo forstokkaðir að það er ekki til neins, en nauðsynlegt er að vekja athygli á þessu máli, og almenningsálitið mun knýja á um að þarna verði slakað á. Ég vil líka benda á það, því að það eru ýmsir sveitarstjórnarmenn á Alþingi að svo ósvífin skattheimta í eignarskattinum dregur náttúrlega úr því, að sveitarstjórnirnar geti notfært sér þann tekjustofn sem fasteignagjöldin eru. Fyrir því er reynsla, að eftir því sem eignarskatturinn hefur hækkað hafa sveitarstjórnarmenn, sem nær eru fólkinu, verið meir hikandi en áður við að notfæra sér fasteignagjöldin sem tekjustofn. Og ég ítreka: Hér eru ekki félögin með. Þarna er eingöngu um einstaklingana að ræða, fyrst og fremst skattheimtu af íbúðarhúsnæði.

Ég vil í öðru lagi gera það að umræðuefni, að inn í þessi fjárlög vantar einn skatt sem lagður var á í sumar, en það er fóðurbætisskatturinn. Í lögum um fjárreiður ríkisins segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Reikningar félaga, fyrirtækja, stofnana og sjóða, sem ekki eru í ríkiseign, en hafa tekjustofna samkv. sérstökum lögum, skutu birtir í sérstöku hefti B-deildar Stjórnartíðinda á næsta ári eftir lok reikningsárs. Ríkissjóður skal jafnan innheimta þessar tekjur eða fela ákveðnum aðila að gera það í sínu umboði, og skulu þær færðar til tekna og gjalda á rekstrarreikningi ríkisins. Ef tekjurnar renna til sömu aðila eða atvinnugreina og þær eru innheimtar hjá eða til opinberra aðila, sem eru utan ríkisreiknings, skal þó einungis sýna þær í teknahlið, en jafnframt færa þær til frádráttar, sbr. 26. gr.

Ég sé ekki annað, herra forseti, en nauðsynlegt sé að fresta þessari umr. til morguns til þess að hæstv. fjmrh. hafi tóm til að bæta úr þessari vöntun og geti lagfært fjárlagafrv., komið fóðurbætisskattinum inn. — Ég verð að segja að það er eiginlega synd að hæstv. landbrh. skuli ekki vera í þingsalnum. Hann gæti kannske eitthvað hnippt í fjmrh. og sagt honum frá þessum skatti, þessum einkaskatti hæstv. fjmrh. og Framleiðsluráðsins.

Það dugir ekki að halda því fram, að af því að þessi skattur komi að sumu leyti aftur til bænda eigi hann ekki að vera í ríkisreikningnum og fjárlögunum. Ég get bent á ýmsa aðra markaða tekjustofna sem hér hafa verið, tappagjald t.d., gjald á eldspýtustokka og ýmislegt fleira sem hefur komið inn og út úr fjárlögum og á að gera það samkv. lögum. Hæstv. forsrh. sagði frá því einmitt í dag, að ríkisstj. vildi halda lögin. (Gripið fram í: Og trúðir þú því?) Hann sagði að ríkisstj. vildi það og ég efast ekki um að hann vilji það, fyrrv. hæstaréttardómari. Og Ragnar Arnalds, hæstv. fjmrh., er lögfræðingur að mennt og honum er náttúrlega augljóst, ef hann les þessi lög og skilur anda þeirra og ef hann jafnframt les fyrirmæli stjórnarskrárinnar um hversu farið skuli með tekjur og gjöld ríkisins, að hér er farið með rétt mál, — eða dylst nokkrum manni að það hljóti að koma í hlut þeirra manna sem endurskoða fjárreiður ríkisins að athuga um hvernig innheimta sé á fóðurbætisskattinum og hvaða leið hann fer? Þetta er ekki eitthvert einkafyrirtæki Sveins Tryggvasonar eða Gunnars á Hjarðarfelli. (Gripið fram í.) Það er það ekki. Það stendur í hljóðstaf með Bændahöllinni. Ég verð því að mætast til þess að hlé verði gert á þessum umr. og hæstv. fjmrh. verði gefið tækifæri til að flytja brtt. um fóðurbætisskattinn inn og út á fjárlögum svo sem lög mæla fyrir. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt.

