27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

359. mál, rekstur Skálholtsstaðar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja hér fram fsp., sem er 4. liður á þskj. 129. Þær spurningar, sem þar eru bornar fram, varða rekstur Skálholtsstaðar.

Á fjárlögum fyrir árið 1981 eru 10 millj. gamalla kr. ætlaðar til rekstrar Skálholtsstaðar, og til að afstýra misskilningi skal fram tekið að sú upphæð er óviðkomandi skólahaldi á staðnum. Þegar lítast er um á Skálholtsstað er erfitt að sjá hvað gera skal við þessa upphæð eða til hvers staðurinn skal rekinn. Sú var tíðin að biskup landsins hafði hugmyndir um og klerkar nokkrir að biskupsdæmi landsins yrðu þrjú og sæti biskup Sunnlendinga Skálholtsstað. Af þessu hefur ekki orðið og þess vegna lítil sem engin starfsemi þar nú. Fyrir nokkrum árum var byggt veglegt hús undir sumarbúðarekstur fyrir börn og jafnframt starfsmannabústaðir vegna þeirrar starfsemi, en hún hefur síðan engin verið undanfarið og þessi mannvirki eru augljóslega að eyðileggjast vegna vanhirðu. Ljóst er að þarna hafa verulegir fjármunir farið fyrir lítið. Eitthvað munu þessi hús hafa verið notuð fyrir námskeiðahald, en það er óveruleg nýting að sögn bóndans á Iðu sem lítur eftir þessum húsum.

Það, sem verst er þó við rekstur þessa sögufræga staðar, er að þar liggur á kirkjulofti eitt merkasta og verðmætasta bókasafn landsins, grátt af myglu. Þar er um að ræða bókasafn Þorsteins sýslumanns Þorsteinssonar, sem mun vera eitt dýrmætasta safn sem dregið hefur verið saman á Íslandi, og eitt merkasta safn kirkjurita sem til er hér á landi. Í því eru gömul prent frá hinum gömlu prentstöðum Skálholti, Hólum, Hrappsey, Beitistöðum, Leirá, Núpufelli og Viðey. Verður slíku safni varla komið saman aftur.

Þorsteinn sýslumaður lést 1960 og var þá um tíma óvíst um örlög safnsins. Árið 1962 var fjölrituð skrá um það og það boðið til sölu. Keypti þá safnið maður að nafni Kári Borgfjörð Helgason. Telja sérfræðingar að verð þess hafi verið þá að núgildi 500 –1000 millj. gamalla kr. eða milli 5 og 10 millj. nýkr. Árið 1965 seldi Kári safnið íslensku þjóðkirkjunni, en ekki hefur mér tekist að fá skýr svör um kaupverð þess. Eflaust voru þessi kaup liður í stórdraumum um endurreisn Skálholtsstaðar, en þeir draumar urðu að engu, a.m.k. hingað til, og þetta bókasafn liggur nú á kirkjulofti eftirlitslaust og undir stórskemmdum. Sá tími er augljóslega ekki liðinn að bókmenntalegir dýrgripir fari forgörðum hér í landi. Ekki veit ég til að nokkur bókasafnsfræðingur hafi fengið að berja þetta safn augum.

Hér tel ég farið að á þann hátt, sem ekki er sæmandi, og vil biðja hæstv. kirkjumálaráðherra að beita sér fyrir því, að hér verði sem allra fyrst bætt úr. Spurningar mínar hér eru um leið krafa um að ekki sé farið svo með fjármuni þjóðarinnar og menningarverðmæti. Spurningar mínar á þskj. 129 eru þessar:

1) Hvernig er rekstri Skálholtsstaðar háttað og hvernig starfsemi fer þar fram?

2) Hvernig er ástatt um hið mikla bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns sem geymt er í Skálholti? Hvernig er nýting þess og hvaða aðili hefur umsjón þess með höndum?

3) Hefur verið mörkuð stefna um framtíðarrekstur Skálholtsstaðar og hlutverk hans?

Ég skal strax segja frá því, að ég hef skoðað þennan rekstur með eigin augum og býst við að ég þekki fyrir fram spurningar hæstv. kirkjumálaráðherra. En vel má vera að hann geti upplýst okkur frekar um hvernig í ósköpunum það má vera, að þetta dýrmæta bókasafn liggur þarna eftirlitslaust og undir stórskemmdum svo og þrjú íbúðarhús og veruleg bygging, sem ætluð var fyrir sumarbúðir þjóðkirkjunnar. Ég vil vænta þess, að svör fáist við því, hver framtíð þessa rekstrar á að vera.