27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

359. mál, rekstur Skálholtsstaðar

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mun svara þessum þremur fsp. í réttri röð, eftir því sem tími vinnst til.

Ég vísa til laga nr. 32 frá 26. apríl 1963, um heimild handa ríkisstj. til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað. Samkv. þessari heimild var Skálholt afhent þjóðkirkjunni á vígsludegi Skálholtskirkju 21. júlí 1963. Lögin kveða enn fremur svo á, að biskup Íslands og kirkjuráð skuli veita eign þessari viðtöku fyrir hönd þjóðkirkju Íslands og hafi þar forræði um framkvæmd og starfrækslu. Enn fremur segir í lögum þessum, 2. gr.: „Ríkissjóður skal árlega greiða eina millj. kr. í sjóð, sem vera skal til áframhaldandi uppbyggingar í Skálholti og rekstrarfé þeirrar starfrækslu, sem biskup og kirkjuráð koma þar upp. Stjórn sjóðsins skipar kirkjuráð.“ Lögin taka af tvímæli um það, hvaða aðili hefur með höndum umsjón staðarins. Þegar sumarið 1963 var hafist handa um að reisa æskulýðsbúðir í Skálholti. Hafa þær verið starfræktar síðan, húsin komist upp, fjórir skálar, einn allstór. Þá var strax á fyrsta ári hafist handa um að fullgera íbúðarhús á staðnum, sem var fokhelt þegar það var afhent. Þangað inn flutti sóknarpresturinn í prestakallinu, en hann sat áður á Torfastöðum þó Skálholt hafi verið lögfest prestssetur frá árinu 1952. Síðar var reist prestsseturshús á staðnum, en hitt húsið var tekið til afnota fyrir lýðháskólann. Prestsseturshúsið var reist fyrir fé, sem veitt var á fjárlögum til prestssetra, en kirkjuráð lánaði nokkurt fé til þeirrar framkvæmdar til þess að flýta fyrir henni.

Rekstur staðarins felur í sér bæði viðhald, áframhaldandi uppbyggingu og starfrækslu. Lögin frá 1963 gerðu ráð fyrir því, að fjárhagslegur grundvöllur yrði fyrir framkvæmdum vegna starfrækslu og fyrir viðhaldi. Miðað við verðgildi þeirrar upphæðar, sem tilgreind er í lögunum, mátti ætta að vel væri fyrir málum séð að þessu leyti. En þetta framlag stóð í stað þótt verðbólgan æddi áfram. Árið 1968 er framlagið hækkað í 1.2 millj. Situr við það til ársins 1975, þá er það hækkað í 2 millj.,1977 fer það í 3 millj.,1978 í 3.8 millj.,1979 5.4 millj. og óbreytt 1980. Það þarf ekki að benda á hvaða erfiðleikum það hefur valdið um alla starfrækslu og viðhald að lögbundinn tekjustofn hefur brugðist með þessum hætti.

Eigi að síður hefur staðnum þokað fram og munar þar mest um Skálholtsskóla. Hann var frá byrjun ofarlega á áætlun um starfrækslu. Vinir Skálholts á Norðurlöndum hafa safnað talsverðu fé til skólans og þeir fjármunir voru fótfesta kirkjuráðs þegar það réðst í að reisa hús fyrir skólann. Fé þessu var safnað meðal lýðháskólamanna erlendis, og þeir, sem gengust fyrir þeirri söfnun, treystu því, að Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja þegar aðrir tækju svo vel í strenginn og um það var að ræða að koma á fót einum lýðháskóla á Íslandi þar sem enginn var fyrir. Það fór líka svo, að ríkissjóður hljóp undir bagga með fjárframlagi til skólahússins, og 1977 gengu fram á Alþingi lög um Skálholtsskóla sem tryggja honum rekstrarfé og 80% kostnaðarvið byggingarframkvæmdir framvegis. Miklar skuldir höfðu safnast þegar skólinn tók til starfa í þessu húsnæði haustið 1973. Hann hafði þá starfað í eitt ár í húsum æskulýðsbúðanna. Húsnæðið var og ófullgert og hefur ekki verið unnt að bæta úr því síðar. Því síður hefur verið kleift að halda áfram með bygginguna, þ.e. að koma upp þeim helmingi heimavistar, sem enn vantar, og reisa bókhlöðu. Enn fremur vantar alla aðstöðu til leikfimi, m.a. sundlaug. Gnægð er af heitu vatni í Skálholti, en allfjarri staðnum. Hitaveitu var komið upp 1972 og fékk kirkjuráð þá lítinn styrk frá Seðlabanka Íslands til þeirra framkvæmda.

