20.12.1980
Sameinað þing: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1870 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

1. mál, fjárlög 1981

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Á 19. öld var kosningarréttur bundinn við það skilyrði að vera eignamaður. Íslendingar, sem ekki voru eignamenn, höfðu ekki kosningarrétt. Það var nauðsynlegur þáttur í lýðræðisþróuninni í landinu að viðurkenna að allir menn án tillits til eigna væru jafnréttháir til þátttöku í stjórnmálum. Sú till., sem hér er flutt, er tilraun fjármagnseigenda í landinu til að reyna að snúa þessari lýðræðisþróun stjórnmálakerfisins við og binda yfirráðin yfir fjölmiðlunum við þá sem ráða yfir auglýsingaákvörðunum fyrirtækjanna í landinu. Það vita allir, að það er ekkert blað á Íslandi sem ber sig af áskriftartekjum einum. Það er auglýsingaráðstöfunin sem ræður því hvaða blöð bera sig og hvaða blöð bera sig ekki. Þessi tillaga felur það í sér, að heildverslun H. Ben. & Co., að Hekla hf. og Heildverslun Alberts Guðmundssonar geti ráðið skoðanamynduninni í landinu. Þess vegna segi ég nei.