29.10.1980
Efri deild: 7. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp af því að hv. 11. þm. Reykv. spurði mig beinnar spurningar. (Gripið fram í.) Já, kannske tveggja. Hann gaf mér líka mörg fleiri tilefni til þess að ræða þetta mál, en ég sé ekki ástæðu til þess.

Það var margt skrýtið sem fram kom í ræðu hv. þm. Hann vildi í umr. um þetta frv. helst halda sér við umr. sem fram fóru í Sþ. í gær. En það er venja okkar að þó að umr. séu annars staðar um skyld mál höldum við okkur við þær umr. sem við stöndum í. Það hef ég gert.

Hv. þm. var að spyrja hvers vegna sjálfstæðismenn hefðu ekki verið við umr. í Sþ. í gær. Ég skal ekki fullyrða um það. Ég hygg að það hafi verið fleiri en sjálfstæðismenn sem létu sig vanta þar. Ég var þarna nokkuð af fundartímanum og ég bað tvo þm. að fylgjast með og láta mig vita ef eitthvað sérstaklega merkilegt kæmi fram, t.d. í ræðu hv. 11. þm. Reykv., en ég hef ekki heyrt að það hafi neitt sérstakt komið þar fram sem við vorum ekki búnir að heyra áður.

Hv. 11. þm. Reykv. spyr okkur sjálfstæðismenn eða mig að því, hvort við séum samþykkir því, sem fram hafi komið hjá talsmanni Sjálfstfl. í Sþ. í gær, að því er mér skilst, að það hefði farið betur á því að frv., sem við ræðum hér, hefði verið flutt í Nd. Ég vil segja að það er mín skoðun, að alltaf sé vel ráðið þegar ákveðið er að flytja mál fyrst í Ed. Þetta mál breytir ekki þeirri skoðun sem ég hef lengi haft. Ég er að vona að það hljótist enginn vandi af því og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem mikið reynir á í þessu efni, verði þrátt fyrir allt vanda sínum vaxinn, — ég vona það, — og að hann taki tillit til þess að hann er staddur í Ed., en ekki á einhverjum öðrum stað, þegar hann tekur á þessu máli.

Mér virtist hv. þm. vera eitthvað sár út af því, að ég hefði gert lítið úr ræðumennsku hans, en það var að heyra á honum að hann hefði marga góða kosti í þeim efnum, andagift og fleira. Ég skal ekki mótmæla því, og það er ágætt að hv. þm. taki þetta fram. En ég ætla fyrir mitt leyti að láta aðra þm. dæma um hæfileika mína í þessu efni og ekki kveða upp neinn dóm yfir sjálfum mér, eins og hv. þm.