Ég vil einnig minna á að í lögum eru skýr ákvæði um að þess skuli getið, hvað ríkisstj. eða þeir, sem með landsstjórnina fara, búist við að miklar tekjur verði af skattlagningunni. Þetta vantar í fjárlagafrv. Úr því verður að bæta. Það er satt að segja lágmarkskrafa. Ég hef hins vegar ekki í höndum neinar upplýsingar um hvernig hæstv. landbrh. hyggst haga þessum málum á næsta ári, hvernig hann ætlar að hafa fóðurbætisskattinn, enda hefur hann nú sagt í útvarpsviðtali að það sé best með skattana að þeir komi á óvart, án þess að nokkur maður viti um þá, eins og þruma úr heiðskýru lofti, þá geti menn síður varað sig á þeim, segir hann. (ÓRG: Ég verð víst að taka það fram að Framleiðsluráðið er ríkisstofnun.) Framleiðsluráðið er ekki ríkisstofnun, en hins vegar er kveðið á um það í lögum, að ef skattar eru lagðir á og þeir renna til aðila sem ekki er ríkisstofnun skuli þeir samt sem áður koma inn og út. Úr því að formaður þingflokks Alþb. er svona tengi að skilja get ég tesið þetta aftur fyrir hann. Það er svo, með leyfi hæstv. forseta. Við skutum nú sjá. Hvar var nú þetta? (ÓRG: Það er ekki ríkið sem hefur lagt á fóðurbætisskattinn.) Ég veit vel að hæstv. landbrh. er ekki ríkið. „Ég er ríkið,“ sagði Lúðvík XIV. að vísu. Það er kannske Gunnar Thoroddsen sem er ríkið. En þó mér hafi stundum þótt mikið til hæstv. landbrh. koma hefur mér ekki einu sinni dottið í hug að hann væri sá hluti ríkisins sem veit að landbúnaðinum. En kannske að hann sé RARIK. — Við skulum nú sjá. Hér stendur með leyfi hæstv. forseta:

„Reikningar félaga, fyrirtækja, stofnana og sjóða, sem ekki eru í ríkiseign, en hafa tekjustofna samkv. sérstökum lögum, skutu birtir í sérstöku hefti B-deildar Stjórnartíðinda á næsta ári eftir lok reikningsárs. Ríkissjóður skal jafnan innheimta þessar tekjur eða fela ákveðnum aðila að gera það í sínu umboði, og skutu þær færðar til tekna og gjalda á rekstrarreikningi ríkisins. Ef tekjurnar renna til sömu aðila eða atvinnugreina og þær eru innheimtar hjá eða til opinberra aðila, sem eru utan ríkisreiknings, skal þó einungis sýna þær í teknahlið, en jafnframt færa þær til frádráttar, sbr. 26. gr.

Þetta ákvæði er afskaplega skýrt. (Fjmrh.: Það er ekki minnst á fjárlögin í þessari grein, bara ríkisreikning. Það er allt annað mál.) Má ég spyrja hæstv, fjmrh. að því, af því að hann hefur nú gripið fram í: Er mikið um það, að í ríkisreikningi komi fram tekjustofnar sem ekki eru í fjárlögum? (Gripið fram í.) Ég sé að þessir tveir hv. þm. eru illa að sér í þessu máli, en þetta ákvæði er í þessum lögum. (Gripið fram í.) Ég var að segja það, herra forseti, að sá hefur verið háttur á í sambandi við fjárlagagerð og ríkisreikning, og það er náttúrlega augljóst ef maður les ríkisreikninginn, að hann er skrá yfir fjárlögin. (ÓRG: Ætlarðu ekki að svara spurningu minni?) Ég held að það sé kominn galsi í hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson. Ég hélt ekki að hann ætti vanda til þess, en ég sé að það hefur eitthvað breyst hjá manninum. Mér sýnast augun vera fljótandi. — Ég held að það verði að segjast eins og er, svo ég reyni nú að byrja þessa setningu enn, að jafnafdráttarlaus og þessi fyrirmæli eru um að allir skattar, sem ríkið leggur á, skuli koma í ríkisreikning, eiga þau að sjálfsögðu líka við um það, að þessi skattur skuli koma í fjárlögum. Um þetta blandast engum hugur. Ég skora á hæstv. fjmrh., ef hann efast um þetta, að nefna einn einasta skatt sem lagður er á með sérstökum lögum, en ekki er í fjárlagafrv. (Fjmrh.: Ég skal nefna það strax. Það var búnaðarmálasjóðsgjaldið sem verið hefur um árabil og runnið til Bændahallarinnar og í stofnun þeirra. Ég man ekki eftir að hafa séð það í fjárlögum.) Búnaðarmálasjóðsgjaldið? Það er nú orðinn tími síðan það var lagt niður. (Gripið fram í.) Það var fyrir mitt minni, en ég held að þessi lög, sem hér er verið að fjalla um og ég er að lesa upp, séu samin hér á Alþingi og samþykkt eftir að það gjald féll niður. (Fjmrh.: Það er lagt á enn þá.) Ég er hræddur um að verði að gera athugasemd ef þar er um skattheimtu að ræða. Hitt er til, að með lögum er kveðið á um að menn skuli greiða ýmislegt sem ekki kallast skattar. Á því eru nokkur skil.

