27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

115. mál, Blönduvirkjun

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Fljótsdalsvirkjun er að vísu ekki á dagskrá í þessari umr., en ég hjó eftir því, að hv. 6. þm. Norðurl. e. tók svo til orða að hæstv. iðnrh. — af skiljanlegum ástæðum — mundi bera Fljótsdalsvirkjun meira fyrir brjósti en Blönduvirkjun. Mér leika að vísu landmunir á að vita af hverju hann dregur þá ályktun. Ég þykist hafa fylgst allnáið með þessum málum og get alls ekki gert mér grein fyrir að hæstv. iðnrh. beri Fljótsdalsvirkjun yfirleitt fyrir brjósti. Það verður ekki virkjað í Fljótsdal nema efna til stóriðju og þá við Reyðarfjörð, en því er hæstv. iðnrh. andstæður og hans flokkur.