19.12.1980
Neðri deild: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

171. mál, jöfnunargjald

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það hefur nú komið upp nokkuð furðuleg staða hér í þinginu. Við höfum staðið sameiginlega að því, Alþfl.-menn og fulltrúar Sjálfstfl. — a.m.k. í þessari hv. deild, ég veit ekki hvað þeir hafa gert í Ed. — að gagnrýna mjög harðlega skattastefnu núverandi stjórnvalda, bæði þá stefnu, sem kemur fram í lagasetningu, og ekki síður þá stefnu, sem kemur fram í framkvæmdinni.

Þegar kemur hins vegar að því að hækka gjald, óbeinan skatt eins og jöfnunargjaldið, þá gerist það furðulega í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, að þar taka fulltrúar Sjálfstfl. höndum saman við stjórnarliðið um þessa skattheimtu — og áttuðu sig ekki á því fyrr en undir lok fundarins að það væri kannske réttara að gera einhvern fyrirvara með undirskrift sinni á nál. Gerðu það þó, ég held þeir hafi ekki gert það í Ed.

Enn einkennilegra er þetta fóstbræðralag þegar á það er lítið, hvernig skattur það á að vera sem verið er að heimila ríkisstj. að leggja á í ákvæði til bráðabirgða. Sagt er í ákvæðinu til bráðabirgða að það eigi að heimila ríkisstj. að leggja á sérstakan viðbótarskatt, sem annaðhvort eigi að vera jöfnunargjald eða aðlögunargjald eða ígildi jöfnunargjalds eða aðlögunargjalds. Ég fæ ekki annað séð en að hæstv. ríkisstj. hafi talsvert frjálsar hendur um þessa skattlagningu, þegar hún má annaðhvort hafa þetta sem jöfnunargjald eða aðlögunargjald eða ígildi annars hvors gjaldsins, og Sjálfstfl., stjórnarandstöðuflokkurinn, sé nú að skrifa upp á óútfylltan víxil eða tékka til hæstv. ríkisstj. og setji henni algjörlega í sjálfsvald hvernig hún hyggist leggja á nýtt skattgjald. Hann selur henni sjálfdæmi um þá skattlagningu, Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta þykir mér tíðindum sæta, því að slíkt sjálfdæmi hélt ég ekki að stjórnarandstöðuflokkar væru vanir að selja ríkisstjórnum.

Það er ekki nóg með þetta sjálfdæmi sem Sjálfstfl. felur ríkisstj., að hún megi sem sé leggja viðkomandi gjald á eins og henni best kann að þykja, án nokkurs samráðs við Alþingi. Það er ekki tekið fram í tillögugreininni, að hæstv. ríkisstj. þurfi nokkurt samráð að hafa — þ. á m. alls ekkert samráð við þm. Sjálfstfl. — um það, hvernig hún leggur gjald þetta á. Henni er selt algjört sjálfdæmi í því og hefur algjörlega frjálsar hendur. Sjálfstæðismenn hér á Alþingi telja sig geta treyst ríkisstj. fyllilega fyrir öllum slíkum verkum.

Og það er ekki nóg með það, heldur gerist það jafnsnemma að þeir sjálfstæðismenn selja ríkisstj. algjört sjálfdæmi í því, hvernig ríkisstj. kunni að ráðstafa þessu gjaldi. Að vísu er tekið fram að það eigi að vera til iðnþróunaraðgerða, en sjálfstæðismenn í fjh.- og viðskn. virðast ekki hafa neinn áhuga á því að fá að fylgjast með því, til hvaða iðnþróunaraðgerða eigi að verja tekjunum af þessu gjaldi. Ríkisstj. hefur atgjört sjálfdæmi um hvað hún kallar iðnþróunaraðgerðir í þessu sambandi. Og skyldi nú ekki ríkisstj. — eftir að hafa fengið svo víðtæka heimild frá öðrum stjórnarandstöðuflokknum — telja sig standa báðum fótum í jötu hvað það varðar hvernig hún eigi að ráðstafa þessu gjaldi, sem Sjálfstfl. virðist ekki hafa neinn áhuga á að fylgjast með hvernig verður á lagt né hvernig verður ráðstafað? Þetta er alveg furðuleg framkoma af stjórnarandstöðuflokki eins og Sjálfstfl., sem mjög harkalega hefur gagnrýnt ríkisstj. fyrir skattastefnu hennar.

