27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1912 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

115. mál, Blönduvirkjun

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Heldur fannst mér aumkunarverð afsökun hæstv. iðnrh. áðan. Hann reyndi að skjóta sér á bak við mátefnasamning ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1978–79, þegar hann var að reyna að gera grein fyrir hinu stórfurðulega uppátæki sínu að fara fram á það við stjórn Landsvirkjunar að framkvæmdum við Hrauneyjafoss yrði frestað.

Það liggur fyrir svart á hvítu í bréfi hæstv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar, sem dags. er annaðhvort í sept. eða okt. 1978, að hann fer beinlínis fram á það við stjórn Landsvirkjunar að framkvæmdum við Hrauneyjafoss verði frestað þannig að fyrsta vél þeirrar virkjunar verði ekki ræst fyrr en árið 1982 í stað ársins 1981. Fram hjá þessu getur hæstv. iðnrh. ekki komist. Hann fór fram á að virkjunarframkvæmdum við Hrauneyjafoss yrði frestað.

Stjórn Landsvirkjunar tókst hins vegar að koma vitinu fyrir hæstv. iðnrh. að þessu leyti og að því marki að um tilflutning framkvæmda á milli ára yrði að ræða án þess að gangsetningu fyrstu vélar Hrauneyjafossvirkjunar væri frestað. Ég vil vekja athygli á þessu um leið og ég vek athygli á orðum hv. þm. Páls Péturssonar áðan, þegar hann talaði um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga sem delluverksmiðju.

Ég held að það sé ekki von á góðu þegar við stjórnvöl landsins sitja menn á borð við hæstv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson og hv. þm. Pál Pétursson, sem afhjúpa hugsunarhátt sinn með þeim hætti sem þeir báðir hafa gert hér í dag — og raunar áður — varðandi virkjunarframkvæmdir og orkufrekan iðnað. Bætt lífskjör í landinu í framtíðinni byggjast einmitt umfram allt á því, að áfram verði haldið virkjunarframkvæmdum og framkvæmdum í orkufrekum iðnaði. Ég met íhaldssemi mikils, sérstaklega ef íhaldssemin er tengd frjálslyndi, en ummæli þessara tveggja hv. þm. eiga ekkert skylt við heilbrigða íhaldssemi, heldur er hér um svartasta afturhald að ræða.