19.12.1980
Efri deild: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

147. mál, almannatryggingar

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar hefur haft til umfjöllunar frv. til l. um fæðingarorlof, breyting á lögum um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum. Eins og hv. þm. er kunnugt gerir þetta frv. ráð fyrir því, að lögfestur verði tágmarksréttur fæðingarorlofs til allra foreldra á hinum almenna vinnumarkaði auk þeirra sem heimavinnandi eru. Með því að lögleiða fæðingarorlof fyrir allar konur felur frv. þetta í sér þá meginbreytingu á rétti þessum, að heimavinnandi konur fá í fyrsta skipti fæðingarorlof. Gera má ráð fyrir að hér sé um að ræða um það bil 2000 konur á ári hverju sem nú öðlast fæðingarorlof í fyrsta skipti.

Gert er ráð fyrir því, að fæðingarorlofið greiðist úr lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins gegn framvísun vottorðs og sönnunar um launagreiðslur og atvinnuþátttöku viðkomandi, samkvæmt nánari reglum er ráðh. setur í reglugerð. Setning þeirrar reglugerðar verður, ef að líkum lætur, allvandasöm. Í því sambandi vil ég treysta því, að það verk verði unnið af fyllstu sanngirni og haft verði náið samráð við hagsmunaaðila, t.d. varðandi sjómannskonur, konur sem stunda nám með heimilisstörfum, konur sem stunda atvinnurekstur og ekki síst bændakonur.

Heilbr.-og trn. þessarar hv. deildar fylgdist með umfjöllun frv. þegar það var til meðferðar í Nd. og sat á tveimur sameiginlegum fundum með nefnd Nd. En eftir að frv. kom frá Nd. hefur nefnd þessarar hv. deildar að sjálfsögðu haft það til meðferðar. Það verður að segjast eins og er, að tíminn hefur verið afskaplega naumur til að skoða þetta frv. e.t.v. eins og vert hefði verið. En nál. okkar hljóðar á þá leið, að við leggjum til að frv. verði samþykkt með brtt. sem flutt er á sérstöku þskj. Fjarverandi afgreiðslu málsins var Gunnar Thoroddsen.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera grein fyrir þessari brtt, Og held ég geri það best með því að lesa hana upp, hún skýrir sig nokkuð sjálf.

Þetta er ákvæði til bráðabirgða, og það orðist svo: „Þrátt fyrir ákvæði 3. gr. skal Atvinnuleysistryggingasjóður ljúka greiðslu atvinnuleysisbóta í fæðingarorlofi samkv. lögum nr. 56/1975 til þeirra kvenna sem fæða fyrir árslok 1980. Verði greiðslan frá áramótum ekki lægri en samkv. lögum þeim sem taka gildi 1. jan. 1981.

Lífeyrisdeild Tryggingastofnunar ríkisins endurgreiðir Atvinnuleysistryggingasjóði þann kostnað sem af þessu leiðir eftir 1. jan. 1981. Einnig skal greiða þeim konum, sem ekki áttu rétt til fæðingarorlofs samkv. lögum nr. 56/1975 og hafa alið barn eftir 1. okt. 1980, fæðingarorlof frá 1. jan. 1981, að frádregnu tímabilinu frá fæðingu barnsins til 31. des. 1980.“

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. Það er einlæg von okkar nm., og ég veit að það er einlæg von allra hv. þdm., að þetta frv. nái fram að ganga fyrir hátíðar.