26.01.1981
Sameinað þing: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1887 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Forsrh. hélt stefnuræðu ríkisstjórnarinnar 23. okt. í haust og þar sagði hann um iðnaðinn:

„Einstakar greinar iðnaðar hafa átt í vök að verjast vegna harðnandi samkeppni við innfluttar vörur í kjölfar tollalækkana, svo sem sælgætisiðnaður og húsgagnaiðnaður. Til að bregðast við þessu og auka svigrúm til aðlögunar var settur tímabundinn tollur á innflutt sælgæti og hafið þróunarátak í greininni“. Síðan segir í ræðunni: „Að margháttuðum endurbótum er nú unnið með samvinnu fyrirtækja og samtaka iðnaðarins og stuðningi stjórnvalda og þjónustustofnana iðnaðarins. Markmiðið er að styrkja stöðu iðnaðarins á heimamarkaði og í útflutningi, auka framleiðni og afköst.“

Langur tími er ekki liðinn síðan þessi stefnuræða var flutt og þessi stefna mörkuð, en í framhaldi af henni er gripið til þess að leggja á þá skatta, sem hér hafa verið gerðir að umræðuefni, og virða að engu þær aðvaranir sem koma frá fólki í þessari iðngrein og iðnrekendum, og jafnvel enn í dag er dregið í efa hvort þetta ástand sé alvarlegt eða ekki.

Hæstv. forsrh. talaði um samdrátt sem haldið væri fram, en aðrir drægju í efa. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hann dragi í efa, að samdráttur sé í þessum iðnaði, eftir viðtöl og yfirlýsingar forustumanna, og framámanna í þessum iðnaði. Telur hann að forustumenn félags verksmiðjufólks, Iðju, séu að tala gegn betri vitund? Álítur hann að forstjóri Vífilfells sé að gera sér leik að því að segja starfsfólki upp? Ég held að það sé ekki dregið í efa að búið sé að segja starfsfólki upp. Jafnvel þó Morgunblaðið segi frá því mun það vera satt. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að gera sér ljóst að hér er um alvarleg atriði að ræða. Það er verið að stefna til samdráttar í þjóðfélaginu, þvert ofan í stefnuræðu forsrh. og ríkisstjórnarinnar.

Þetta er aðeins lítið dæmi af mörgum sem hægt er að taka. Það er aðeins verið að gera þetta að umræðuefni, en hitt er miklu stærra. Svo eru bara önugheit hjá ríkisstj. Það er kannske ekki furða. Hún er sæl í þeirri trú að hún hafi gert stórt átak á gamlársdag með útgáfu brbl. Hún var mállaus og heyrnarlaus allan desembermánuð, en rankaði við sér á gamlársdag og gaf út brbl. sem snerta ekki nema lítinn hluta af því sem þarf að gera. En það er ekki von að ríkisstj. eins og þessi telji sig þurfa að gera neitt meira og vitna ég nú í aðalstuðningsblöð hennar. — Það er ekki rétt hjá Pétri Sigurðssyni að telja Þjóðviljann á undan Dagblaðinu. Dagblaðið er aðalstuðningsblað þessarar ríkisstj. Þjóðviljinn kemur nr. tvö og Tíminn þrjú. (Gripið fram í.)

Þetta blað, Dagblaðið, viðhefur nú skoðanakannanir og leggur spurningar fyrir fólk, og þær skoðanakannanir leiða í ljós að ríkisstj. er að stórauka fylgi sitt.

Fólkið er svo ánægt með hana að það keppist við að lýsa því yfir hvað ríkisstj. sé dugleg, hún hafi loksins gefið út brbl. og nú standi þjóðin að baki ríkisstj. sinni. Og forsrh. verður auðvitað óskaplega hrærður, eins og gamlir menn verða oft við að fá einstakt hól frá almenningi í landinu, og segir að þetta sé styrkur í starfi, styrkur til þess að gera ekkert meira því að það gangi allt vel, það sé búið að gera svo mikið og þeir séu hver um annan þveran ánægðir, nema helst framsóknarmennirnir. Þeir eru að fitja upp á nefið öðru hvoru og þá aðallega viðskrh. Formaður flokksins reið aftur á móti út í ána á einhverjum klár, sem ég veit ekki hvað heitir, og hann er staddur í miðri ánni og væri nú nær að reyna að leita til baka, ef klárinn skyldi vilja fara til sama lands, en bíða lengi úti í miðri ánni, a.m.k. ekki í mörg ár. (SighB: Skyldi hann ekki fara á skíðum?). Já, ef ís er á ánni. Þá mætti nú bjarga sér yfir á skíðunum.

