27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

115. mál, Blönduvirkjun

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég vil ekki trúa því að það beri að skilja ummæli hæstv. iðnrh. á þann hátt að ákvörðun hafi verið tekin um það nú þegar að Sultartangavirkjun verði slegið á frest. Rannsóknum er þar lokið og allur undirbúningur kominn á það stig að þar er hægt að hefjast handa fyrirvaralaust.

Ég vil láta það koma hér fram og árétta það sem hv. 6. þm. Reykv. sagði áðan, að það er enginn vafi á að virkjun við Sultartanga væri áreiðanlega ódýrasta framkvæmd í raforkumálum sem hægt er að ráðast í. Ég held að þeir atburðir, sem hafa orðið um þessar mundir og stafa af sérstöku árferði og óvenjulegu hér á Suðurlandi og raforkuskömmtun, eigi líka að sanna okkur að það er mikilsvert að halda áfram virkjunum á því svæði nokkru lengra en nú er komið. Þó ekki væri ráðist í að byggja nema hluta af Sultartangavirkjun eða vatnsmiðlunina sjálfa mundi það um leið tryggja að ekki ætti að þurfa við neinar þær aðstæður, sem við höfum spurnir af í veðurfari, að koma til skömmtunar á rafmagni að nýju eftir að sú vatnsmiðlun væri komin í gagnið. Þetta held ég að væri mjög þarft fyrir ráðamenn að íhuga og íhuga það vel áður en fastráðið er að í Sultartangavirkjun verði ekki ráðist.