29.10.1980
Efri deild: 7. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru tvær ræður, sem hafa verið fluttar í þessum umr. eftir að ég talaði áður, sem ég sé ástæðu til að víkja að nú. Það er ræða hæstv. fjmrh. og ræða hv. 11. þm. Reykv. Ég vona að ég sjái hæstv. fjmrh. hér í salnum, af því að ég ætla að fara að tala við hann, og hann meti þetta mál svo mikils að hann verði hér viðstaddur. (Forseti: Ef ég má. Ég hef gert ráðstafanir til þess að hæstv. ráðh. verði viðstaddur þessa umr. — ÓRG: Má ekki byrja á því að tala um mína ræðu?) Ég held að ég haldi mig við þá röð sem ég hafði hugsað mér að taka þá félaga í. Ég þykist þá mega gera ráð fyrir því, að a.m.k. hv. 11. þm. Reykv. geri fjmrh. glögg skil á því sem ég segi þar til hann kemur í salinn.

Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni að hann ætlaði ekki að fjölyrða um þau efni sem ég ræddi um, og hann tók svo til orða, að hann vildi að málið kæmi sem allra fyrst til n. þannig að hægt væri að hraða afgreiðslu þess, og vildi hann því ekki fjalla efnislega um aths. og ábendingar hv. þm., — þar á hann við mig. Það er ágætt að hæstv. ráðh. vilji með því að takmarka mál sitt, flýta því að þetta mál komist til n., enda var ég rækilega búinn að leggja áherslu á það út af fyrir sig. En það er svo, að hvaða viðleitni sem hæstv. ráðh. kann að hafa til þess að stilla máli sínu í hóf talar hv. 11. þm. Reykv. því lengur. Ég held því að þessi viðleitni af hálfu hæstv. ráðh. sé unnin fyrir gýg. En það sem er verra: Það var að sjálfsögðu full ástæða til þess að hæstv. ráðh. hefði tjáð sig um þau efni, sem ég gerði einkum að umræðuefni, tjáð sig um hvers vegna slíkur seinagangur hefur verið á þessu máli í meðferð ríkisstj. sem raun ber vitni, tjáð sig um leyfisveitinguna til Iscargo, gefið hér skýringar á því, hvernig það mætti vera að á sama tíma sem ríkisstj. telur sig vera að vinna að aðstoð við Flugleiðir segir stjórn þess fyrirtækis, að með ákvörðunum um þessa leyfisveitingu sé gert allt sem hægt er til að veikja stöðu Flugleiða. Það hefði verið ástæða til þess, að hæstv. ráðh. hefði eitthvað komið inn á það, hvers vegna 1. gr. frv. er svo óljós og með ólíkindum sett upp eins og ég benti á í ræðu minni. Hann kom ekki að því. Og það hefði verið ástæða til þess, að hæstv. ráðh. hefði vikið að skilyrðum þeim sem frv. gerir ráð fyrir í 5. gr., vegna þess að það var sérstaklega rætt um það af minni hálfu að það væri mikið atriði að þm. vissu hvað ríkisstj. hygðist fyrir í þessu efni, því að það gæti verið ákvarðandi fyrir margt. Hæstv. ráðh. kom ekki að þessu. Það er miður að hann skuli ekki hafa gert slíkt.

En hæstv. ráðh. svaraði efnislega og refjalaust fjórum þýðingarmiklum spurningum sem ég lagði fyrir hann í lokaræðu minni. Fyrsta spurningin, sem þar er um að ræða, var sú, hvernig stæði á því að ríkisstj. heitir í samþykkt sinni 16. sept. s.l. að veita Flugleiðum í þrjú ár bakábyrgð sem nemi allt að 3 millj. Bandaríkjadollara á ári, en í frv. þessu er talað um sjálfskuldarábyrgð á láni sem nemi allt að 3 millj. Bandaríkjadala til eins árs. Hæstv. ráðh. svaraði þessu á þá leið, að svarið væri mjög einfalt. Það hefði verið gert ráð fyrir að þessi Atlantshafsflugrekstur væri byggður á liðsinni og aðstoð íslensku ríkisstj. og ríkisstj. í Lúxemborg og þar sem ríkisstj. í Lúxemborg hefði ekki verið reiðubúin til að lofa slíkri aðstoð lengur en til eins árs þætti ekki rétt að íslenska ríkisstj. gerði það fremur. En ég verð að segja það, að ég get hugsað mér að það hefði verið meir traustvekjandi gagnvart Lúxemborgarmönnum að halda sig við þrjú ár, enda engu til kostað ef litið er svo á að hér sé einungis um að ræða eftirgjöf lendingar- og leigugjalda sem hvort eð er væru töpuð ef Atlantshafsflugið legðist niður. Ég held að þetta sé ekki eins einfalt og hæstv. ráðh. vill vera láta.

