19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

1. mál, fjárlög 1981

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér þætti vænt um ef heilbrrh. heyrði mál mitt því að ég mun nokkuð koma inn á málaflokk sem undir hann heyrir.

Það gerist að sjálfsögðu við fjárlagaafgreiðslu að staðaldri, að stjórnarandstæðingar bera fram till. sem þeir vita að menn eiga erfitt með að fella. Að sjálfsögðu er það svo, að seint næðist samstaða um að koma fram fjárlögum ef hver og einn yrði ekki að sjá á bak allmiklu af því sem hann gjarnan vildi koma á framfæri. Hitt er svo annað mál, að þegar manni finnst að um hreina sóun fjármuna sé að ræða getur reynst erfitt að verja þá skiptingu sem á sér stað.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, að í höfuðstað Vestfjarða, á Ísafirði, hefur verið í byggingu heilsugæslustöð og sjúkrahús samtímis. Það er búið að verja miklu fé til þessara framkvæmda án þess að nokkur hluti byggingarinnar sé tekinn í notkun. Það hefur nú gerst að sú fjárveiting sem er á fjárlögum, 330 millj., dugir alls ekki til að ná þeim áfanga að heilsugæslustöðin geti tekið til starfa næsta haust eða á næsta ári. Hins vegar blasir það við, að ef um 100 millj. meira hefði verið varið til þessarar framkvæmdar hefði verið hægt að ná þessum áfanga.

Nú sýnist mér, að þessi mál séu komin í allmikla sjálfheldu í lokaumr. um fjárlög, og vil í því sambandi láta reyna á það til fullnustu, hver viljinn er til að leysa úr þessu máli eins og best getur orðið, miðað við þá stöðu sem það er komið í. Í því sambandi vil ég víkja að þeim þætti, að samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir ræður því að sjálfsögðu hvernig staðið er að útboði. Ef hún lætur standa þannig að útboði, að þessu verkefni verði lokið í febrúarmánuði 1982, og færir þannig hluta af verkinu fram yfir áramótin, væri hægt að leysa þetta mál þannig að aðeins yrði um tveggja mánaða seinkun á þessari framkvæmd að ræða. Ég fæ ekki betur séð en að með margvíslegum samningum og útboðum sé þessi nefnd mjög oft búin að binda hendur fjárveitingavaldsins í reynd og þess vegna sé hér ekki verið að fitja upp á neinu sem ekki hefur margoft verið gert.

Hins vega leita ég mjög ákveðið eftir því, og mun hlusta á umr. hér fram eftir nóttu þar til þeim lýkur til að fá svör við því, hver vilji heilbrrh. eða fjmrh. er í þessum efnum, hvort hann mun í þessum stól lýsa því yfir að hann sé reiðubúinn að standa svona að framkvæmd verksins.

Mér eru heilbrigðismálin á Vestfjörðum mikið alvörumál vegna þeirrar sérstæðu stöðu sem þau eru í. Það hefur ekki tekist að skipa héraðslækni fyrir Vestfjarðalæknishérað vegna þess að enginn læknir hefur verið skipaður við heilsugæslustöðvar á Vestfjörðum. Þeir hafa aðeins verið settir þar til starfa örstuttan tíma í einu. Höfuðástæðuna fyrir því ástandi tel ég vera þá að starfsaðstaðan í höfuðstað Vestfjarða er að þeirra mati allsendis óviðunandi. Í umr. fyrr á þessu þingi um þessi mál kom það fram, að hæstv. heilbrrh. vonaði að á þessu ástandi gæti orðið breyting til batnaðar. Ég tók orð hans svo, að vonir hans byggðust á því, að með bættri aðstöðu á Ísafirði mundu líkurnar aukast á því að þar fengist skipaður læknir til starfa við heilsugæslustöðina.

Það er rétt í þessu sambandi að minna á það, að út af Vestfjörðum eru gjöful fiskimið og inn Ísafjarðardjúp leita oft togarar með slasaða menn til að koma þeim á sjúkrahús. Mikinn hluta ársins er þessi staður svo einangraður að ekki er um aðra leið að ræða til að koma sjúklingum suður en að flytja þá með flugvél. Þannig hefur verið reynt að leysa þessi mál þegar ekki hefur verið hægt að veita þessum mönnum nægilega aðhlynningu á sjúkrahúsi á Ísafirði.

