29.10.1980
Neðri deild: 7. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á þeim tímum, þegar ríktu hvað mest boð, bönn og hömlur á landi hér, reis upp ýmis atvinnustarfsemi sem út af fyrir sig hefði ekki getað þróast við eðlilegar aðstæður, þó svo að til allrar hamingju hafi sum sú starfsemi tekið þeim framförum á tímabilinu að hún sé nú orðin samkeppnishæf. Hins vegar er alveg ljóst að margt ef þeirri starfsemi, sem reis upp við þær aðstæður, átti sér raunar aldrei viðreisnarvon, var af þeirri tegund, að það var raunar útilokað að ímynda sér eða gera ráð fyrir að slík starfsemi gæti staðið undir sæmilegum launagreiðslum til þess fólks sem við þá starfsemi vinnur, miðað við staðhætti hér á Íslandi. Þess vegna var það vitað, þegar við gerðumst aðilar að EFTA á sínum tíma, að ganga yrði úr skugga um hvaða framleiðslugreinar af þeim, sem risið höfðu upp í skjóli verndartolla og hafta, ættu raunverulega framtíð fyrir sér hár á landi. Menn urðu að horfast í augu við þær staðreyndir og gera ráð fyrir að lítil þjóð eins og Íslendingar gæti ekki rekið jafnfjölþætta atvinnustarfsemi með jafnmiklum árangri og fjölmennar þjóðir geta.

Það verður ekki annað sagt en að ýmsir aðilar hafi fengið allgóðan tíma til að aðlaga sig þeim breyttu forsendum sem fylgja aðild landsins að EFTA. Menn geta síðan deilt um hvernig sá tími hefur verið notaður, hvort hann var notaður vel eða illa. En menn geta alls ekki gengið út frá því sem gefnu, að atvinnustarfsemi af öllu því tagi, sem reis upp hér á landi í skjóli hafta og banna, hljóti að hafa framtíð fyrir sér um aldur og ævi, hvernig svo sem málum er háttað í sambandi við viðskipti landsins við önnur lönd. — Ég tek sérstaklega fram, að hér á ég ekki endilega við framleiðslu á sælgæti, heldur ýmsa aðra starfsemi. En þó getur framleiðsla á sælgæti og kexi einnig komið hér til álita.

Ég hefði t.d. mikinn áhuga á því að fá að sjá hvaða laun þessi starfsemi getur greitt í landinu. Það er að sjálfsögðu ekki nægilegt að horfa eingöngu á að þessi framleiðslustarfsemi geti skapað svo og svo mörg atvinnutækifæri. Menn verða líka að spyrja sig að því, hvaða laun þessi atvinnustarfsemi geti boðið þeim sem starfsemina stunda. Eru þau laun samkeppnisfær við aðrar launagreiðslur á hinum almenna vinnumarkaði? Eru það laun sem gera það að verkum að menn telja mikla von á þessari starfsemi að byggja? Eru þetta laun sem við getum verið sáttir við, Íslendingar? Það þjónar litlum tilgangi að leggja á þjóðina hvers konar skatta og skyldur til að standa undir atvinnurekstri sem ekki getur greitt nema allra lægstu laun í þessu þjóðfélagi. Þess vegna hefði ég gaman af því að fá að sjá — og fæ það væntanlega fram í þeirri n. sem um þetta frv. á að fjalla — hvernig framleiðsla á sælgæti og kexi, miðað við þá miklu verndun sem ætlast er til að sú framleiðslustarfsemi njóti, stendur sig í launagreiðslum til fólksins sem við hana starfar.

Það gefur auga leið að mínu viti, að við eigum ekki aðeins að keppa að því að atvinnulíf hér geti orðið sem fjölbreyttast, heldur einnig að sú atvinnustarfsemi, sem rekin er í landinu, geti borgað mannsæmandi laun. Það er engum til góðs að halda lífi í framleiðslustarfsemi sem getur ekki boðið launþegum, sem við starfsemina hafa atvinnu, önnur launakjör en þau sem lægst gerast í þessu þjóðfélagi. Ef þarf að leggja á menn skatta og skyldur, íþyngja öllum almenningi til að halda slíkri atvinnustarfsemi lifandi, er spurning hvort þeim peningum sé ekki betur varið og það sé ekki eðlilegra að styrkja starfsemi sem getur boðið þegnunum mannsæmandi laun og lífskjör.