Önnur spurningin, sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh., var á þá leið, hvort ráðh. teldi að það nægði að veita Flugleiðum aðstoð samkv. 1. gr. frv. í eitt ár, og ef svo væri ekki, hvort ætlun hans væri að aðstoðin yrði veitt samtals í þrjú ár svo að það, sem gert væri á fyrsta ári, yrði ekki unnið fyrir gýg. Hverju svaraði hæstv. ráðh. í þessu efni? Hæstv. ráðh. sagði að honum væri ógerningur að vita neitt um hvernig til tækist og hvort þessi flugrekstur yfirleitt héldi áfram eftir þetta eina ár eða ekki, eins og hæstv. ráðh. orðaði það. Og hæstv. ráðh. sagði enn fremur: Ætli menn líti ekki á þetta eina ár sem ár tilraunar sem eigi að leiða í ljós hvort nokkur lóra sé í að halda þessu áhættuflugi áfram eða ekki. Ég tel, segir hæstv. ráðh., að margt bendi til þess, að þetta eina ár næ í ekki.

Ég skal ekki vefengja það, að svo kunni að fara að eitt ár nægi ekki í þessu sambandi. En ég veit ekki betur en það hafi verið talað um að það þyrfti þrjú ár til að fullreyna hvort tækist að endurskipuleggja og treysta Norður-Atlantshafsflugið. Hæstv. ríkisstj. var líka á þeirri skoðun, því að það er gert ráð fyrir þrem árum í yfirlýsingu ríkisstj. frá 16. sept. s.l. Ég verð að segja, að mér þykir nokkuð athugavert við orð og æði hæstv. ríkisstj. hvað þetta atriði varðar.

Þriðja spurningin, sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh., var á þá leið, hvort ráðh. teldi að það samræmdist íslenskum hagsmunum að Íslendingar veiti Flugleiðum minni aðstoð en Lúxemborg frá 1. okt. 1980 til 30. sept. 1981. Hverju svaraði hæstv. ráðh. í þessu efni? Við skulum líta á það.

Hæstv. ráðh. segir að hann haldi að það sé ákaflega mikill misskilningur að aðstoð sú, sem ríkisstj. Lúxemborgar hyggst veita, sé á einn eða annan hátt meiri en sú sem íslenska ríkið og íslenskir skattgreiðendur þurfi hugsanlega að taka á sig, — ákaflega mikill misskilningur, segir hæstv. ráðh. Ég verð að segja, að mig furðar á því, að það skuli koma fram hjá hæstv. ráðh. í þessu efni annar eins misskilningur og hann er ber að um þetta efni, vegna þess að hann leggur áherslu á það og kemur fram í svari hans að ef íslenska ríkisstj. veiti ríkisábyrgð sé það slík aðstoð við Flugleiðir að jafna verði til þess að íslenska aðstoðin sé á næsta ári miklu meiri en aðstoð Lúxemborgar.

