20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Þingflokkur sjálfstæðismanna lýsir því yfir, að hann er andvígur þessari þáltill. um frestun Alþingis.

Þm. Sjálfstfl. eru reiðubúnir til þess að mæta til þingfundar hvenær sem er og taka þá og þar afstöðu til hvers konar tillagna ríkisstj. til úrlausnar efnahagsvanda.

Að venjubundnum hætti hefði þingflokkur sjálfstæðismanna ekkert við slíka till. um þingfrestun að athuga, en nú háttar svo til að ríkisstj. hefur allt frá því til hennar var stofnað fyrir nær ári ekkert aðhafst til aðgerða í brýnustu efnahagsvandamálum í baráttu gegn óðaverðbólgu. Sjálfstæðismenn hafa lýst eftir aðgerðum hvað eftir annað, en þögn, úrræða- og aðgerðaleysi hefur verið eina svarið.

Í gærkvöld lét forsrh. að því liggja í sjónvarpi, sem hann hefur ekki viljað segja Alþingi, að tillagna ríkisstj. í efnahagsmálum væri að vænta, ef ekki fyrir jól, þá milli jóla og nýárs.

Með tilvísun til þess telur þingflokkur sjálfstæðismanna það virðingarleysi við Alþingi, að ríkisstj. hefur ekki kjark til að birta þingi niðurstöður sínar og ætlar ekki að leggja úrræði sín undir dóm og atkv. Alþingis eins og þingræði, sem við viljum halda í heiðri, krefst.

Þingflokkur sjálfstæðismanna dregur að vísu í efa, með skírskotun til meira en 10 mánaða aðgerðaleysis ríkisstj., að nokkur niðurstaða sé fengin, og telur, að í þessari ríkisstj. sé ekki samstaða um nein úrræði í efnahagsmálum sem að gagni megi koma frekar en í öðrum stjórnum sem fylgja vinstri stefnu. Engu að síður er hér um svo veigamikla grundvallarreglu að ræða, að ekki verður fram hjá því gengið, að Alþingi er falið löggjafarvaldið og það ber að virða. Ef Alþingi er sent heim og brbl. sett til að fylgja fram efnahagsráðstöfunum, þá ber það vitni virðingarleysi núv. ráðh. og ríkisstj. fyrir þingræðisreglum. Brjóti ríkisstj. þannig þingræðisreglur hljóta málagjöld að verða í samræmi við það. Ég segi nei.