19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1972)

1. mál, fjárlög 1981

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er mikið rætt um dýrtíð og hækkandi verðlag um þessar mundir og manni ætti því ekki að koma á óvart þótt fjárlagadæmið fái hærri og hærri niðurstöðutölur með hverju ári sem líður. Ég hef lítils háttar borið saman síðustu fjárlög, sem stjórn Geirs Hallgrímssonar gekk frá á Alþingi, og þau fjárlög, sem hér liggja fyrir, og hækkunin er nálægt því að vera fjórföld frá 1978 til þeirra fjárlaga sem eiga að gilda fyrir árið 1981. Nú væri ekkert við þetta að athuga, segja menn, ef hlutfallið milli þeirra málaflokka, sem fjallað er um, væri í réttu hlutfalli við nauðsyn þeirra verka sem verið er að fást við. Því miður sýnist mér að hér hafi farið allmjög úrskeiðis. Ég hef leitast við að finna hlutfall einstakra útgjaldaliða á fjárlagafrv. þessu núna og fjárlaganna frá 1978 og bera saman í hverju sú röskun væri fólgin sem þar hefur orðið. Segir það nokkuð um á hvaða vegi við erum stödd.

Það er ekki að sjá að það hafi nema í fáum tilvikum orðið hækkun á yfirstjórn mála í hinum einstöku ráðuneytum, en það er eftirtektarvert, að vissir þjónustuþættir hafa tekið á sig mesta hækkun. T.d. hafa tryggingamálin hækkað nokkuð og heilbrigðismálin mjög mikið. Þau voru 1958 6.7% af fjárlagaupphæðinni, en eru núna 7.5%. Ýmsir aðrir liðir, eins og ýmis lán ríkisins og vextir af þeim, voru árið 1978 2.4% af upphæð fjárlaga, en eru núna í þessu frv. að nálgast 4%, eða um 3.8%. Hins vegar er það okkur öllum undrunarefni, að ekki skuli vera mögulegt að halda í horfinu í þeim fjárveitingum sem varða mest atvinnuvegi landsmanna. Ég sé t.d. að það, sem kallað er „fjárveitingar til útvegsmála,“ sem voru 2.1% 1978, er fallið niður í 1.4% í þeim fjárlögum sem við erum núna að ganga frá. Á sama hátt er það með búnaðarmál, sem voru 4.6% af fjárlagaupphæðinni 1978. Þau hafa fallið niður í 4.1% í frv. sem við fáumst við núna. Ef lítið er til iðnaðarmálanna standa þau í sömu hlutfallstölu af fjárlagaupphæðinni og var. Ég nefni þessa þrjá þætti af því að ég tel nauðsynlegast að sinna þeim og sinna þeim vel.

Ég hef ekki hugsað mér að ræða neitt að ráði um fjárlögin almennt, en það er einn þáttur þó sem mér finnst að ég geti ekki sleppt að tala um nokkur orð, og það er Vegasjóður.

Eins og öllum er ljóst hefur bensíngjaldið verið um langt árabil einn veigamesti þátturinn í fjármögnun Vegasjóðs. Árið 1980, á fjárlögum þessa árs, runnu til Vegasjóðs 38% af þeim tekjum sem ríkissjóður hafði af innfluttu bensíni. Á árinu 1978 var hlutfallið, sem Vegasjóður hafði af bensíngjaldinu 51%. Í fjárlagafrv. því, sem við ræðum nú um, fær Vegasjóður 37% af þeim tekjum sem ríkissjóður innheimtir af bensíninnflutningi og bensínsölu.

Áætlað er að tekjur af bensínsölunni verði 1981 um 43 milljarðar kr. eða rúmlega það. Á nýjustu áætlun, sem liggur fyrir á sérstöku þskj. núna, er áætlað að til Vegasjóðs renni 16 milljarðar af þessu eða — eins og ég sagði áðan — 37%. Ef við aftur á móti gætum haldið í sama horfi og 1978 gengju nú til veganna nærri 22 milljarðar kr. Ég hygg að ef við hefðum getað haldið því hlutfalli værum við nær því að komast áfram í vegagerðinni í samræmi við þær óskir sem við höfum sett fram margir hverjir, og þá nauðsyn sem er á því að hafa vegina í lagi.