Í fyrri ræðu minni lagði ég áherslu á að á þessu fyrsta ári hefur Lúxemborgarstjórn lofað að leggja fram jafnvirði 3 milljarða Bandaríkjadala í beinum fjárframlögum til aðstoðar Flugleiðum, auk þess að leggja niður lendingargjöld. Íslenska ríkisstj. hefur lofað og samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að lendingar- og leigugjöld af hálfu Íslands verði felld niður. En hvað á þá að koma á móti beinu fjárframlagi Lúxemborgar? Hæstv. ráðh. bendir á ríkisábyrgðir. En hér er um að ræða mikinn misskilning ráðh. Hann leggur að jöfnu ábyrgð og bein fjárframlög sem um er að ræða hjá Lúxemborgarmönnum. Samkv. lögum um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðarsjóð gilda strangar reglur um veðtryggingar til að sjá um að ríkissjóður verði skaðlaus. Flugleiðir fara ekki fram á annað í þessu sambandi en að ríkisábyrgð samkv. venjulegum reglum verði veitt, eins og veitt er fjölmörgum öðrum fyrirtækjum ef hinum almennu skilyrðum er fullnægt. Og á maður að trúa því, að þó að ríkisstj. ætli að myndast við að veita Flugleiðum jafnrétti í þessum málum við önnur fyrirtæki í landinu sé hægt að skoða það sem eitthvert sérstakt framlag sem komi til álita að leggja að jöfnu við bein fjárframlög frá hálfu Lúxemborgarmanna? Ég er furðu lostinn að menn skuli leyfa sér að halda fram öðru eins og þessu. (Gripið fram í: Finnst þm. að Flugleiðir eigi að hafa jafnrétti á við aðra í þessu máli?) Mér finnst, ef það eru almenn lög, hvort sem er um ríkisábyrgðir, ríkisábyrgðasjóð eða hvað sem er, að allir eigi að vera jafnir gagnvart lögunum. (Gripið fram í: Og ekki hækka verðmatið vegna Flugleiða sem sagt.) Það eiga allir að vera jafnréttháir gagnvart lögunum. Það er það sem ég er að tala um.

Ég kem þá að fjórðu spurningunni. Fjórða spurning mín til hæstv. ráðh. var á þá leið, hvort það sé stefna hæstv. ráðh. að hlutafjáreign ríkissjóðs verði aukin í 20% af hlutafé Flugleiða. Svörin í þessu efni voru skýr og ákveðin hjá hæstv. ráðh. Hann svaraði á þá leið, að þessari spurningu væri einungis hægt að svara játandi. Það er áform ríkisstj. og vilji að hlutafé ríkisins aukist upp í þessa hlutfallstölu, sagði hæstv. ráðh. Þetta svár er skýrt. Stefna ríkisstj. er að auka hlutdeild ríkisins í rekstri Flugleiða. Þá vitum við það. En má þá spyrja í framhaldi af þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh.: Á það líka að vera stefna ríkisstj. til að leysa rekstrarvanda annarra fyrirtækja að fara þá leið að láta ríkið verða aðila að þeim rekstri? Það væri fróðlegt að heyra eitthvað um það.

Ég hef hér aðeins vikið að stærstu atriðunum sem ástæða var til að ræða eftir ræðu hæstv. fjmrh., en ég skal ekki fara fleiri orðum um ræðu hæstv. ráðh.

Ég vík þá að ræðu hv. 11. þm. Reykv., þætti Ólafs Ragnars Grímssonar í þessu máli. Mér virtist hann verða óður og uppvægur strax þegar hann fór að tala um þetta mál hér í hv. Ed. Að vísu er mér sagt að það hafi ekkert jafnast á við það hvernig hann lét hinum megin við þilið.

Það segja mér þeir sem héldu út að hlusta á það. En samt sem áður og þó að hv. 11. þm. Reykv. geri sér grein fyrir því, að við í þessari hv. d. gerum meiri kröfur til manna en annars staðar í þinginu, þá féll ræða hans langt undir það sem við erum vanir í þessari hv. d. Það var þannig, að hv. þm. naumast ræddi beint í hinni löngu ræðu sinni um ákvæði frv. sjálfs. Hann ræddi um önnum mál, en að sjálfsögðu skyld mál, það skal tekið fram. Þegar frv. er til 1. umr. er það ætlun okkar að ræða fyrst og fremst frv. sjálft. En hv. 11. þm. Reykv. gerði það ekki, naumast vék að frv. Miklum hluta eða jafnvel meginhluta ræðu sinnar varði hann til þess að lesa upp fimm eða sex þingræður sem haldnar voru árið 1975. Svo lagði hv. þm. út af þessum ræðum eftir því sem honum þótti henta og eftir þeim aðferðum sem hann tíðkar í því efni.