Á nál. á þskj. 359 kemur fram álit minni hl. fjh.- og viðskn. sem ég stend einn að. Eins og þar er sagt felur ákvæði til bráðabirgða, sem sett var inn í frv. í hv. Ed. og meiri hl. nefndarinnar leggur til að verði samþykkt, í sér óskoraða heimild til ríkisstj. til viðbótarskattlagningar í hvaða formi sem henni hentar, þar sem — eins og ég sagði áðan — ákvæðið tiltekur ekki einu sinni heimild til hækkunar á jöfnunargjaldi eða framlengingu aðstöðugjalds, heldur einnig til álagningar svonefnds ígildis þess, sem getur raunar verið hvað sem er.

Þegar þetta mál var fyrst rætt var þeirri hugmynd hreyft, og hún raunar sett á blað af stjórnarsinnum, að þeir buðust til þess, að ríkisstj. hefði samráð við fjh.- og viðskn. Alþingis og þ. á m. stjórnarandstöðuna um það, hvernig þetta gjald yrði lagt á, ef hún notaði sér heimildina, og hvernig því yrði svo ráðstafað. En Sjálfstfl. hefur fallist í faðma við stjórnarsinna og ekki talið neina þörf á að þessir skilmálar, sem stjórnarsinnar þó buðust upphaflega til að hafa í frv., væru settir þar inn. Sjálfstfl. afsalar sér m.ö.o. öllum möguleikum til aðfylgjast með mátinu þó svo að ríkisstj. hafi boðið það. Verður ekki annað sagt en að sá hluti Sjálfstfl., sem ekki var í ríkisstj., sé a.m.k. kominn með stóru tána inn í hana eftir þetta. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þó svo að umrædd bráðabirgðaheimild sé sett og samþykkt gefur hún út af fyrir sig ríkisstj. ekkert frekara svigrúm til gjaldtöku en ríkisstj. — í kjölfar þeirra athugana sem væntanlega fara fram eftir áramótin á möguleikum á annaðhvort hækkun jöfnunargjalds, framlengingu aðstöðugjalds eða álagningu einhvers ígildis þessa — mundi hafa þótt hún legði slíkt frv. fram eftir jól, eftir að hún væri komin að niðurstöðu um hvað hún hygðist gera, fengi það afgreitt á Alþingi. Eini munurinn er raunar sá, að meiri hl. fjh.- og viðskn., þar á meðal hv. sjálfstæðismenn lýsa yfir að þeir telji ástæðulaust að Alþingi fjalli frekar um málið. Þeir eru reiðubúnir til þess að veita hæstv. ríkisstj. allar heimildir, bæði til gjaldtökunnar, til þess að leggja á þann skatt, sem ríkisstj. kærir sig um og talist getur ígildi einhvers jöfnunargjalds eða aðstöðugjalds, og einnig að hæstv. ríkisstj. hafi atgjörlega frjálsar hendur um ráðstöfun á þessu gjaldi, svo fremi sem hægt sé að kalla þá ráðstöfun með einhverjum rétti ráðstöfun til iðnþróunar.

Annar stjórnarandstöðuflokkurinn lýsir því m.ö.o. yfir við afgreiðslu málsins, að hann telji með öllu óþarft, að Alþingi fjalli um nokkra svona skattlagningu eða nokkra svona fjármunaráðstöfun, og að hann fyrir sitt leyti treysti hæstv. ríkisstj. alfarið til að sjá fyrir því, án þess að hún þurfi að leita með málið með einum eða öðrum hætti til Alþingis.

