19.12.1980
Neðri deild: 44. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (2040)

160. mál, minnsta mynteining við álagningu opinberra gjalda

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Þetta mál gengur nú svo hratt í gegnum deildina, að það er erfitt að átta sig á því og reyndar öðrum málum, en mér datt í hug hvort of seint væri að óska eftir svari frá hæstv. fjmrh. um það, hvort ekki væri eðlilegt að fá heimild inn í þessi lög um að fella niður tvö núll af nýju krónunni, þar sem nú gerast þeir atburðir á Alþingi og í þjóðfélaginu sem benda til þess, að verðbólgan sé svo hröð að hún hafi aldrei verið hraðari. Það væri kannske þess vegna ástæða til að staldra við, þar sem nú er síðasti möguleikinn til þess, og kannske grípa tækifærið áður en það verður um seinan.