Hv. m. var fjölorður um stjórn og stjórnendur Flugleiða. Ég ætla ekki að fara að ræða þau mál hér, en ég bendi einungis á að eftir því sem hv. þm. talaði ætti ekki að vera að finna heila brú í stjórn Flugleiða. Hann benti á ekkert atriði sem var jákvætt. Það var allt svo neikvætt, að eftir hans skilningi og orðan var stjórn þessa fyrirtækis, sem við erum að ræða hér um og hæstv. ríkisstj. leggur frv. um að aðstoða, alls óhæf, að því er virtist í alla staði. Og þegar hv. þm. hamrar á þessu og ýmsu öðru í þessum dúr er ekki nema von að spyrja, hvort það sé þá að mati þessa stuðningsmanns hæstv. ríkisstj. nokkurt vit í því að leggja fram það frv. sem við hér ræðum. Það kom fram í ræðu hv. þm. að það mætti ætla að það væri tæpast eða alls ekki.

Hv. þm. segir á einum stað í ræðu sinni að hann spyrji að því, hvort það sé nú áreiðanlega grundvöllur til þess að byggja jafnalvarlegar fjármagnsráðstafanir á og hér er farið fram á. Hann segir enn fremur að það megi færa að því gild rök að aðgerðir stjórnenda Flugleiða á undanförnum vikum og mánuðum hafi verið þess eðlis að það sé e.t.v. vonlaust verk að endurreisa Atlantshafsflugið.

Hv. þm. segir margt annað í þessa veru, og ég er ekki að tíunda þetta vegna þess að ég telji að það sé ekki rétt að benda á erfiðleika sem hér er við að glíma, en ég held að við verðum að taka á þessu máli á þann veg, að það sé ekki fyrir fram vonlaust. Ég skil hæstv. ríkisstj. þannig, að hún telji að svo sé ekki. Annars hefði hún naumast borið fram það frv. sem við hér fjöllum um.

Hv. 11. þm. Reykv. minnti á það í ræðu sinni, að hann væri formaður fjh.- og viðskn. sem á að taka þetta frv. til meðferðar, og hann sagði eitthvað á þá leið: Ég, Ólafur Ragnar Grímsson, — (ÓRG: Nei ég sagði það ekki, bara: ég.) en það þýðir Ólafur Ragnar Grímsson, — er formaður í fjh.- og viðskn. og ég ætla að sjá um að n. fái allar þær upplýsingar sem nauðsynlegt er. Og ef n. fær þær ekki verður frv. ekki afgreitt. (ÓRG: Það sagði ég ekki. Þm. skal fara rétt með ef hann á annað borð er að lesa það upp.) Já, þm. hefur lesið ræðuna, en það er ekkert vit í þeim kafla ræðunnar sem hér er um að ræða ef það er ekki þetta sem þm. meinar. Það væri gott ef hann gæti gert grein fyrir því, hvaða skýringu á að leggja í þetta. Ég er með fyrir framan mig Dagblaðið frá í gær. Þeir virðast hafa skilið hv. þm: Ólaf Ragnar Grímsson nákvæmlega eins og ég og raunar ýmsir aðrir sem á hlýddu.

Það er eðlilegt að n., hvort sem það er fjh.- og viðskn. og hvort sem Ólafur Ragnar Grímsson er þar formaður eða ekki, óski eftir upplýsingum. Það er líka sjálfsagt að n. setji frest um hvenær upplýsingar skuli koma ef málið er aðkallandi. Eftir því sem það er meira aðkallandi er eðlilegt að sá frestur sé skemmri. En mál á að koma fyrir þingdeild þó það fáist ekki allar upplýsingar sem n. biður um, vegna þess að ekkert svar við fsp. er svar í sjálfu sér og það er ekki nefndarinnar að taka ákvörðun um að þingið skuli ekki fá málið til meðferðar fyrr en allar þær upplýsingar eru komnar fram sem hún kann að telja eðlilegt að komi fram. Með þessum orðum er ég ekki að gera því skóna að Flugleiðir séu á þeim buxunum að vilja ekki gefa upplýsingar sem kann að vera beðið um.

