19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

1. mál, fjárlög 1981

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti: Það er árlegt verkefni menntmn. beggja deilda Alþingis að bera sameiginlega fram till. að úthlutun fjár sem Alþingi veitir á fjárlögum til heiðurslauna listamanna. Í því fjárlagafrv., sem hér er til umr., eru áætlaðar 27 millj. kr. til úthlutunar í þessu skyni. Nefndirnar hafa komið saman og gera á þskj. 304 till. um úthlutunina. Allir nm. beggja menntmn. standa að till., en Ólafur Þ. Þórðarson skrifaði undir með fyrirvara.

Á hinum sameiginlega fundi nefndanna nú fyrir nokkrum dögum var málið rætt og skipst á skoðunum og kom fram í umr. að ýmsir nm. telja ástæðu til að endurskoða stöðu þessa heiðurslaunaflokks og þá í sambandi við aðrar fjárveitingar til listamanna. Rætt var um að fjölga þeim listamönnum sem þessara heiðurslauna nytu, án þess þó að nm. færu út í mat á verðleikum hinna ýmsu listamanna sem til greina kæmu. Niðurstaðan varð þó sú, að n. hélt sig við þá ágætu tölu 12, eins og niðurstaðan hefur raunar verið hin síðari ár. Hins vegar voru nm. á einu máli um að margir verðugir stæðu utan heiðurslaunaflokksins. Nm. gera sér þó grein fyrir að einhvers staðar verða fjöldatakmörk að vera. Ber raunar að fagna svo lengi sem íslenska þjóðin á marga og góða listamenn sem verða nokkuð að bíða eftir að komast í sérstakan heiðurslaunaflokk listamanna. Svo lengi sem þeir aðilar, sem úthlutun eiga að annast, eiga í nokkrum vanda sökum margra verðugra eru íslenskir listamenn á réttri leið.

Tillaga nefndarinnar er um óbreyttan fjölda frá því sem var á þessu ári, þ.e. 12. Einnig gerir nefndin till. um að sömu menn og á þessu ári skipi heiðurslaunaflokkinn, en þeir eru: Ásmundur Sveinsson, Finnur Jónsson, Guðmundur Daníelsson, Guðmundur G. Hagalín, Halldór Laxness, Indriði G. Þorsteinsson, Kristmann Guðmundsson, María Markan, Snorri Hjartarson, Tómas Guðmundsson, Valur Gíslason og Þorvaldur Skúlason. Ætlar nefndin hverjum þeirra 2 250 000 kr.

Herra forseti. Mér þykir eðlilegt og sjálfsagt að umr. um listir sé ávallt vakandi og að þar séu menn ekki á ein sáttir. En þar sem hér er hvorki tilefni né tækifæri til slíkra umr. mun ég ekki frekar en orðið er lengja starfstíma þessa þingfundar, en fyrir hönd menntmn. beggja deilda þingsins hvet ég til samþykkis till. nm. á þskj. 304.