Það er mín skoðun — eins og kemur fram í nál. — að gjaldtaka af þessu tagi, hvort sem hún á rétt á sér eða ekki, sé til þess eins fallin að fresta ýmsum nauðsynlegum og eðlilegum aðgerðum sem eru grundvallarforsenda farsællar og skynsamlegrar iðnþróunar. Menn hafa tengi vikið sér undan slíkum verkefnum, sem raunar skipta íslenskan iðnað miklu meira máli en einhver skattlagning sem síðan er hirt fé af til pólitískrar úthlutunar til einstakra iðnþróunarverkefna. Ef menn ætla að efla samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gera menn það með því að skapa honum lánamöguleika til jafns við aðrar atvinnugreinar, menn gera það með því að tryggja eðlilegan aðbúnað í gengismálum, menn gera það með því að taka upp virðisaukaskatt í stað söluskatts. Þetta eru raunhæfar aðgerðir til þess að gera íslenskan iðnað samkeppnishæfan við útflutning, en hitt, að fresta þessum aðgerðum stöðugt frá ári til árs og leggja í staðinn á alls konar skatta og gjöld og úthluta þeim svo pólitískri úthlutun til hinna og þessara verkefna, er ekki raunhæfur stuðningur við íslenskan iðnað. Það er löngu yfirlýst að hálfu iðnaðarins, að það eru slíkar aðgerðir sem bæði iðnrekendur og iðnverkafólk leggja fyrst og fremst áherslu á. Og það er löngu orðið ljóst, að slíkar aðgerðir eru tímabærar.

Þá hefur það furðulega einnig komið fram við athugun á þessu máli, að sá maður, sem hafði forustu fyrir nefndinni, sem á sínum tíma fór og fékk samþykki EFTA við svokölluðu aðlögunargjaldi, sem á að renna út um n.k. áramót, og fékk Efnahagsbandalag Evrópu til þess að þola slíka gjaldtöku án aðgerða gagnvart okkur Íslendingum, Ingi R. Helgason, hefur lýst því yfir, að hann treysti sér ekki til að fá þessa aðila til að samþykkja eða una hækkun á jöfnunargjaldi. Þessi maður ætti að tala þar af mikilli þekkingu þar eð hann hafði forustu fyrir þeirri nefnd sem fór á sínum tíma á vit þessara aðila og fékk þá til að umlíða og samþykkja aðlögunargjaldið.

Þessi sami maður, sem talar þarna af þekkingu, segist hins vegar treysta sér til að fá þessa aðila til að umbera framlengingu aðlögunargjaldsins. M.ö.o.: hann vill ekki fallast á að unnt sé — öðruvísi en að við verðum látnir sæta efnahagslegum refsiaðgerðum — að hækka jöfnunargjaldið eins og lagt er til í ákvæði til bráðabirgða að ríkisstj. sé heimilt. Hæstv. viðskrh., sem einnig ætti að tala og talar af mikilli þekkingu um þetta mál, er hins vegar á þveröfugri skoðun. Hann segir, að það sé óðs manns æði að ætla sér að fara á flot með aðlögunargjaldið, og vill helst strika það orð út úr bráðabirgðaákvæðinu, en hins vegar komi til greina að hækka jöfnunargjaldið. Þarna fara þeir tveir menn sem ættu að hafa einna mesta þekkingu á þessum málum. Annar getur alls ekki samþykkt hækkun jöfnunargjaldsins, treystir sér alls ekki til að fara á flot með það. Hinn, ráðh. sjálfur, getur alls ekki samþykkt framlengingu aðlögunargjaldsins, getur alls ekki farið á flot með það. Það eina, sem þessir tveir menn — og þar með ríkisstjórnarflokkarnir - virðast vera sammála um, er ígildið. Ef ætti að fara eftir þeirra ráðum ætti því bæði að strika út orðið aðlögunargjald og orðið jöfnunargjald og skilja ígildið eitt eftir, sem sé að Alþingi heimilaði hæstv. ríkisstj. að leggja á ígildi. Sjálfsagt er það ígildi sem endanlega verður á lagt, hvernig svo sem það lítur út.

Ég er samþykkur því að framlengja jöfnunargjaldið óbreytt eins og það hefur verið. Mun ég því leggja til, eins og kemur fram í nál. mínu, að hv. Nd. fallist á frv. það sem hér er til umr., að undanteknu bráðabirgðaákvæðinu um aðlögunargjaldið, jöfnunargjaldið og ígildið. Ég legg til að það bráðabirgðaákvæði verði fellt.