Ég vil að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson geri sér grein fyrir því, að þó að hann sé formaður einnar þingnefndar getur hann ekki gert sig að neinum litlum Stalín í þessu þjóðþingi. Slíkt þekkist ekki, hvorki í þessu þingi né nokkru þingi fyrir vestan járntjald. (ÓRG: Hvað á hv. þm. með að stela þessu orðatiltæki?) Mér þykir gott að heyra ef hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er farinn að virða svo eignarréttinn að hann telji sig eiga svo mikið í Stalín að ekki megi nefna hann. Þá er ágætt að vita það. (ÓRG: Ég á dálítið í þm.) Í sambandi við formenn þingnefnda: Ef ég talaði á sama veg og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mundi ég segja núna: Ég er formaður í félmn. þessarar hv. d. Þegar kemur stjfrv. fyrir félmn., stjfrv. eins og frv. sem við erum hér að ræða um, ætla ég sem formaður n. að biðja um rækilegar upplýsingar og linna ekki látum fyrr en ég er búinn að fá þær. (Gripið fram í: Hvaða upplýsingar?) Ef þessi aðferð væri tekin upp væri mikil — ja, ég vil segja: hætta á ferðum fyrir þingræði okkar og það væri algjört brot á þeirri hefð á þingræðisreglum sem við fylgjum.

En ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég sé hræddur um að hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni takist að leika nokkurn Stalín — ég leyfi mér að nefna Stalín — í fjh.- og viðskn. Þar eru fleiri menn. Ég á að vísu ekki sæti þar, en ég minni á að samkomulag varð um það í Sjálfstfl., þegar við bárum fram lista til kjörs í fjh.- og viðskn, að ég færi út af þeim lista og hæstv. forsrh. kæmi í staðinn. Nú kemur mér ekki til hugar fyrr en ég þreifa á að hv. 11. þm. Reykv. fái forsrh. í slík vinnubrögð sem hann er að ýja að í þessum umr. Mér kemur ekki heldur til hugar að Davíð Aðalsteinsson, hv. 3. þm. Vesturl., sem flutti í fyrradag yfirvegaða, hóflega og skynsamlega ræðu um þetta mál, fáist til slíks. — Ég held að Ólafur Ragnar Grímsson geti alveg látið það vera að minna sérstaklega á stöðu sína sem formanns þeirrar n. sem hér er um að ræða. En að hv. þm. skuli gera það með þessum hætti getur bent til þess, hver er þó að tefja málið, ef um óeðlilegan drátt verður að ræða á afgreiðslu þess úr fjh.og viðskn.

Það mætti nefna ýmis dæmi um málflutning hv. 11. þm. Reykv. Dæmi: Þegar ég í ræðu minni legg áherslu á að deildin þurfi að fá upplýsingar um hvers konar skilyrði verði sett samkv. 5. gr. frv. fyrir aðstoð við Flugleiðir, hvað segir hv. þm. þá? Þorv. Garðar vill engin skilyrði. Þetta þýðir það á hans máli ef spurt er um hver skilyrðin eru. Svo leggur hv. þm. auðvitað út af þessu. — Hv. þm. lagði mikla áherslu á að hann væri verjandi einkaframtaksins og hinnar frjálsu samkeppni, en sjálfstæðismenn og Morgunblaðið væru þjóðnýtingarmenn. Þannig er hægt að halda áfram, en ég ætla ekki að þreyta hv. þm. með því að eltast við fullyrðingar hv. 11. þm. Reykv. og allan þann lopa sem hann spinnur út af hverri slíkra fullyrðinga.

Ég get þó ekki látið ógert að minna á að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson leggur áherslu á að í ræðu minni í gær hafi loksins komið fram það sem alltaf hafi verið ætlun Sjálfstfl., en enginn haft kjark til að upplýsa fyrr en ég, að Sjálfstfl. ætli að sóa fjármagni ríkisins til aðstoðar Flugleiðum og að almenningur í landinu, eins og þm. sagði, yrði látinn borga brúsann.