Ég ætla þá ekki að hafa fleiri orð um fjárlögin almennt. Ég get um þessa þætti til að undirstrika að mér sýnist að við séum hér á rangri leið með fjárlagagerðina og rangri leið með skiptingu þeirra fjármuna sem við ætlum að skipta upp til ýmissa þarfa í landinu.

En ég ætla aðeins að lokum að koma að brtt. sem ég stend að og flyt á þskj. 372 ásamt Agli Jónssyni. Ég tel mér skylt að gera það fyrir þá sök að mér er Búnaðarfélag Íslands viðkomandi þar sem ég á sæti í stjórn þess. Ég tel að starfsmönnum Búnaðarfélagsins hafi tekist að gera mjög traustar áætlanir um rekstur félagsins á árinu 1981. En þegar fjárlagafrv. birtist skorti þar nokkuð á að uppfylltar væru þær óskir sem fram voru bornar og ég tel að hafi verið mjög hóflegar og eðlilegar. Þá var gengið í það að ganga frá minnisblaði til fjárveitinganefndarmanna til að benda þeim á það sem úrskeiðis hafði farið, og mér til ánægju sé ég að nú hefur fjvn. tekið einn liðinn til leiðréttingar, sem var ofáætlaðar tekjur í tveimur liðum af starfsemi félagsins. Hins vegar voru tveir þættir sem þar hafa ekki fundið náð fyrir augum fjárveitingarnefndarmanna, en ég vil benda alþm. á og ber fram till. um að breytt verði.

Í fyrra tilvikinu eru það laun á vegum Búnaðarfélagsins, sem við Egill Jónsson leggjum til að verði hækkuð um 7 millj. 200 þús. kr. Það er komið til af því, að á því ári, sem nú er senn á enda, ákvað stjórnin að ráða sérstakan mann sem skyldi vera ráðunautur um hlunnindi.

Ég held að mönnum komi öllum saman um það, að það sé hið mesta nauðsynjaverk, ekki síst í hinum dreifðu byggðum, þegar möguleikar manna til að stækka bú sín og efla búskapinn eru rýrðir, að hafa þá möguleika á því að drýgja tekjur sínar með því að fullnýta þau hlunnindi sem landið á. Til þess var maðurinn og ráðinn. Hann hefur þegar hafið starf sem mönnum líst að muni leiða til aukinna hlunninda. Á ég þar sérstaklega við rannsóknir hans í sambandi við æðarvarp og æðarungauppeldi. Margt er það fleira sem honum er ætlað að gera, m.a. að vera bændum til ráðuneytis eða eigendum þeirra hlunninda sem rekin eru víðs vegar um landið. Einnig er það fyrirliggjandi verkefni að vera til ráðuneytis um nýtingu vatnasilungs sem víða er til og víða má enn þá rækta upp til nytja.

Til þess að Búnaðarfélagið geti staðið undir því að hafa ráðið þennan mann vantar það nokkurn veginn fullt stöðugildi, þó ekki alveg. Áður hafði Búnaðarfélagið örlítið brot úr starfsmanni til þessara starfa og því vantaði nú 0.88 af stöðugildi. Þetta er farið fram á í fyrri brtt. okkar Egils Jónssonar, að hlunnindaráðunauturinn verði viðurkenndur og fjármunir ætlaðir til að greiða honum laun.

Í öðru lagi var bent á það þegar vinna stóð yfir hjá fjvn., að starfsfé ráðunauta félagsins og búnaðarsambandanna hefði verið skorið niður um 43 millj. kr. Hækkun frá árinu áður var aðeins um 41.2% á þessu sérstaka starfsfé, sem er fyrst og fremst akstur og dagpeningar þegar þeir eru að heiman. Akstur hefur hins vegar hækkað um 74% og dagpeningar hafa hækkað um 57% á milli áranna 1979 og 1980. Það er því sýnilegt, að ef ekki verður komið til móts við Búnaðarfélagið að þessu leyti og gerð þarna á leiðrétting verður að draga saman mjög mikilvægan þátt í starfi ráðunautanna í landinu. Og það er alveg sömu sögu um það að segja og um það að efla starf hlunnindaráðunauts, að það er aldrei meiri nauðsyn á að efla starf hinna almennu ráðunauta en þegar menn þurfa að búa við það að tekjur þeirra rýrni verulega nema þeim heppnist að búa betur að sínu en áður hefur verið.

Þess vegna eru þessar till. lagðar fram, að við væntum þess, að við getum fengið stuðning við þær.