27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1909 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

115. mál, Blönduvirkjun

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í utandagskrárumr. í gær lýsti ég ótta mínum á því, að kostnaði af framleiðslustöðvun stóriðjuvera vegna minnkandi raforkusölu til þeirra yrði velt yfir á hinn almenna borgara. Ótti minn hefur aukist frá því í gær. Nú eru umr. um stóriðjuver og raforkumál þannig að ég vil kynna hér tillögu sem var lögð fram í dag í borgarráði, en ég vil geta þess í upphafi að borgarráð hefur nú samþykkt að taka þetta mál á dagskrá næsta föstudag og hafa um það umræður á næsta borgarstjórnarfundi. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fram hefur komið í fréttamiðlum undanfarna daga að sökum erfiðleika, sem raforkuver eiga við að glíma í framleiðslu, hafa stóriðjuver ekki fengið þá raforku keypta sem þarf til starfsemi þeirra. Kostnaður við framleiðslustöðvun þessara fyrirtækja er sagður mikill og hafa forsvarsmenn Landsvirkjunar og þessara fyrirtækja komið saman og rætt þessi vandamál og samkv. fréttum ákveðið að þessi mikli kostnaður verði borinn af opinberum sjóðum eða af fólkinu í landinu. Þessum ákvörðunum, ef réttar eru, vil ég mótmæla og eins dreg ég í efa að forstöðumenn Landsvirkjunar hf. hafi heimild til þess að taka slíkar ákvarðanir. Ég tel að stóriðjuverksmiðjur eigi sjálfar að glíma við sinn framleiðsluvanda og á eigin kostnað eins og önnur fyrirtæki og einkaaðilar í landi hér. Því geri ég það að tillögu minni, að mál þetta verði kynnt og rætt á næsta borgarstjórnarfundi og borgarstjórn gæti þar með hagsmuna Reykvíkinga og annarra viðskiptavina Rafmagnsveitunnar á stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá er það mín skoðun, að hinn almenni borgari eigi forgang á raforku frá Landsvirkjun, þegar skömmtun á raforku er nauðsynleg, án aukakostnaðar. Mál þetta þolir enga bið.

Albert Guðmundsson.“

Borgarstjórn hefur tekið þessu máli þannig, að á næsta fundi borgarráðs mun það verða rætt og síðan verða almennar umræður um málið á næsta borgarstjórnarfundi sem er annan fimmtudag.