19.12.1980
Efri deild: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

147. mál, almannatryggingar

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Það fer víst ekki fram hjá neinum að jólin eru í nánd, ekki heldur hér í þingsölum. Jólaösin er hér í hámarki. Það hefur hvarflað að mér stundum undanfarið þegar ég lenti á slysadeild einu sinni í jólaösinni. Ég lá þar á bekk inni í klefa, starfsfólkið þaut fram og aftur. Þá kom inn til mín hjúkrunarkona eða hún kom í gættina og spurði: „Ert þú Þórarinn?“ Það geta allir farið nærri um hvert svar mitt var, en við skulum vona að mátin hér á hv. Alþingi eigi ekki eftir að afgreiða þessu líkt vegna annríkis.

Það kom fram í ræðu hv. frsm. með nál., að báðar deildir hefðu þingað saman um þetta mál. Við fengum að vera nokkurs konar áheyrendur, nm. úr heilbr.- og trn. Ed., þegar þeir héldu fund um málið í heilbr.-og trn. hv. Nd.

Ég get ekki annað en látið í ljós að mér finnst vera fljótaskrift á afgreiðslu þessa máls, eins og kannske fleiri mála á þinginu nú. Þetta er svo viðamikið mál, að ég tel að það hefði þurft meiri umfjöllun og lengri tíma en raun ber vitni. Á þessa tvo sameiginlegu fundi heilbr.- og trn. komu ýmsir fulltrúar launþegasamtakanna, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Stéttarsambands bænda, en kannske vegna tímaleysis eða fyrir einhver mistök voru ekki boðaðir fulltrúar Vinnuveitendasambandsins. Þannig mætti ýmislegt telja upp sem er athugavert vegna tímaskorts.

Ég verð að viðurkenna það, að ég þekki e.t.v. ekki nógu vel þau lög sem fyrir voru, og að ég finn þess vegna meira fyrir þessum asa en þeir hv. þm. sem sátu á Alþingi og áttu aðild að því að fjalla um og samþykkja þau lög um fæðingarorlof og eru þess vegna betur inni í þessum málum. Það verður því að virða mér það til vorkunnar þó að ég hafi staldrað við nokkur atriði í þessu frv. og hefði gjarnan viljað skoða þau betur.

Það kom fram hjá hæstv. heilbrmrh., að hér sé nýlunda á döfinni með því að nú geti báðir foreldrar tekið fæðingarorlof. Það er rétt. En það hefur hvarflað að mér, hvort þetta hefði átt að gerast á kostnað móðurinnar, því að markmiðið hlýtur frekar að vera það að faðirinn fái fæðingarorlof án þess að orlof hennar þyrfti að skerðast fyrir það. Það er nú einu sinni svo, að heilsufarslega séð held ég að móðirin sé ekki of sæl af þessum þremur mánuðum, því að ekki getur faðirinn a.m.k. enn þá leyst hana af hólmi við að ganga með barnið, ala það eða fæða það á móðurmjólkinni, svo að staða þeirra er nokkuð ólík hvað þau atriði varðar. Hvað um það, ég tel að faðirinn hafi þörf fyrir samveru við barn sitt og gagnkvæmt og þetta er skref í þá átt, en ég vildi samt benda á þá skerðingu sem verður á orlofi móðurinnar ef faðirinn tekur sér fæðingarorlof.

Annað atriði vakti athygli mína. Nú er talað um og gert ráð fyrir að fæðingarorlof sé þrír mánuðir en í fyrri lögunum voru þetta 90 bótadagar, sem þýddi 18 vikur, en nú verða það 13 vikur. Ég hef að vísu fengið þá skýringu á þessu, að þetta geri ekkert til því að þetta verði hærri fjárhæð í peningum. Og kannske er það rétt, að tíminn sé peningar.

Við fengum í gær bréf frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur þar sem bent var á afbrigði sem hér var fjallað um áðan og brtt. væntanlega leiðréttir, svo að ég er ekki að tala hér í þessu máli af því að ég sé á einhvern hátt óánægð. Ég geri það frekar til að láta í ljós að ég set í raun og veru allt mitt traust á þá þm., sem þekkja þetta mál, á þá aðila, sem sömdu frv., og þá aðila sem hafa fjallað um það, sem eiga að gæta hagsmuna okkar, svo að við séum ekki á „slysadeild“ í þessu máli.