19.12.1980
Efri deild: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

176. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. hefur skýrt nákvæmlega rétt frá því sem á fundinum fór fram, hver afstaða manna þar hefði verið, og ég þarf ekki að leiðrétta neitt af því sem hann sagði. Við erum andvígir þessu frv., sjálfstæðismennirnir og fulltrúi Alþfl., og leggjum til að það verði fellt. Þó að þessi litla breyting hafi verið á því gerð er það litlu betra, nánast má segja engu betra. Þetta er hið versta mál.

Við höfum auðvitað gert okkur fulla grein fyrir því sem hæstv. fjmrh. orðaði hér, að þetta er tekjuöflunarfrv. Þetta er fyrsta frv., eins og getið hefur verið hér í deildinni, — þetta er fyrsta frv. sem sér dagsins ljós af þeim efnahagsráðstöfunum sem er verið að boða. Þetta er verðbólgufrv., þetta er undirstrikun á því, að áfram eigi að halda hinni brjálæðislegu verðbólgustefnu sem þegar er að leggja atvinnuvegi landsins í rúst og fjármálakerfið allt. Þetta er eina vísbendingin sem við höfum fengið nú fyrir hátíðarnar um hvað fyrirhugað sé að gera. Það er undirstrikun á því, að það eigi ekki að verða stefnubreyting, það eigi að halda áfram að keyra áfram verðbólguna þar til atvinnuvegirnir eru í rúst, og lífskjörin fara auðvitað versnandi í hlutfalli við það. Það er athyglisvert að ríkisstj. skuli þó treysta sér til að marka stefnuna með þessu frv., hún lofar þó þingmönnum að vita af því, að allt það, sem hún er að hugsa, er í þessa áttina, í þessum farveginum. Og það var auðvitað drengilegt af hæstv. fjmrh. að upplýsa það hér, sem augljóst var, að þetta er tekjuöflunarfrv. Það á að halda áfram skattráninu, kjaraskerðingunni, verðbólgubrjálæðinu, stofna til atvinnuleysis og hruns atvinnuveganna. Þetta er ljóst. Og þeir þingmenn, sem leyfa sér að taka undir þessa stefnu með því að samþykkja þetta frv., ættu að hugleiða að frv. kemur ekki til með að gefa ríkissjóði nokkurn skapaðan hlut þar sem ljóst er að þegar nýi vísitölugrundvöllurinn kemur verður ríkið eitt að borga í launahækkanir allt það fé sem það fær inn, þar sem gosdrykkir og sælgæti koma til með að vega svo miklu þyngra eftir nýja grunninum heldur en hinum að það fæst aldrei eins reikningur út úr þessu. Mér hefur verið tjáð þetta af þeim embættismönnum, sem málið hafa athugað, og hef enga ástæðu til að ætla annað. Og eins og ég gat um við 2. umr. gengur það milli manna uppi í stjórnarráði, að augljóst sé að það þýði ekkert að vera að greiða niður mjólkina eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt, það væri nær að greiða niður kókið og lækka niðurgreiðslur á mjólkinni, þannig væri kannske hægt að hemja verðbólguna.

En það er auðvitað þakkarvert, að ríkisstj. skuli þó segja Alþingi og þjóðinni allri með þessu litla frv. að stefnan skuli vera óbreytt, það eigi að halda áfram að snúa verðbólguhjólinu hraðar og hraðar með þeim afleiðingum sem ég áðan gat um. Það er ástæða til að undirstrika það við þessa lokaumræðu, að stefnan er mörkuð: áframhaldandi óráðsía, stjórnleysi og hrun á fjármálasviði og atvinnusviði.