29.10.1980
Neðri deild: 7. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

36. mál, tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vildi byrja á því að leyfa mér að benda hv. þm. á að það er ekki ástæða til að standa fyrir leiksýningum eða sérstökum mótmælaaðgerðum þó að ráðh. geti ekki ævinlega verið viðstaddir þegar umr. fer fram um mál sem hann flytur. Það stendur svo illa á að ráðh. flytja mál í báðum deildum þingsins. Nú stendur svo á að allmörg mál eru á dagskrá beggja deilda, sem flutt eru af fjmrn. Nú er verið að ræða um Flugleiðamálið í Ed. og ber brýna nauðsyn til að því verði sem fyrst komið til n. Það þarf því engan að undra þó að ég þurfi aðeins að bregða mér frá þegar mjög er kallað á það úr Ed. að ég sé viðstaddur umr. þar. Menn verða auðvitað að horfa í gegnum fingur við ráðh. þegar þannig stendur á. Þeir geta að sjálfsögðu ekki verið á tveimur stöðum samtímis.

Í sambandi við þetta mál kom fram fsp. frá hv. þm. Friðrik Sophussyni. Í fyrsta lagi spurði hann um virðisaukaskattinn. Hann spurði hvort ekki stæði til að framfylgja því ákvæði stjórnarsáttmálans, að komið yrði á slíkum skatti í stað núverandi söluskattskerfis. Ég vil byrja á því að minna á að í stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens er ekki beinlínis kveðið á um að þessi skattur skuli tekinn upp innan ákveðins tíma, heldur segir í 6. liðnum undir safnheitinu ríkisfjármál: „Athugað verði að breyta söluskatti í skatt með virðisaukasniði innan tveggja ára.“

Ég vona að menn geri sér grein fyrir því að hér er því alls ekki slegið föstu að virðisaukaskatti verði komið á innan ákveðins tíma, heldur er þarna verið að benda á að til greina komi önnur leið en sú að halda gamla söluskattinum ellegar að taka upp venjulegan virðisaukaskatt. Staðreyndin er auðvitað sú, að virðisaukaskattur af því tagi, sem lagður hefur verið á í nálægum löndum, er bersýnilega með ýmsum ágöllum. Einn helsti ágallinn er sá, að hann þykir hafa ákaflega mikla skriffinnsku í för með sér og það yrði að fjölga embættismannaliði ríkisins allverulega til að koma slíkum skatti á. Það eru fleiri en hv. þm. Friðrik Sophusson sem vilja ógjarnan að embættisliði ríkisins sé fjölgað nema af brýnni þörf.

Eins er hitt, að venjulegur virðisaukaskattur krefst þess að nánast engar undantekningar eða undanþágur séu gerðar við álagningu skattsins. Það þýðir í reynd að við yrðum að hækka allar landbúnaðarvörur mjög verulega í verði ef við tækjum upp venjulegan virðisaukaskatt. Af því mundu þar með hljótast ýmis önnur vandamál, svo sem minnkuð neysla landbúnaðarvara og verulega hækkuð framfærsluvísitala sem aftur hefur áhrif á verðbólguþróunina í landinu. Þannig fer ekkert milli mála að framkvæmd venjulegs virðisaukakerfis, það að taka upp skatt með virðisaukasniði, getur haft ýmsar afleiðingar sem óhjákvæmilegt er að menn standi klárir á, eins og sagt er, áður en ákvarðanir eru teknar.

Ég verð líka að segja það í þessu sambandi, að ég tel að næsta stórverkefnið í skattamálum Íslendinga, eftir að búið er að koma hér á nýju tekjuskattskerfi, sé að undirbúa staðgreiðslukerfi skatta. Er verið að vinna að því máli og verður unnið að því af fullum krafti. Mér er til efs, að það sé hagkvæmt að taka mörg slík verkefni fyrir á sama tíma, og er ekki alveg viss um að þeir sem að skattamálum vinna hjá okkur, ráði við það. En þetta mál er í athugun alveg eins og stendur í stjórnarsáttmálanum, og verður það áfram og ekki niðurstöðu að vænta fyrst um sinn.

Í öðru lagi spurði hv. þm., hvað liði endurskoðun á aðflutningsgjöldum samkeppnisiðnaðar, og vísaði til frv. sem hann hefði verið 1. flm. að í hv. Nd. Alþ. fyrir tveimur árum, en frv. þessu hefði verið vísað til ríkisstj. með ósk um að frv. yrði samið um það mál og sem best tryggð örugg framkvæmd þess. Ég get svarað þessari spurningu einfaldlega á þann veg, að það hefur verið unnið að þessu máli af fullum krafti seinustu vikurnar. Ég skal ekki segja um hvernig vinnubrögðin hafa verið seinustu tvö árin, vegna þess að ég hef ekki fylgst með því, en mér er kunnugt um að það hefur verið unnið af fullum krafti í þessu máli í sumar.

Ég vil segja í þessu sambandi að íslenska tollalöggjöfin er þéttur frumskógur sem oft getur verið erfitt að rata í. Það berast til fjmrn. beiðnir um tollaívilnanir, tollalækkanir eða lækkanir á aðflutningsgjöldum svo tugum skiptir í hverri einustu viku.

