20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

1. mál, fjárlög 1981

Albert Guðmundsson. Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði í þessum hv. ræðustól við framsögu fyrir þessum till. sem nú er verið að fella, að mér skilst, að ég tel það hreint siðleysi af þeim þjóðkjörnu fulltrúum fólksins á hv. Alþingi Íslendinga sem koma sér saman um fjárframlög til eigin mátgagna, hvort sem um er að ræða beina eða óbeina styrki. Stjórnmálaflokkarnir skammta sér og sínum málgögnum samtals um 400 millj. af fjárlögum að þessu sinni:

170 millj. í beina styrki, 130 millj. í óbeina styrki með kaupum á dagblöðum og tæpar 77 millj. til starfsemi þingflokkanna. Ég tel að hér sé rangt að staðið og dagblöðin flest séu þar með nokkurs konar ríkisrekin fyrirtæki, að hluta a.m.k., sem er hættulegt sjálfstæði þeirra og frelsi. Ég segi því já við þessari tillögu.