Er þetta ekki að verða eins og var hjá gamla manninum í Rússlandi honum Stalín? Hann var afskaplega vinsæll í sínu kjördæmi og var að jafnaði kosinn með annaðhvort 99.9% atkv. eða 100%. Ég held ég verði að gleðja hæstv: forsrh. með því, að ég held að ef hann láti Dagblaðið sitt viðhafa 4–5 skoðanakannanir til viðbótar verði ríkisstj. jafnvinsæl og gamli Stalín. En vinsældir hans dóu út fljótlega eftir dauða hans eins og menn muna.

En þetta mál er ekki til að hafa í flimtingum. Það er réttara hjá ríkisstj. að viðurkenna að hún fór villu vegar fyrir jólin með því að neyða stjórnarþm. til að samþykkja þetta vörugjaldsfrv. sitt.

Henni væri nær og hún yrði sér ekkert til minnkunar ef hún viðurkenndi, að hún hefði gert rangt með því að knýja þetta frv. fram, og afnæmi þessi gjöld.

En eitt finnst mér leiðinlegt að heyra. Í því felast þungar ákúrur á þm. Reykn. þegar hæstv. forsrh. sagði að það hefði ekkert heyrst frá þm. Reykjaneskjördæmis um það alvarlega ástand sem þar er. Nú ætla ég ekki að taka undir þær fréttir sem hafa komið um stórfelldan landflótta af Suðurnesjum. Það er auðvitað til og því verður ekki á móti mælt að eitthvað af fólki er að fara þaðan úr landi.

En fólk hefur farið úr landi á mörgum undanförnum árum og öllum árum, og ég hygg að það sé gert fullmikið úr þessu atriði. En ástandið er alvarlegt, um það deilir enginn maður sem eitthvað kynnir sér atvinnulíf, og mér finnst vera nærri höggvið þm. stjórnarliðsins í Reykjaneskjördæmi þegar gefið er í skyn að þeir hafi ekki komið boðum til ráðh. í ríkisstj. sem þeir skilja, og gert þeim skiljanlegt að þar væri hættulegt og alvarlegt ástand. Það getur vel verið að ríkisstj. sé upptekin af því að lesa skoðanakannanir Dagblaðsins og heyri hvorki né sjái hvað er að gerast í kringum hana. Þá er eins gott fyrir þá þm., sem styðja þessa ríkisstj., að vekja hana öðru hverju. Þeir þm., sem vita um þennan vanda, ættu að láta ríkisstj. vita af því, fyrst þeir fylgjast ekki með neinu sjálfir, þessir menn í ríkisstj. Það er ekki von að ríkisstj. hlusti mikið á þm. stjórnarandstöðunnar. Hún hefur ekki haft mikið fyrir því að taka á móti varnaðarorðum sem komið hafa frá stjórnarandstöðunni.

Ég hygg að umr. sem þessar séu gagnlegar fyrir ríkisstj. sem er svo upptekin af vinsældum sínum að hún sér ekki og heyrir ekki það sem er að gerast í kringum hana í þessu landi.

Karl Steinar Guðnason: Herra forseti. Böl atvinnuleysis er meira en nokkurt annað böl er mætir fullfrísku fólki. Nú er ljóst að atvinnuleysisvofan er farin á kreik víðs vegar um land. Fólk kvartar yfir öryggisleysi og atvinnumissi. Fyrir norðan standa iðnfyrirtækin á brauðfótum, og mér er tjáð af formanni verkalýðsfélagsins Einingar að atvinnuöryggið sé að bresta, reyndar séu um 120 manns atvinnulausir þar samkv. skráningu. Hér í Reykjavík heyrast raddir fólks er óttast atvinnumissi, og hafa fjölmargir nú þegar uppsagnarbréf í höndum. Einkum er hér um að ræða fólk er starfar í gosdrykkjaverksmiðjum og sælgætisiðnaði.