Sjálfsagt liggja þessar upplýsingar fyrir, og ef svo er ætti ekki að vera vandasamt að fá þær fram. En ég legg enn og aftur áherslu á að þegar við veljum, hvaða atvinnustarfsemi við viljum styðja í landi okkar, eigum við að ganga út frá því fyrst og síðast, hvaða launakjör slík starfsemi getur boðið fólkinu sem við hana vinnur. Það nær ekki nokkurri átt og er fráleit stefna að ætla að leggja þungar byrðar á þjóðina í formi alls konar skatta og skyldna til að halda lífinu í kannske takmarkaðri starfsemi hét á landi, sem aðeins getur boðið starfsfólki, sem við hann starfar, laun sem eru fyrir neðan það sem sæmilegt er að bjóða fólki í þessu landi. Hér er því ekki aðeins um að ræða verslunarfrelsi, eins og hv. síðasti ræðumaður talaði um, heldur einnig kjör sem viðkomandi atvinnustarfsemi býður.

Þar sem hér er um að ræða sérstakt tímabundið innflutningsgjald, sem á að falla úr gildi eins og í frv. segir að ákveðnum tíma liðnum eða 1. mars 1982, væri ástæða til að fá einhverjar frekari upplýsingar um hvernig ríkisstj. hyggst nota þennan tíma, fram til 1. mars 1982, þegar þessum sérstöku aðgerðum lýkur, til að tryggja að þessi atvinnugrein geti þá staðið á eigin fótum, sem hún telst ekki geta í dag, og til að tryggja að þessi atvinnugrein geti boðið starfsfólki, sem við hana starfar, mannsæmandi laun. Það er allt of mikill misbrestur á ýmsum íslenskum iðnaði sem þróast hefur í skjóli verndar, boða, banna og hafta, að þar starfar mesta láglaunafólkið á öllu landinu, fólkið sem vart hefur til hnífs og skeiðar. Þegar menn huga að því, hvernig eigi að halda lífinu í slíkri atvinnustarfsemi, væri nær að menn hugsuðu um hvernig ætti að bæta launakjör þess fólks sem við þessa starfsgrein vinnur.

Ég hef í öðru lagi áhuga á að fá upplýst frá hæstv. ráðh. — það þarf ekki að koma fram hér í ræðustól, heldur í meðferð þeirrar n. sem við frv. þessu tekur, — hvernig fyrirhugað sé að nota umræddan aðlögunartíma svo að þetta sérstaka tímabundna innflutningsgjald verði fellt niður 1. mars árið 1982, en til þess komi ekki að Alþingi, sem þá situr að störfum, þurfi að framlengja gjaldið enn um sinn, eins og raunin hefur á orðið um fjölmörg tímabundin og sérstök gjöld sem á hafa verið lögð, t.d. hið margumrædda sérstaka og tímabundna vörugjald sem er bæði sérstakt og tímabundið enn og ekki sjáanlegt að sá tími, sem það er bundið við, renni út í nánustu framtíð.

Í þriðja lagi vildi ég svo gjarnan að hugað væri að því, að gjald sem á er lagt samkv. 1. gr. og nemur yfirleitt 40% innflutningsgjaldi, en 32% á einstaka vörutegundir, falli ekki niður frá og með 1. mars 1982, þannig að það standi óbreytt til þess tíma og falli síðan niður þá klukkustund eða þá mínútu er 1. mars árið 1982 rennur upp, heldur falli það úr gildi smátt og smátt eftir því sem á tímann líður. Ég tel að það væri hyggilegra með svona sérstök tímabundin innflutningsgjöld, ef gengið er út frá því að þau eigi bæði að vera sérstök og tímabundin, að þau falli úr gildi í áföngum, en ekki öll í einu lagi á nákvæmlega þeim tíma þegar gildistími væntanlegra laga rennur út. Það er hyggilegra og heppilegra fyrir uppbyggingu þessa iðnaðar að umrædd vernd, því þetta er ekki annað en sérstök vernd, sambærileg við innflutningsbönn eða innflutningshömlur, falli niður í áföngum frekar en verndin standi óbreytt um kannske tveggja ára skeið og falli svo úr gildi öll á einni og sömu nóttu.

Þetta atriði vildi ég láta skoða í hv. fjh.- og viðskn. ásamt þeim tveimur atriðum sem ég áðan nefndi, þ.e. hvernig ríkisstj. hyggst nota umræddan tíma til að gera þessa iðnaðarframleiðslu samkeppnishæfari en hún er í dag, og í síðasta lagi, hvaða launakjör eru boðin í þessum atvinnurekstri og hvernig menn hugsa sér að standa að uppbyggingu þessarar atvinnustarfsemi svo að hún geri ekki Ísland að því varanlega láglaunasvæði sem flokkur hæstv. fjmrh. ræddi í eina tíð um að önnur legund af iðnaðarstarfsemi mundi leiða yfir okkur Íslendinga.