19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1973)

1. mál, fjárlög 1981

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það komst einn af ræðumönnum fyrr í kvöld þannig að orði, að þetta fjárlagafrv. væri tímamótafrv. Þetta eru orð að sönnu. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var talað um að hin pólitísku dreifbýlisöfl hefðu sameinast um myndun þessarar ríkisstj. Því er ákaflega gagnlegt að virða fyrir sér hver hlutur hinna ýmsu þátta, sem snerta byggðina á Íslandi og þá sérstaklega dreifbýlið, er í þessari fjárlagagerð. Því hefur reyndar verið lýst hér af öðrum ræðumönnum Sjálfstfl. og er þess vegna ekki mikil ástæða til að ræða það nákvæmlega.

Ég vil þó í fyrstu benda á sveitarafvæðinguna, sem menn hefðu getað látið sér detta í hug út frá fyrri yfirlýsingum að fengi nú einhvern byr. Ég undirstrika þau orð sem komu fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og hann hafði eftir núv. iðnrh. Hæstv. iðnrh. fór hér í þingræðu alveg sérstaklega fram á liðsinni og styrk stjórnarandstöðunnar við að koma fram á Alþingi till. sem gerðu fært að taka þar til hendi. Nú eiga menn væntanlega eftir að sjá það í atkvgr., hvar þeir menn, sem eiga eftir rafmagni að bíða úti um sveitir Íslands, eiga helst stuðnings að vænta.

Það hefur verið skýrt í þessum umr. hver viðurgerningur núv. hæstv. ríkisstj. er við Byggðasjóð. Það væri gaman að minna þá framsóknarmenn, sem voru kjörnir á Alþingi úr Austurlandskjördæmi, á orð þeirra fyrir síðustu kosningar, þar sem þeir voru gjarnan að hafa það yfir, að með því að draga úr rekstri ríkisins mundi lækka fjárframlagið til Byggðasjóðs og hvort þetta væri stefna sjálfstæðismanna á Austurlandi. Það hefur hins vegar tekist við þessa fjárlagagerð að draga úr fjármagni til Byggðasjóðs þrátt fyrir að fjárlög og umsvif ríkisins hafi stórlega vaxið.

En það er sannarlega að fleiru að hyggja en þessu og þá ýmsu sem snertir byggðirnar og þá kannske ekki síst bændurna miklu áþreifanlegar en það sem ég hef nú tilgreint. Það er kannske kaldhæðni örlaganna að virða það fyrir sér, hver hlutur Búnaðarfélags Íslands er í sambandi við fjárlagagerð. Víst er um það, að sá tími var að Búnaðarfélag Íslands átti í hópi framsóknarmanna á Alþingi meiri liðveislu að fagna en hefur komið fram við þessa fjárlagagerð. Við Steinþór Gestsson höfum borið hér fram brtt. við tvo fjárlagaliði Búnaðarfélags Íslands. Þar er aðeins tekið það sem er langmikilvægast, en getur þó leyst verulegan vanda.

Það vantar á í miklu fleiri tilvikum og í ríkari mæli en till. okkar gerir ráð fyrir. Þannig vantar t.d. í þann kafla fjárlaganna, sem snertir búfjárræktarlögin, 150 millj. kr. — og reyndar mun meira vegna þess að þá upphæð vantar á fjárveitingu þessa árs. Það hefur verið leitað eftir því við landbrn. á síðustu mánuðum að fá þessa greiðslu, en það hefur ekki tekist. Þetta snertir einmitt hið sérstaka ræktunarstarf bændanna sjálfra í landinu, sem er það tangódýrasta og hagkvæmasta sem er unnið á sviði búfjárræktar í þessu landi. Það er sannarlega vert að undirstrika það hér alveg sérstaklega, hvernig frá þessum málum er gengið í fjárlagafrv. og hvernig tekið er við óskum frá Búnaðarfélagi Íslands til leiðréttingar á þessum tölum.

En það er fleira sem vantar þarna inn í líka. Þá er athyglisvert að virða það fyrir sér einmitt að fjármagn vantar í þá liði sem snerta þjónustu við búnaðarsamböndin sjálf, sem kemur þá annaðhvort niður á því, að stórlega hlýtur að draga úr starfsemi þeirra eða þá að það verður að taka það fjármagn frá bændunum sjálfum.