Fyrri ræðumenn hafa vitnað í umr. hér á Alþingi er ríkisstj. margfaldaði vörugjald. Þá sendi iðnverkafólk frá sér ályktun og undirskriftir fóru fram og sendu hundruð manna þær undirskriftir hingað til Alþingis. Ráðamenn tóku þessu fólki fálega. Þm. Alþb. hæddist að þessu fólki og lítilsvirti það með afar ósmekklegum ummælum. Við Alþfl.-menn lögðumst gegn hækkun vörugjaldsins og lýstum áhyggjum okkar af atvinnuöryggi iðnverkafólks. Í ljós kom að við höfðum greinilega rétt fyrir okkur, því að nú sér þetta fólk atvinnuleysið eitt fram undan.

Á Suðurnesjum er ástandið mjög alvarlegt. Þar er á annað hundrað atvinnulausra. Reyndar hefur atvinnuástand á Suðurnesjum farið síversnandi, sem best sést á því að á s.l. ári var 30% meira atvinnuleysi í Keflavík en árið áður. Einkum bitnar atvinnuleysið á kvenfólki og hefur verkakvennafélagið einmitt sent forsrh. ályktun um atvinnuástandið. Það er því rangt hjá forsrh. að bréfaskipti hafi ekki farið fram. Reyndar furða ég mig á ummælum forsrh. áðan. Ætla má að hann hafi hugsunargang þann er tíðkaðist á dögum Jóns Hreggviðssonar þegar ætíð þurfti að framvísa bréfum, jafnvel í smæstu tilvikum. Halda mætti að félmrn. fylgdist með atvinnuástandinu. Reyndar er því skylt að gera það. Eða er það svo að ríkisstj. komi þetta ekkert við?

Í málefnasamningi ríkisstj. er sérstaklega vikið að Suðurnesjum og rætt um að þar skuli fara fram stórfelld uppbygging atvinnulífsins. En svo ber við, að einmitt þessi setning er undir kaflanum um utanríkismál. Okkur finnst það mjög undarlegt, sem þar syðra búum, hvers vegna fiskvinnslan, sjávarútvegurinn og öll sú starfsemi skuli tilheyra utanríkismálum. Eða er það svo sem ýjað var að áðan, að úrbætur í þessum efnum tefjist vegna þess að ekki er samstaða um þær í ríkisstj.? Reyndar segir einmitt í kaflanum um utanríkismál að ekki skuli hefja neinar framkvæmdir t.d. á Keflavíkurflugvelli ef ekki náist um það alger samstaða í ríkisstj. Spurningin er hvort þetta eigi einnig við um annað atvinnulíf á Suðurnesjum. Ætla mætti það, vegna þess að þessi setning er einmitt í kafla um utanríkismál.

Mér dettur ekki í hug að ætla að það sé ásetningur ríkisvaldsins að skapa atvinnuleysi víðá um byggðir landsins, en ég hef áhyggjur af þeirri stefnu sem ríkisstj. fylgir. Það er greinilegt að sú stefna er að leiða til þess, að atvinnuöryggið brestur. Ég skora á forsrh. og aðra ráðh. að sinna þessum málum betur, skoða sinn gang og reyna að koma á úrbótum.

Það var nokkuð vikið að brottflutningi fólks úr landi. Það er staðreynd, sem menn eiga eftir að sjá betur, að fólksflótti frá landinu er sífellt að aukast, og það sem verra er: nú er svo komið að fiskvinnslufólk er að leita hófanna um atvinnutækifæri annars staðar. Reyndar er það svo, að auglýst hefur verið í blöðum eftir vönu fiskvinnslufólki og eru auglýsendur frá Vesturheimi: Kanada og Bandaríkjunum. Það er mjög miður ef svo þarf að fara að þetta fólk flytjist í burt. En engu að síður er það staðreynd að vonleysið hrjáir svo fólkið að það sér ekki aðra undankomuleið.

Ég skora enn einu sinni á ríkisvaldið eða forsrh. að taka upp umræður um þetta í ríkisstj. og beita sér fyrir úrræðum eða umbótum hið fyrsta.