Þetta er einfaldlega ekki rétt. Þetta er einfaldlega ekki sannleikanum samkvæmt. Þetta er algjör hugarburður hv. þm. Í lok ræðu minnar dró ég saman hvað væru aðalatriði í því sem ég hefði lagt áherslu á. Þar segir, — og það er eini staðurinn sem ég kem beinlínis inn á þessi efni, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið:

„Ég vil, áður en ég lýk máli mínu taka það skýrt fram, að ég er algjörlega sammála hæstv. ríkisstj. um að það beri að gera allt sem fært þykir til aðstoðar Flugleiðum, svo að þetta umrædda flug, Ameríkuflugið, leggist ekki niður. Ég skil það mjög vel, að í þessu efni þarf að hyggja að ýmsu, og deili ekki á slíkt, en ég hef hér með orðum mínum áður í raun og veru fundið að því, að ríkisstj. fari sér of hægt í þessu máli, og þarf ég ekki að endurtaka það sem ég hef áður sagt í þeim efnum.“

Þetta, sem hv. þm. eignar mér um stefnu Sjálfstfl. og að ég hafi sagt það í ræðu minni í gær, er ekki einungis staðlausar fullyrðingar, heldur vill svo til að þingflokkur Sjálfstfl. gerði samþykkt um þessi mál 17. sept. s.l. sem birt var í öllum fjölmiðlum þá strax. Maður eins og Ólafur Ragnar Grímsson veit auðvitað um þetta eins og margt annað sem viðkemur Flugleiðamálinu. (Gripið fram í. — ÓRG: Ætlar þm. ekki að svara spurningunni?) Ég veit ekki hvort hv. þm. Karl Steinar Guðnason veit nákvæmlega hvað margir eru á fundum í hvort sinn sem atkvgr. fer fram á fundum Alþfl. Ég játa þó að það er auðveldara en í jafnstórum og fjölmennum flokki og Sjálfstfl., sem er miklu stærri og fjölmennari flokkur. — En þetta er stefna þingflokks sjálfstæðismanna. Nú ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að fá að lesa þetta upp. Þessi samþykkt er á þessa leið:

„Þingflokkur sjálfstæðismanna telur einsýnt, að stjórnvöld geri ýtrustu tilraunir til þess að tryggja flugsamgöngur fyrir Norður-Atlantshafið, og lýsir sig reiðubúinn til samstarfs í þeim efnum, enda sé ekki stefnt í ríkisrekstur flugs og gagnlausar fjárskuldbindingar skattgreiðenda. Þingflokkurinn vítir vinnubrögð fulltrúa Alþb. og telur að þau hafi valdið Flugleiðum hf. miklu tjóni, stefnt í hættu atvinnu fjölda fólks, sem að flugmálum vinnur, og skaðað þjóðarhagsmuni.“

Herra forseti. Ég held að ég sé búinn að koma hér inn á nógu mörg atriði í ræðu hv. 11. þm. Reykv. til að gefa nokkra mynd af því, hvernig málflutningur hans er. Ég ætla ekki að elta ólar við fleiri atriði sem hv. þm. hefur verið að fjölyrða um, en ég efast ekki um að hv. þdm. hafa séð í gegnum þann málflutning. Sannleikurinn er sá, að þetta mál, sem við nú ræðum, er svo stórt og mikið mál að við verðum að leitast við að taka á því jákvætt og viðhafa ábyrga málsmeðferð. Ég held að það sé enginn í raun og veru sem er ekki ljóst hve þýðingarmikið það vandamál er sem við erum hér að fást við.

Þingflokkur Sjálfstfl. hefur lýst sig reiðubúinn til samstarfs við ríkisstj. í þessum efnum. Þingflokkurinn vill gera allt, sem í hans valdi stendur, sem kann að geta leitt til jákvæðrar niðurstöðu. Málið er svo brýnt og aðkallandi að það verður að leggja sérstaka áherslu á að flýta því. Í raun og veru verður að hafa þau vinnubrögð að það sé gengið hreint til verks í því sem við erum að fást við.

Það verður að gera það sem fært þykir til að tryggja flugsamgöngur yfir Norður-Atlantshafið og efna þó ekki til gagnslausra fjárskuldbindinga í því sambandi og ekki að stefna í ríkisrekstur í flugmálum landsins.