27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

115. mál, Blönduvirkjun

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég ber hér fram fsp. til hæstv. iðnrh. um Blönduvirkjun. Annars vegar er spurt að því, hvenær ákvörðun verði tekin um Blönduvirkjun, og hins vegar, hvenær fyrirhugað sé að hefja framkvæmdir.

Það er alkunna að orkuskortur er í landinu. Það er alkunna að gerðar hafa verið tilraunir til að hægja á framkvæmdum á sviði orkumála þrátt fyrir okurverð á innfluttum orkugjöfum og orkukreppu í heiminum. Stórvirkjanir og stóriðjufyrirtæki eru ekki í undirbúningi, ekki á því stigi að tekin hafi verið ákvörðun um næstu skref. Við vitum að það er unnið að einni stórvirkjun nú, en ekkert hefur verið ákveðið um hvað við skuli taka. Ég held að bæði hér á hinu háa Alþingi og meðal þjóðarinnar allrar séu menn meira og minna sammála um að stórátak verði að gera í virkjunarmálum á næstu árum. Það er ekki vansalaust að ákvörðun skuli ekki hafa verið tekin um næstu skref í þessum efnum.

Fsp. mína bar ég fram fyrir áramót. Fyrst varð að samkomulagi að nokkur dráttur yrði á því að henni yrði svarað. Síðan vannst ekki tími til þess eða voru ekki aðstæður til að fá svör við þessari fsp., en var þó eftir gengið.

Sumir hafa haldið því fram, að heima í héraði væri slíkur ágreiningur um þetta mál að erfitt væri að leysa. Ég er algerlega á annarri skoðun. Það var geysifjölmennur fundur haldinn í Húnavatnssýslu skömmu fyrir áramót og ég hygg að svo til allir, sem þar voru mættir og létu til sín heyra a.m.k., og eins þeir, sem ég talaði við í einkaviðræðum, hafi verið á því að næsta stórvirkjun skyldi vera í Blöndu. Sumir sjá að vísu eftir landi sem þar fer undir vatn, kannske allir sjái eftir því, en mér heyrðist álit manna vera á þann veg að þetta mál yrði að leysa og auðvitað að greiða sanngjarnar bætur þeim sem tjón kynnu að bíða af þessum framkvæmdum. Þá er athyglisvert að á almennum fundi, sem þm. Framsfl. í þessu kjördæmi boðuðu allir til á Blönduósi nýverið, var einróma samþykkt — það var fundur framsóknarmanna — að skora á alla þm. kjördæmisins að beita sér fyrir því að Blanda yrði næst virkjuð.

Það er ekkert launungarmál að 1. þm. þessa kjördæmis, hv. þm. Páll Pétursson, hefur — ég vil ekki segja verið á móti þessari virkjun, en hefur hins vegar talið að það mætti eitthvað bíða að ráðast í hana. Ég hygg að ég fari rétt með það, að hann hafi margsinnis sagt að auðvitað verði Blanda virkjuð þegar þar að komi, en hann hefur lagt á það áherslu að reyna að draga úr þeim náttúruspjöllum, sem óneitanlega verða þarna, eins og hægt er. Ég er honum sammála um að jafnvel þótt virkjunin yrði eitthvað dýrari, eitthvað óhagstæðari, kæmi til álita að minnka það uppstöðulón sem þarna myndast, eða breyta tilhögun með einhverjum hætti. Að því er alveg sjálfsagt að vinna næstu vikur og mánuði ef það gæti auðveldað fulla samstöðu um þetta mikilvæga málefni. Ég efast ekki um að hv. þm. Páll Pétursson muni vilja að því stuðla að slíkar breytingar verði reynt að gera. En jafnvel þótt það tækist ekki og yrði að setja þetta land undir vatn er alveg ófyrirgefanlegt að fresta ákvörðunum í þessu efni. Þess vegna vænti ég þess, að svör hæstv. iðnrh. á eftir verði ákveðin, afdráttarlaus, engin undanskot, engar tilvitnanir í skýrslugerðir, starfshópa og einhvers konar áætlanir um þetta og hitt, sem svífa úti í geimnum og enginn veit hvar á að gera, því að í atvinnumálum Íslendinga er nú vissulega dökkt fram undan og sérstaklega að því er iðnað varðar og stórframkvæmdir á því sviði.

Það má taka fram í sambandi við Blönduvirkjun, að jafnvel þótt ákvörðun verði tekin um hana þarf ekki að upphefja deilur um neina stóriðju í sambandi við hana, vegna þess að orkuna má flytja bæði suður, vestur og austur frá Blönduvirkjun og þarf ekki að efna til stóriðju þess vegna. Engum dyljast raunar mínar skoðanir í því efni. Ég tel að orkufrekan iðnað verði stórlega að efla á Íslandi á næstunni, og það hygg ég að muni vera skoðun mikils meiri hluta þjóðarinnar og áreiðanlega mjög mikils meiri hluta Alþingis.

Það hefði kannske verið eðlilegra að ákveða strax í haust að fá úr því skorið hvort Alþingi vildi ekki sjálft taka þá strax ákvörðun um Blönduvirkjun, alveg burt séð frá því hvað hæstv. ríkisstj, vildi í málinu gera. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að mjög mikill meiri hluti Alþingis mundi samþykkja þetta og ef einhver loðin svör verða nú gefin eða einhver dráttur á enn að verða á þessum málum hlýtur Alþingi auðvitað að taka í taumana, en ég vona að það svar, sem við nú fáum að heyra, gefi ekki tilefni til þess.