27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

115. mál, Blönduvirkjun

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég minni á að Blönduvirkjun gerir ekki miklu meira en að bæta úr núverandi orkuskorti. Ég tel því nauðsynlegt að einnig verði á þessum vetri tekin ákvörðun um Sultartangavirkjun, en undirbúningur undir hana er vel á veg kominn, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á, og þar eru engar deilur um landréttindi. Ég bendi líka á að sú virkjun bætir mjög aðstöðu þeirra virkjana sem fyrir eru á hálendi Suðurlands og hefur því miklu meira gildi en virkjunin ein út af fyrir sig hefði.

Það er alltaf verið að tala um eldvirkni á Suðurlandi og vissulega er hún til, þó ekki í næsta nágrenni Sultartanga eða Sultartangasvæðisins. Þau gos, sem á Suðurlandi hafa orðið nú um langt skeið, hefðu lítil sem engin áhrif haft á virkjun við Sultartanga.