27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

115. mál, Blönduvirkjun

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Þessar umræður hafa farið vítt og breitt, bæði um stóriðju og stórvirkjanir, en það er aðeins eitt atriði, sem fram hefur komið hér, sem ég vil vekja athygli þingheims á. Það eru ummæli hæstv. ráðh. um það, að að bestu manna yfirsýn um stjórn járnblendiverksmiðjunnar sé þjóðhagslega hagkvæmt að loka því fyrirtæki um sinn. Ég minnist þess, að ég var í iðnn. Nd. þegar fjallað var hér um járnblendiverksmiðjuna og eignaraðild ríkisins að henni og sýndi fram á, að mér fannst með ljósum rökum, að hér væri um stórkostlega áhættusamt fyrirtæki að ræða og allar líkur á því, að stórfellt tap yrði á því á næstu árum. Og ég greiddi atkvæði á móti eignaraðild ríkisins að þessu fyrirtæki.

Ég vil vekja athygli á því, að ef ríkissjóður hefði lagt það fé í framkvæmdir sem honum ber að standa fyrir, eins og t.d. varanlega vegagerð eða eitthvað slíkt, þá hefði þetta fé skilað sér margfaldlega: Í staðinn er það trúaratriði fyrir sumum mönnum, að ríkissjóður þurfi endilega að leggja fé sitt í mjög áhættusaman rekstur eins og járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Ef við hefðum ekki gert þetta á þeim tíma, þá væri ekki neinn að spekúlera í því að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að loka þessu fyrirtæki og þá hefðum við fengið eðlilegan afrakstur af okkar peningum. Ég er þeirrar skoðunar, að eins og sakir standa eigi ríkissjóður fullt í fangi með að sinna þeim framkvæmdum, sem eru þjóðhagslega hagkvæmar fyrir þessa þjóð, og hann eigi ekki að leggja fé í svo áhættusamt fyrirtæki sem járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði.