27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1914 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

115. mál, Blönduvirkjun

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég er ekki í forsvari fyrir þeirri fsp. sem hér er á dagskrá, en langar þó til að segja örfáar setningar.

Það er ekki að undra að rætt er um orkumál eins og ástandið er nú í þeim efnum, en ég vil láta þess getið og láta það koma skýrt fram, að þetta ástand sáu sérfræðingar okkar ekki fyrir þegar ákvarðanir voru teknar um þær virkjanir sem nú eru næstar því að komast í gagnið. Þetta sannar að við þurfum að hafa vara á okkur gagnvart erfiðum árum í orkubúskapnum, og það ástand, sem nú er, á að hvetja okkur fremur til að fara heldur hraðar en hægar í orkuframkvæmdir og virkjanir til þess að við eigum ekki yfirvofandi þvílíkt neyðarástand sem nú er í þessum efnum.

Ég vil aðeins, vegna þess að mér eru þau mál kunnug sem formanni Rafmagnsveitna ríkisins, láta það koma fram, að það er ekki rétt, sem hv. þm. Páll Pétursson sagði um þá samninganefnd sem fer norður til funda á morgun, að hím hafi ekki viljað ræða við fulltrúa Veiðifélags Blöndu og Svartár í þeirri ferð. Ef mér er rétt frá sagt af þeim mönnum, sem ég trúi að sé, þá óskar hún eftir því að geta tekið á móti fulltrúum Veiðifélags Blöndu og Svartár í lok fundar á morgun, eftir að hún hefur haldið fundi með fulltrúum sveitarfélaganna, eða síðar ef hentara þætti. Þetta hygg ég að sé rétt og veit að hv. þm. Páll Pétursson leiðréttir.

Ég vil enn fremur gera þá athugasemd um það sem hann sagði hér um undirskriftalistann, að þar var skrifað undir tvennt: Í fyrsta lagi, eins og hann sagði, mótmæli gegn virkjun við Reftjarnarbungu, í öðru lagi áskorun á hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir virkjun við Villinganes. Þegar þeir aðilar, sem undir þetta hafa skrifað, hafa kynnt sér það, að Villinganesvirkjun er ekki á dagskrá, hygg ég að þessi afstaða ýmissa manna þar breytist.

Ég vil svo aðeins segja það, að ég vænti þess að þessi mál komi hér fyrr en síðar á dagskrá á þann hátt sem hæstv. iðnrh. hefur gefið yfirlýsingar um, í frv.-formi sem veiti heimildir fyrir næstu stórvirkjun eða næstu stórvirkjunum á landinu. Þess er full þörf.