27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1902 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

115. mál, Blönduvirkjun

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég svara fsp. frá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni varðandi Blönduvirkjun, en hann spyr: Hvenær verður ákvörðun tekin um Blönduvirkjun og hvenær hefjast framkvæmdir? Þetta er stuttorð fsp. og ég mun ekki svara henni í löngu máli, en á þessa leið:

Í stjórnarsáttmála ríkisstj. er gert ráð fyrir að næsta meiri háttar raforkuvirkjun fyrir landskerfið eftir Hrauneyjafossvirkjun verði utan eldvirkra svæða. Virkjun Blöndu er annar þeirra tveggja kosta sem verið hafa til álita í því sambandi, en hinn er Fljótsdalsvirkjun eystra. Vettvangsrannsóknum og tæknilegum undirbúningi við Blönduvirkjun, eins og hún er talin einna hagkvæmust út frá verkfræðilegum forsendum, er nú svo langt komið að næsta skref væri gerð svonefndrar hönnunaráætlunar.

Eins og kunnugt er hefur um árabil verið ágreiningur í héraði um tilhögun virkjunarinnar, aðallega vegna landnýtingarsjónarmiða, og sá ágreiningur er það vel kunnur hv. þm. að ég þarf ekki að lýsa honum hér né heldur rekja þær ályktanir með og móti sem borist hafa úr héraði, ekki síst upp á síðkastið.

Á s.l. sumri var Rafmagnsveitum ríkisins falið að gegna hlutverki virkjunaraðila og í því sambandi lagði rn. áherslu á að unnið yrði að lausn deilumála varðandi virkjunina sem forgangsverkefni. Sérstakri ráðgjafarnefnd var falið að fylgjast með ýmsum undirbúningi fyrir hönd rn. Rafmagnsveiturnar og ráðgjafarnefndin hófu viðræður við fulltrúa heimamanna um miðjan ágúst s.l. og í framhaldi af því var haldinn umræðu- og kynningarfundur þar nyrðra um virkjunina í byrjun des., en honum hafði þá verið frestað um nokkrar vikur vegna veðurs er hann átti að halda í upphafi. Fyrir þennan fund var tekinn saman kynningarbæklingur um virkjunina og honum dreift fyrir fundinn til íbúa hlutaðeigandi sveitarfélaga. Hliðstæður bæklingur hefur verið gerður um Fljótsdalsvirkjun og mun ég sjá til þess að alþm. fái þessa ritlinga í hendur fljótlega.

Að ósk virkjunaraðila hafa hreppsnefndir þar, er beinna hagsmuna hafa að gæta í tengslum við fyrirhugaða virkjun Blöndu, tilnefnt fulltrúa í viðræðunefnd og er hinn fyrsti fundur þessara aðila fyrirhugaður á morgun, miðvikudaginn 28. jan., á Blönduósi. Rn. telur nauðsynlegt að tryggja sæmilegan frið um þessa stórframkvæmd sem aðrar áður en ákvörðun verður tekin um frekara framhald málsins. Hins vegar telur rn. brýnt að unnt verði að móta stefnu og taka ákvarðanir um næstu framkvæmdir varðandi raforkuöflun fyrir landskerfið í framhaldi af Hrauneyjafossvirkjun í vetur þannig að unnt verði að afla nauðsynlegra heimilda á yfirstandandi þingi í sambandi við næstu skref í raforkuöflunarmálum.