27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

115. mál, Blönduvirkjun

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir að hann skyldi þó koma hér upp í ræðustól, þó að mér fyndist ekki nógu ákveðin sú afstaða sem mér finnst að hljóti að verða að því er varðar þetta mál. Hæstv, ráðh. sagði að þessi mál væru til athugunar og yrðu skoðuð, og ég dreg það að sjálfsögðu ekki í efa. En ég var að vænta þess og vildi gjarnan óska eftir því, að hæstv. ráðh. gæti lýst yfir hér á Alþingi, að Vestfirðingar í þessu tilfelli mundu búa við sambærilegt orkuverð og aðrir eru með nú, þannig að ekki yrði lagður á þá aukakostnaður vegna þeirrar orkukreppu sem nú gengur yfir. Ég vænti þess fastlega — hvort sem hæstv. ráðh. fæst hér upp til þess að gefa slíka yfirlýsingu — að Vestfirðingar sitji við sama borð og aðrir um þetta. Fáist hann ekki til þess vænti ég þó að endirinn verði sá, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. treysti sér til að láta Vestfirðinga sitja við sama borð og aðra, en leggi ekki enn frekari byrðar á þá í þessu efni. Nóg er fyrir í öðru og var raunar í þessu líka, þó að ekki bætist þetta við.

Ég ítreka það, að ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að enn verði auknar þessar byrðar á Vestfirðingum. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. beiti sér fyrir því, að úr þessum mátum þeirra verði greitt og þeir sitji við sama borð og aðrir.