27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1907 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

115. mál, Blönduvirkjun

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Eitt fyrsta verkefni hæstv. iðnrh., þegar hann settist í ráðherrastól haustið 1978, var að rita stjórn Landsvirkjunar bréf með beiðni um að framkvæmdaáætlun Hrauneyjafossvirkjunar yrði endurskoðuð þannig að gangsetning fyrstu vélar frestaðist frá haustinu 1981 til haustsins 1982. Landsvirkjunarstjórn brást mjög hart við þessari beiðni og henni tókst að sannfæra hæstv. iðnrh. um að þessi beiðni hans væri ekki á rökum reist og hún gæti stefnt orkubúskap okkar Íslendinga í stórhættu. Vegna hinna ákveðnu og hörðu viðbragða stjórnar Landsvirkjunar hvarf hæstv. iðnrh. frá þessari beiðni sinni og ósk. En undan því getur hann ekki vikist, að þetta var eitt hans fyrsta verk í embættistíð sem hæstv. iðnrh.

Framsýnin og forsjálnin í orkumálum var ekki meiri en þetta.

Þessi skortur á framsýni og skortur á forsjálni hefur nú leitt til þess, að það liggur engin ákvörðun fyrir um næstu virkjunarkosti hjá landsmönnum. Þegar haft er í huga hversu langan undirbúningstíma þarf til þess að hanna og byggja nýjar stórvirkjanir er tíminn alveg að hlaupa frá okkur. Aðgerðaleysi hæstv. iðnrh. er að setja orkubúskap okkar Íslendinga í stórhættu. Þá á ég ekki við þessi sérstöku áföll, sem yfir okkur hafa dunið nú vegna vatnsbúskaparins, heldur aðgerðaleysi við undirbúning nýrra virkjana. Það er því brýn þörf á að taka nú sem fyrst ákvarðanir um virkjanir. Ég segi virkjanir því að ég held að ef við ætlum að nota orkuna sem grundvöll að áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs í landinu þurfi að taka ákvörðun um fleiri en eina virkjun á þessum vetri. Þess vegna bið ég menn um að taka ekki of stórt upp í sig þegar rætt er um Sultartangavirkjun í þessu sambandi, en það er vafalaust hagkvæmasti virkjunarkosturinn hvað sem staðsetningu líður.