Ég held að það væri hollt fyrir menn að hugleiða hvort þeir sjálfir vildu eiga einhvern af sínum nánustu í þeirri aðstöðu sem þarna er um að ræða. Ég vænti þess, að ekki þurfi að hafa um það langt mál. Ég vænti þess, að öllum sé ljóst að Vestfirðir eru í algjörri sérstöðu hvað þetta snertir. Þetta er eina læknishéraðið á Ístandi þar sem ekki hefur verið hægt að skipa héraðslækni af þeim ástæðum sem ég greindi hér áðan.

Ég ætla þá ekki að fjölyrða um þetta frekar, en endurtek það sem ég sagði hér áðan, að ég ætla að sitja hér fram eftir nóttu og mun hlusta grannt eftir þeim svörum sem gefin verða við þeirri mátaleitan sem ég hef hér haft uppi og tel að geti verið sú eina jákvæða lausn á því máli sem ég hef rætt.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að skattvísitölunni. Ég mun nálgast hana út frá því sjónarmiði sem kom fram í ræðu minni hér á þinginu í fyrra um framfærsluvísitöluna.

Það blasir við og allir, sem vilja vita það, eiga auðvelt með að átta sig á því, að framfærsluvísitalan er mjög misjöfn eftir því hvar menn búa í þessu landi. Þetta kemur þannig út í reynd, að ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu, sem búa á þeim svæðum þar sem framfærsluvísitalan er há eru miklu minni en hinna, sem búa þar sem framfærsluvísitalan er lág. Það væri ekki óeðlilegt að óska eftir því, að ráðh. lýsti þeirri skoðun sinni, hvort hann telur að við svo búið megi standa öllu lengur, hvort það sé ekki eitt af því sem þurfi að liggja fyrir, hver framfærsluvísitalan sé á hinum ýmsu stöðum á Íslandi, svo hægt sé að ákveða skattvísitölu.

Það er hart að hlusta á það í fjölmiðlum, að það fyrsta, sem mönnum dettur í hug þegar talað er um hina miklu þjóðflutninga sem enn eiga sér stað í þessu landi, er hið mikla óréttlæti sem eigi sér stað í atkvæðisrétti hjá Íslendingum. Umræðurnar um það, hvaða óréttlæti standi á bak við þessa miklu þjóðflutninga, fara ansi hljótt. Menn vilja helst ekki ræða það. En það er nú einu sinni svo, að það getur verið að margur verkamaðurinn úti á landi þurfi bæði að vinna eftirvinnu og næturvinnu til að eiga möguleika á sömu tekjum fyrir sjálfan sig og sá sem aðeins þarf að vinna dagvinnu þar sem framfærsluvísitalan er lægst. Ég held að við komumst ekki undan því, ef við viljum að við séum teknir alvarlega þegar við tölum um jöfnuð og réttlæti, að taka ábyrgari afstöðu til þessara mála en gert hefur verið.

Ég hefði gjarnan viljað hafa hér umræður í lokin um sveitarafvæðinguna. Hins vegar stendur svo á, að iðnrh. er ekki viðstaddur. Ég vænti þess, að þá gefist tími til að taka þau mál upp á þinginu í vetur til umr., eða a.m.k. vona ég það, því að það er eitt af þeim málum sem brenna hvað heitast á þeim mönnum sem ekki njóta þeirrar aðstöðu að hafa rafmagn. Mér er ljóst að í þeim efnum er sú lausn ein ekki algild, að það eigi að leggja línur til þessara bæja frá almenningsrafveitum. Vegalengdir í sumum tilfellum eru orðnar það miklar. En ég held að þá sé eðlilegt að gerð sé áætlun um að leysa það mál með heimarafstöðvum, hvort sem gripið verður til vatnsaflsstöðva eða hannað verður kerfi þar sem bæði eru notaðar vindrafstöðvar og dísilvélar til að fá lausn í þessum efnum.

Það hefur verið siðvenja, skilst mér, hér á Alþingi að nota næturfundi til að ræða um fjárlög. vel má vera að erfitt verði að forðast það, að einhver hluti fjárlagaumr. fari fram á næturfundi, en ég held að það sé ósiður mikill að hefja slíkan fund kl. 9 um kvöld. Ég vænti þess, að mönnum sé ljóst að það eru hálfgerð myrkraverk að þurfa að standa í umr. um þetta e.t.v. fram undir morgun vegna þess að menn hafa talið að málþóf og fsp. eigi meiri rétt á sér um miðja daga, en aðallög þingsins eigi að ræða á næturfundi.