27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

115. mál, Blönduvirkjun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég átti von á að hæstv. iðnrh. minntist á það í ræðu sinni, hvort hann mundi á ný gefa út fyrirmæli um að ráðist skyldi í Bessastaðaárvirkjun, eins og hann gerði um árið. En hann virðist vera fallinn frá því, ekki veit ég hvers vegna, og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það. Á hinn bóginn upplýsti hæstv. iðnrh. að ríkisstj. væri fallin frá virkjun við Sultartanga og hygðist standa við málefnasamninginn að því leyti. Þóttu mér það út af fyrir sig fróðlegar upplýsingar, sem ég túlka svo að það velti á hv, þm. Páli Péturssyni formanni þingflokks Framsfl., og hans liði, hvort samkomulag næst um Blönduvirkjun, því að hún er náttúrlega miklu hagkvæmari virkjun en virkjun á Austurlandi þar sem fyrir liggur að ríkisstj. mun ekki ráðast í stóriðju.

Í þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. ríkisstj. gaf út í sambandi við efnahagsaðgerðir um áramót, segir svo í 11. lið, með leyfi hæstv. forseta:

„Orkustefnunefnd gerir tillögur um leiðir til að nýta orkulindir landsins á næstu árum, sérstaklega að því er varðar meiri háttar iðnað, sem landsmenn ráða við.“

Þessi ummæli verða ekki túlkuð öðruvísi en þannig, að stóriðja eins og um hana hefur verið rætt er útilokuð. Þessi ríkisstj. hefur m.ö.o. fallið frá þeim stóriðjuhugmyndum sem mest hefur verið rætt um undanfarið.

Ég vil minna á í þessu sambandi að fyrir 1–2 árum hélt Bandalag háskólamanna ráðstefnu hér í Reykjavík þar sem lífskjörin voru til umræðu, og það var einróma álit allra þeirra, sem þar töluðu, að við gætum ekki vænst þess á næstu árum að bæta lífskjör okkar til jafns við það sem er í næstu nágrannalöndum okkar nema nýta okkur orkufrekan iðnað. Með því að ríkisstj. hefur fallið.frá öllum hugmyndum um orkufrekan iðnað er hún um leið að taka ákvörðun um að lífskjör hér skuli til frambúðar vera áfram verri en í næstu nágrannalöndum, bilið muni breikka, Ísland verði láglaunasvæði til frambúðar.