28.10.1980
Sameinað þing: 11. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

337. mál, málefni Flugleiða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja hér ræðu, en kem fyrst og fremst í ræðustól til að leiðrétta missögn sem mér varð á fyrr í dag þegar ég fór línuvillt í þeim gögnum sem ég var með. Það er alveg rétt, sem hv. þm. Árni Gunnarsson sagði, að þar er átt við Fokker F27-200, en ekki 100, og það leiðréttist hér. Það breytir hins vegar í engu þeim ályktunum sem ég dró, vegna þess að í verðskrá Flight International er nákvæmlega sama verð gefið upp á þessum tveimur tegundum, 100 og 200. En rétt skal vera rétt og því leiðrétti ég það hér með hvaða tegund er átt við þótt það hafi engin áhrif á verðsamanburðinn.

Ég vil vekja athygli á því, að Alþb. hefur á engan hátt tafið framgang þessa máls. Það er rétt, eins og hæstv. samgrh. sagði, að 15. sept. var óskað eftir því, að þessi ríkisábyrgð yrði veitt. Það er komið fram frv. nú þegar. Það er 7 mánuðum fyrr en ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar lagði slíkt frv. fram á sínum tíma. En það er að vísu rétt, að það er ekki búið að vísa þessu frv. til nefndar í Ed. Þess vegna hef ég ekkert vald á þessu máli í dag, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson vildi vera láta í þeirri annarri meginræðu sem hann flutti um mig í þessum umr., því að seinni ræðan var eiginlega nákvæmlega eins og hin fyrri, hún fjallaði eiginlega öll um mig.

Það er mikill misskilningur, að ég sé hinn valdamikli maður í þessum efnum. Staðreyndin er nefnilega sú, að málið er ekki útrætt í Ed. og ekki komið til nefndar. Og hvers vegna er það ekki útrætt? (Gripið fram í: Af því að þú hefur talað í einn og hálfan klukkutíma um það og enginn annar hefur komist að.) Það er mesti misskilningur. Það er ekki útrætt vegna þess að fulltrúi Sjálfstfl. í deildinni, sem var búinn að tala hátt á aðra.klukkustund um málið, hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, er enn á mælendaskrá. Hann er sá eini sem er á mælendaskrá. Og hverjir tefja að málið geti komið til nefndar? Þm. Sjálfstfl. Það eru þeir sem með málþófi í Ed. eru að tefja að þetta mál geti farið til nefndar. Það er enginn Alþb.maður á mælendaskránni — það ætlaði enginn að tala. Þess vegna hefði mátt afgreiða málið til nefndar okkar vegna í gær, en það var ekki hægt vegna Sjálfstfl. Svo koma þessir herramenn hér og tala um að við séum að tefja málið! Þessar staðreyndir er nauðsynlegt að hafa í huga.

Ég vil að lokum lýsa því hér yfir, að þær meginniðurstöður, sem hæstv. samgrh. dró saman í lok máls síns, þar sem hann lýsti stefnuafstöðu sinni til framtíðaruppbyggingar þessa flugs með þætti starfsfólks og afskiptum ríkisvaldsins, eru nákvæmlega sama afstaðan og við fulltrúar Alþb. höfum haft í þessu máli. Það er ekki nokkur ágreiningur af minni hálfu við þá lokaniðurstöðu í meginstefnuyfirlýsingu þeirri sem hæstv. samgrh. lýsti. Það er rétt að þeir hafi það í huga sem hafa verið að reyna að búa það til í blöðum og annars staðar að það væri einhver ágreiningur okkar á milli um þetta efni.

Hitt er svo athyglisvert hve feikilegan áhuga hinn tuttugu og tveggja manna þingflokkur Sjálfstfl. hefur á þessu Flugleiðamáli. Það er nú meiri áhuginn! Það er einn þm. úr þessum flokki sem hefur haft nennu til að vera við þessar umr. í dag, einn af 22, og hann hefur aðallega talað um mig. Hvar eru hinir? (Gripið fram í: Þeir vilja ekki hlusta á það.) Nei, það er skiljanlegt að þeim ofbjóði. — Áhugaleysi þingflokks Sjálfstfl. á þessu máli er ljóst. Umhyggjan fyrir þessu máli er ljós. Áhyggjurnar af atvinnuöryggi starfsfólksins eru ljósar. Einn þm. Sjálfstfl. hefur haft úthald til þess að sitja í þessum umr. og síðan hafa tveir til þrír til viðbótar verið hér á stangli, þar af einn varamaður. En það eru 19 þm. Sjálfstfl. sem hafa ekki hirt um þessar umr. í Sþ. Það ásamt málþófi Sjálfstfl. í Ed. í þessu máli sýnir vel hvernig framkoma þeirra hefur verið og er. (Gripið fram í: Eru varamennirnir ekki fullgóðir?) Jú, þeir eru fullgóðir, það er alveg rétt, en við þekkjum það, þm., að varamenn sitja oft fyrstu daga sína á þingi lengur yfir umr. en aðrir. Ég er ekkert viss um að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefði setið hér í allan dag ef hún hefði verið búin að átta sig á því hvert áhugaleysi þingflokks Sjálfstfl. er á málinu ella.

Ég vil að lokum svara því sem hv. þm. Friðrik Sophusson var að spyrja um. Ég lýsti ítarlega í Ed. í gær afstöðu minni til þess frv., sem þar er til umr., og til einstakra greina þess frv. Sú afstaða liggur fyrir, jafnframt sú afstaða sem ég hef látið í ljós hér áður. Það er enginn ágreiningur á milli okkar og hæstv. samgrh. um meginstefnuna í þessu máli varðandi þetta frv. og framtíðarþróun þessa máls. Það er því eins og annað röfl hv. þm. í þessu máli að afstaða okkar liggi ekki fyrir.