Í 12. tölul. 3. gr. tollalaganna er heimild til þess að endurgreiða eða fella niður gjöld á hráefni, efnivið og hlutum til framleiðslu innlendra iðnaðarvara sem tollar hafa verið lækkaðir eða felldir niður af samkv. ákvæðum um aðild Íslands að EFTA og ákvæðum samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu, svo og af vélum, vélahlutum og varahlutum sem notaðir eru til vinnslu sömu vara. Þetta ákvæði hefur verið framkvæmt í öllum meginatriðum. Ég held að hv. þm. lifi í einhverjum draumaheimi ef hann ímyndar sér að það heyri til undantekninga að þetta lagaákvæði sé framkvæmt í reynd, því að það er í fullu gildi.

Hitt er annað mál, að við framkvæmd á þessu tollalagaákvæði hafa komið upp ýmis vafaatriði. Það hafa komið upp deilumál milli iðnaðarins annars vegar og fjmrn. hins vegar. Margfrægt vörulyftaramál er kannske ágætt dæmi um deilumál af því tagi. Í frv., sem hann flutti, og við þá vinnu, sem hefur verið í gangi, hefur einmitt verið unnið að því að leysa úr slíkum ágreiningsefnum, þrætumálum, og draga línuna með skýrum hætti á þann hátt að samkomulag og friður geti verið um þetta mál milli iðnaðarfyrirtækjanna og fjmrn. Þessi vinna er langt komin. Nefndin hefur skilað af sér, en málið er til nánari athugunar hjá ríkisstj. og verður væntanlega tekin ákvörðun áður en mjög langt líður um hvaða stefna verður tekin í þessu máli. Meira er ekki um það að segja.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði ýmsar athugasemdir sem ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um. Ég ræddi einmitt í máli mínu áðan hvaða ráðstafanir þyrfti að gera áður en þessum verndaraðgerðum yrði aflétt. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það.

En varðandi það atriði sem fram kom hjá honum, að hér væri um hálfgerðan vandræðaiðnað að ræða að því leyti að hann greiddi léleg laun, þá er mér nær að halda að þessi iðnaður greiði nákvæmlega þau laun sem greidd eru í innlendum iðnaði og sælgætisiðnaðurinn skeri sig ekki úr á nokkurn hátt. Hins vegar hefur verið þörf á því og er þörf á því að bæta kjörin hjá fólki sem stundar iðju og iðnaðarstörf af þessu tagi. Ég held að núv. ríkisstj. hafi einmitt beitt sér mjög kröftuglega í þeim efnum með þeim árangri að einmitt þessa dagana, þegar þetta mál ber á góma í þinginu, er verið að hækka laun þessa fólks meira en nokkurra annarra. Það held ég að sé virðingarverð viðleitni til þess að stíga spor í rétta átt.

Að lokum var fsp. frá hv. þm. Albert Guðmundssyni sem sneri að því, hvað hefði orðið um það fé sem innheimt hefði verið vegna álagningar þessa skatts samkv. brbl. um sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex.

Ég verð að játa að ég er ekki með gögn með mér sem geta upplýst hv, þm. um hve mikið hefur komið inn í ríkissjóð vegna þessarar álagningar, en mér er nær að halda að það sé tiltölulega lág upphæð. Það var flutt inn í landið feiknalega mikið af þessum vörum á fyrri hluta ársins. Það voru réttar tölur sem hv. þm. nefndi. Það var flutt inn sælgæti sem nam tæpum 1300 þús. dollurum, en þegar gjald þetta var lagt á tók mjög snögglega fyrir þennan innflutning. Ég held að það sé nokkuð ljóst að bæði neytendur og innflytjendur kipptu að sér höndum. Ég held því að þær tolltekjur ríkissjóðs á þessu ári muni tæpast nema meira en 200–300 millj. kr.

Hv. þm. spurði hvort þessar tekjur hefðu runnið til málefna iðnaðarins eða hvort þær hefðu runnið beint í ríkissjóð. Því er til að svara, að allar tekjur, sem inn koma, renna í ríkissjóðs nema þess sé sérstaklega getið. Að sjálfsögðu væri það ekki í samræmi við þessi brbl. ef fjmrn. hefði tekið ákvörðun um að láta einhverja aðra hafa þetta fé en ríkissjóð. Það er ekkert ákvæði um það í lögunum að svo skuli gert og væri lögbrot ef tilraun væri gerð til þess.

Auðvitað má velta því fyrir sér, hvort þetta hefði átt að verða markaður tekjustofn, hvort þetta hefði átt að renna sérstaklega til þarfa iðnaðarins. En ég vísa til þess, að í fjárlögum, sem nú hafa verið lögð fram, er verið að auka framlög til iðnaðar með ýmsum hætti. Ég held að nægi að vísa til þess, að sjóðir iðnaðarins fá meira fé til ráðstöfunar en verið hefur. Ég held því að það sé í sjálfu sér aukaatriði hvort þessi skattur rennur beint til iðnfyrirtækja í landinu eða hvort hann rennur í ríkissjóð sem síðan styrkir uppbyggingu iðnaðar og eflingu iðnaðar með ýmsum öðrum hætti.

Herra forseti. Ég vænti þess að fsp. þeim, sem fram komu, sé svarað.