Herra forseti. Ég óska eftir að fundi sé frestað um hríð þangað til herra forseta hefur gefist kostur á að koma friði á fundarstörf. Ég óska eftir því. (Forseti: Óskar ræðumaður að fresta ræðu sinni?) Ég óska eftir því, að forseti komi reglu á fundinn. (Forseti: Gerðu svo vel að halda áfram.) Eru þetta viðbrögð hæstv. forseta þegar hér hafa verið eilíf frammíköll? (Forseti: Ég heyri ekkert núna.) Nei, mér sýndist vera einhver depra yfir forsetanum.

Það gjald, sem hér er um að ræða, er ekki skattur í sama skilningi og fóðurbætisskatturinn þori ég að fullyrða. Hann rann til Bændahallarinnar og hélt ég að sú skattheimta væri fyrir alllöngu niður fallin. (Fjmrh.: Það er misskilningur.) Er það misskilningur, já? Ég skal kynna mér það og læt taka þetta mál frekar fyrir á eftir. En ef það er misskilningur held ég að hæstv: fjmrh. verði að koma inn tveim brtt. um fjárl., því þó að einn maður brjóti af sér réttlæti þarf ekki annar að gera það og þó ein mistök séu gerð réttlætir það ekki að þau séu gerð tvívegis. Þetta gengur náttúrlega ekki, að menn séu að leggja margvíslega skatta á þjóðina og geri ekki Alþingi grein fyrir þeim og þeir koma ekki hér til umr. Það getur ekki gengið við fjárlagagerðina. Ég held að allir hv. þm. eigi að geta skilið það. Og ég óska eftir því við hæstv. fjmrh., að ég fái skrá yfir alla þá skatta sem hann telur að séu utan fjárlaga. Það er stóralvarlegt mál ef það er rétt að með sérstökum lögum sé hægt að innheimta margvíslega skatta sem ekkert eftirlit er haft með, hvorki af ríkisendurskoðun né öðrum, þessir skattar komi ekki inn í ríkisreikning og ekki inn í fjárlög og gleymist þannig utan við þann ramma sem við erum hér að tala um. Það má vera að þessum tveim hv. þm. þyki það vera til fyrirmyndar, en mér þykir það ekki og lít ekki á þetta sem gamanmál.

