19.12.1980
Efri deild: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1846 í B-deild Alþingistíðinda. (2011)

176. mál, vörugjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður fremur venju, en ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þá hreinskilni sem hann sýndi þessari hv. deild núna þegar hann talaði. Þetta er alveg rétt hjá hæstv. ráðh. Hér er um nýja skattlagningu að ræða, eina af mörgum, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið að, og eina af mörgum, sem mun hækka skatta á næsta ári að raungildi um 20 milljarða kr. Það er gott að hv. dm. viti það þegar þeir eru að taka afstöðu til þessa máls, að í gær gerðist það að meiri hl. fjvn. ákvað að hækka tekjuáætlun fjárlagafrv. í eignarsköttum og tekjusköttum um 6.4 milljarða kr., þ.e. fram yfir verðbreytingar á milli ára. (Gripið fram í: Var það ekki í fyrrakvöld?) Það mun hafa verið seint í gærkvöld eða einhvern tíma í gærdag. Annars er hv. formaður fjvn. hér og hann ásamt sínum meirihlutamönnum var að möndla þetta, svo að hann veit betur um það en ég.

Ýmsir aðrir skattar hækka á næsta ári. Ég skal ekkert fjölyrða um það, en frá þessari tölu, 20 milljörðum að raungildi, sem stefnir í núna, er ég búinn að draga áformaða lækkun bæði á tollum og aðlögunargjaldi. Hér er því um að ræða nýjustu upplýsingar sem ég hef um raungildishækkun skatta á næsta ári.