Enn er ekki öll sagan sögð. Það er ekki langt síðan bændurnir í þessu landi fengu sinn félagsmálapakka. Hann var fólginn í því, að það átti að veita fjármagn af hendi hins opinbera til að greiða laun 60 afleysingamanna í landbúnaði, hliðstætt því og er gert víða í öðrum löndum, m.a. á Norðurlöndum. Núna er í fjárlögum fjárveiting að upphæð sem nemur 1/3 af þessum umsamda gjaldalið. Það er m.ö.o. hægt að hafa 20 afleysingamenn í staðinn fyrir 60 eins og var slegið föstu í félagsmálapinklinum. (Fjmrh.: Þetta kemur allt.) Já, þetta kemur allt. Ber að skoða þetta sem loforð frá hæstv. fjmrh.? Það vildi ég gjarnan mega flytja Búnaðarfélagi Íslands í morgunsárið. Ég get hins vegar frætt hæstv. fjmrh. á því, að í morgun höfðu forráðamenn Búnaðarfélags Íslands ekki mikla von um að það fengist leiðrétting á þessum málum. Það mundi áreiðanlega bæði gleðja þá og mig ef mál hefðu skipast þannig á þessum degi að þeir fengju betri tíðindi, þegar búið væri að afgreiða fjárlög á morgun, en tölurnar í þeim eins og þær eru nú bera með sér. (Fjmrh.: Ég á við þar næsta ár.) Já, það getur verið að það kæmi á þar næsta ári ef þessi ríkisstj., sem er krækt saman með þeim hætti sem allir vita, verður farin frá völdum. Undir þeim kringumstæðum gætu góð loforð frá hæstv. fjmrh. haft trúverðugt gildi.

En þá kem ég að einum þætti þessara mála enn þá sem snertir alveg sérstaklega sveitirnar og aðstöðu þeirra í þeim efnum. Þá á ég við lagningu sjálfvirks síma. Í áætlun póst- og símamálastjórnarinnar frá því í nóv. s.l. var gerð tillaga um að fjárveitingar til þeirrar stofnunar næmu 9.7 milljörðum kr. Samkv. fjárlögunum er þessi tala um 5.5 milljarðar og hefur þannig verið skorin niður frá áætlun þeirrar stofnunar um 90%. Enn þá athyglisverðara er að virða fyrir sér hvar þessi niðurskurður á sér stað. Í áætlun stofnunarinnar er gert ráð fyrir að lagning sjálfvirks síma í sveitum landsins nemi 1.5 milljörðum kr. Í fjárlögum er þessi tala hins vegar ca. 1/2 milljarður og af þeim 4 milljörðum, sem skornir hafa verið niður, er einn tekinn úr sjálfvirka símakerfinu í sveitum landsins. Það er aðeins þriðjungur þeirrar upphæðar sem er í fjárlagafrv. Það er athyglisvert, að þar er nálega ekki um að ræða nein ný verkefni, heldur fyrst og fremst þau sem hafði verið gert ráð fyrir að vinna á s.l. ári og svo þar sem ekki verður komist hjá því að leggja síma í jörð vegna lagningar háspennukerfis.

Hér er um að ræða einn þann þátt í þessari fjárlagagerð sem hvað svartastur er. Í tillögum póst- og símamálastjórnarinnar var áætlað að leggja sjálfvirka síma umfram það sem er í fjárlögunum núna í fjóra sveitahreppa á Austurlandi. Einmitt þar eru símamál í sérstökum ólestri og þar er þjónusta sú lakasta sem gerist hér á landi. Annars vegar er þetta í Hjaltastaðarþinghá og í Tunguhreppi og hins vegar í tveimur hreppum í Austur-Skaftafellssýslu, Mýra- og Borgarhafnarhreppum. Í þeim byggðarlögum hagar þannig til, að símatínan liggur yfir Hornafjarðarfljót. Hún hefur ekki verið endurnýjuð síðan hún var lögð þar yfir fyrir meira en þremur áratugum, m.a. vegna þess að menn hafa verið að vonast eftir því, að sjálfvirkur sími mundi leysa þetta kerfi af hólmi, en þá er jafnframt gert ráð fyrir að komið verði á radíósambandi yfir Hornafjarðarfljót. Bæði sveitarfélögin, sem ég hef nú sagt frá, þ.e. Mýra- og Borgarhafnarhreppur, höfðu boðið fram fjármagn að láni til þess að hægt væri að koma þessu verki áfram, og jarðræktarsamband byggðarlagsins hafði einnig heitið því að leggja til tæki sem ekki þyrfti að greiða fyrir fyrr en síðar, og reyndar höfðu fleiri boð komið sem auðvelduðu þessa framkvæmd. Það er af þessari ástæðu og þeirri miklu nauðsyn, sem hér er á ferðum, og líka til þess að undirstrika, hvað þessi þáttur er stórlega vanræktur í fjárlagagerðinni, að við Sverrir Hermannsson höfum lagt hér fram á þskj. 372 till. um fjárveitingar í þessa fjóra sveitahreppi á Austurlandi svo að unnt verði að leggja þar sjálfvirkan síma á næsta ári.

Ég lýk svo máli mínu, herra forseti. Ég sakna þess, að hvorki iðnrh. né heldur landbrh. skuli vera við þessa umr. því að það væri gagnlegt fyrir þá að fylgjast með því, ekki síður en aðra hæstv. ráðh., hver hlutur hinna dreifðu byggða og sveitanna er í þessari fjárlagagerð og hvernig fjárlögin snerta þá málaflokka sem þeir hafa þannig með höndum.