Ég sakna þess, herra forseti, að iðnrh. er ekki hér. Er hann í húsinu? Ég spurði hvort hæstv, iðnrh. væri í húsinu? (Fjmrh: Hann mun vera farinn.) Hann mun vera farinn. Þá verð ég að.biðja um að skilaboðum sé komið til hans. Í þingræðu fyrr í vetur lýsti hann því yfir, að sig vantaði stuðning til að geta komið í framkvæmd á næsta ári framkvæmdum við raflínur víða um land, hrundið sveitarafvæðingunni í framkvæmd. Ég man að hann hafði orð á því í þessum ræðustól, að sig vantaði 300 millj. kr. til að ljúka rafvæðingunni fyrir norðan, þ.e. á Melrakkasléttu, og lofaði að ef tækist að útvega þetta fé mundi ekki standa á honum að leggja línuna. Ég skildi hann þannig. Hann sagðist hafa gert tillögu um þetta sem iðnrh. Nú hefur hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson flutt hér till. um framlag til sveitarafvæðingarinnar og raunar tvær, aðra til vara. Varatill. er um 300 millj. kr. hækkun á þeim lið sem hæstv. iðnrh. talaði um fyrr í vetur að sig vantaði stórlega til að geta staðið við ætlunarverk sín, sem hann hefur raunar í sumum tilvikum gefið fyrirheit um. Ég vil nú mælast til þess, að flokksbróðir hans og ráðh. bendi honum sérstaklega á þessa till. og minni hann á að hún sé í samræmi við þær óskir sem hann lét í ljós í ræðustólnum hér fyrr í vetur þegar hann svaraði fsp. varðandi rafvæðingu Melrakkasléttu. Hann hefur sem sagt tækifæri til að standa við orð sín. Hér eru ótal hendur sem vilja hjálpa honum að kippa þessu í lag. Ég efast ekki um að hæstv. iðnrh. muni vilja standa að því máli sem hann hefur sjálfur haft frumkvæði að gefa fyrirheit um.

Í heimildargrein í till. fjvn. segir í fyrsta lagi, að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast með einfaldri ábyrgð lán er Akureyrarkaupstaður kynni að taka til byggingar tengiálmu við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri.

Þetta mál er þannig vaxið, að þegar tillögur komu frá heilbrrn, um skiptingu á fé til sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva var gert ráð fyrir að til Akureyrar rynni 1 milljarður 331 millj. kr. Í meðferð fjvn. var þetta skorið niður í 1 075 millj. kr. Nú er mönnum það kannske ekki kunnugt, en þó hefur þetta mál oft borið á góma og sannleikurinn er sá, að í heilbrigðismálum á Akureyri ríkir mikið neyðarástand. Fyrst og fremst eru daggjöldin ákveðin allt of lág. Ég veit ekki betur en þar vanti nú 600–700 millj. kr. sem þarf að útvega fyrir áramótin til að bæta úr brýnustu rekstrarfjárþörfunum, greiða fólki laun o.s.frv. Það væri nú fróðlegt að fá upplýsingar um hvort það væri víðar í sjúkrahúsum sem svo stæði á að hundruð milljóna skuldir hrönnuðust upp og víðar í ríkisstofnunum, en hæstv. fjmrh. ætlaði sér í staðinn að hrósa sér af því að skila tekjuafgangi um áramót, (Gripið fram í.) Það er ákveðið af opinberum aðilum hvernig daggjöldin eru. Á fundi sem forráðamenn Akureyrar áttu með fjmrh. og heilbrrh. fyrir skömmu voru þessi mál tekin til umræðu og annar þessara hæstv. ráðh. eða báðir lýstu þar yfir áhuga sínum á því, að ef sveitarfélög tækju lán til þess að flýta fyrir því, að sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar yrðu tekin í notkun, mundi vera heimilt að láta lánsfjárkostnaðinn falla á ríkissjóð, eins og t.d. um skóla og þarna var upplýst. Í þessari heimildargrein er ekkert tekið fram um þetta. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh, hvort ekki sé réttur sá skilningur minn, að ríkið muni taka á sig lánsfjárkostnaðinn að sínum hluta ef til þess kemur að Akureyrarbær tekur lán til að ljúka tengiálmunni við sjúkrahúsið. (Fjmrh.: Það er rangur skilningur.) Er það rangur skilningur? Hæstv. fjmrh. ætlar þá að láta annað koma fram gagnvart sjúkrahúsum en skólum. Ég held ég verði þá að flytja skriflega brtt. við þennan lið. Ég hef annars á þskj. 337 flutt brtt. um það, eins og fram kemur, að þetta verði hækkað. Ég hefði verið til viðtals um að draga þá brtt. til baka ef fram hefði komið frá hæstv. ráðh. afdráttarlaus yfirlýsing um að ríkissjóður mundi taka á sig lántökukostnaðinn, eins og orðað var að kæmi til greina á þeim fundi sem haldinn var með forráðamönnum Akureyrar. Úr því að hæstv. fjmrh. getur ekki hugsað sér það verð ég að leggja fram skriflega brtt. og mun gera það síðar á þessum fundi.