27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

115. mál, Blönduvirkjun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var eitt atriði mjög óljóst í orðaræðu hæstv. iðnrh. áðan og ég óska að fá nánari útlistun hans á því. Þegar hann talaði um að virkjunin á Austurlandi væri með hagkvæmustu virkjunum óháð stóriðju hygg ég að hann hafi átt við kostnað við virkjunarvegg, en ekki hvað kostaði að koma raforkunni til neytenda. Í öllum þeim ræðum, sem ég hef heyrt um þessi mál, m.a. hjá orkumálastjóra, kemur skýrt fram að hagkvæmni Austurlandsvirkjunar sé fyrst og fremst í því fólgin að stóriðja sé tengd þeirri virkjun. Ég óska að heyra nánari útlistun hæstv. iðnrh. á þessu atriði.

Ég vil einnig vekja athygli á því, að það er afskaplega villandi að bera saman virkjunarframkvæmdir frá ári til árs. Bara lítið dæmi: Í Suðurlandskjördæmi stendur til á þessu ári að leggja heitt vatn niður til Eyrarbakka. Það mundi ekki vera óhagkvæmt að láta Stokkseyri fylgja með. (Gripið fram í.) Er það komið inn? Það hefur þá komist inn á s.l. hálfum mánuði eða svo. Það stóð ekki til. Ég heyri að hv. 6. þm. Suðurl. hefur komið þessu máli í gegn ásamt öðrum þm. kjördæmisins. Ég átti fund með stjórn þessarar veitu fyrir hálfum mánuði og þá stóð hún í þeirri meiningu að Stokkseyri mundi ekki fylgja. Það hefur þá gerst síðan og er fagnaðarefni að Stokkseyringar skuli þar fylgja með í kaupi.

Á hinn bóginn fagna ég því líka, ef það er rétt, að iðnrh. ætlar nú að beita sér fyrir því að Krafla komist í notkun, þar verði borað myndarlega á næsta sumri. Ég man að fyrir tveimur árum lagðist hann gegn því hér á Alþingi að boranir færu fram þar á sumrinu 1979, svo að þar eru engar boranir. Hann greiddi atkv. gegn því hér við nafnakall og á s.l. sumri voru ekki boraðar þar nema tvær holur, en hefðu þurft að vera þrjár. Ég fagna því, ef skilja má orð hans þannig að nú sé meiningin að standa myndarlega að þessum málum þarna fyrir norðan.