Bókasafn var keypt af Kára B. Helgasyni 1965. Var safnað fé til kaupanna meðal almennings, en Skálholtsfélagið lagði fram stærsta skerfinn. Það fé var sjálfboðaframlag áhugamanna um endurreisn staðarins. Safnið var flutt í Skálholt undir umsjón Helga Tryggvasonar bókbindara er fór yfir skrásetningu þess og gekk frá bókunum í turni Skálholtskirkju. Þar er safnið vel geymt í eldtraustri geymslu. Hins vegar hefur það dregist — af ástæðum sem augljósar eru af ofangreindu — að koma safninu fyrir í húsnæði sem gerir fært að nýta það. Þyrfti þá einnig að vera varsla á safninu. Þetta verður að bíða þess tíma þegar fé verður fyrir hendi til þess að reisa hentugt húsnæði fyrir safnið, og þá verður einnig unnt að opna það til afnota. Með auknum húsakosti í Skálholti geta fræðimenn eignast þar athvarf svo og rithöfundar og aðrir listamenn. Sú hugmynd hefur verið vakandi frá byrjun. Fé hefur skort til þess að kaupa bækur til safnsins, en ýmsir velunnarar staðarins hafa gefið bækur. Stærst slíkra bókagjafa var gjöf hjónanna Guðbjargar og Páls læknis Kolka.

Kirkjuráð markaði stefnu um leið og það tók við staðnum. Á fundi sínum 19. júlí 1963 gerði það eftirfarandi samþykkt:

„Kirkjuráð lítur svo á, að framtíð hinnar íslensku þjóðkirkju sé nátengd viðreisn þeirri, sem nú er hafin í Skálholti, og telur því að haga beri einstökum framkvæmdum með tilliti til heildarskipulags staðarins og þess markmiðs, að hann verði alhliða menningarmiðstöð og aflvaki í kristnilífi þjóðarinnar. Telur kirkjuráð að frumskilyrði þess, að því markmiði verði náð, sé að Skálholt verði kirkjuleg miðstöð í sem fyllstum mæli og hafi kirkjan þar svo góða starfsaðstöðu er framast má verða og hafi á að skipa sem fullkomnustu starfsliði og forustu. Leggur því kirkjuráð til:

Í fyrsta lagi, að komið verði upp lýðháskóla er starfi í anda hinnar norrænu lýðháskólahreyfingar jafnframt því að hann þjálfi starfslið handa kirkjunni, safnaðarstarfsmenn ýmiss konar og þá einkum leiðbeinendur fyrir æskulýðinn. Í sambandi við skólann færi fram námskeiðastarfsemi og mót sem haldin kunna að verða fyrir innlenda og erlenda þátttakendur.

Að komið verði upp menntaskóla er nái einnig yfir miðskótastigið. Skólinn stefni að því með kennslu sinni og uppeldisáhrifum að nemendur mótist þar af kristilegri lífsskoðun og verði að öðru jöfnu hæfari til guðfræðináms.

Að koma upp prestaskóla (pastoral seminarium) fyrir guðfræðinga er ætla sér að ganga í þjónustu kirkjunnar. Fái þeir þar undirbúning, er nauðsynlegur verður að teljast í nútímaþjóðfélagi til þess að geta leyst af höndum það trúboðs- og sálgæslustarf er þjóðin í heild og einstaklingar hennar þarfnast.

Að koma upp sumarbúðum fyrir börn og unglinga, sem jafnframt yrðu æfingaskóli fyrir æskulýðsleiðtoga. Æskilegt væri að tengja þetta sumarbúðastarf búrekstri á staðnum eftir því sem tiltækilegt þætti.

Að koma upp aðstöðu og samastað fyrir þá sem verja vildu ævikvöldi sínu, tómstundum og leyfum til þess að njóta staðarins sér til líkamlegrar og andlegrar hressingar og upplyftingar. Verði mönnum búin aðstaða til fræðiiðkana, m.a. með vönduðu bókasafni.

Að nágrannaprestar staðarins geti jafnframt orðið starfsmenn fyrrgreindra stofnana, eftir því sem við verður komið, til þess að starfskraftar kirkjunnar nýtist sem best og verði sem mestir og fjölbreyttastir á staðnum, til þess að fullnægja þörfum hans, nágrennis hans og kirkjunnar í heild.

Og loks, að endurreistur verði biskupsstóll í Skálholti með þeim hætti, sem við nánari athugun þykir henta best með tilliti til allsherjarskipulags og aðstöðu kirkjunnar.

Þau áform, sem hér eru sett fram, eru engan veginn öll orðin veruleiki. Fyrsta og fjórða atriði hefur verið náð og niðurlagi fimmta atriðis að nokkru. Frv. um sjöunda atriðið liggur fyrir frá kirkjuþingi. Um þá starfsemi, sem fram hefur farið undanfarin sumur, vísast til fylgiskjala sem hér eru of mörg og löng til þess að ég geti lesið þau öll. Mjög margt er á dagskrá sem nauðsynlegt er að koma fram, en féleysi hamlar. Lóð skólans er ófrágengin og það skipulag á umhverfi hans og kirkjunnar, sem lengi hefur legið fyrir á pappír, unnið af Reyni Vilhjálmssyni skrúðgarðaarkitekt ásamt arkitektum kirkjunnar og skólans, er enn aðeins til á uppdrætti. Bæði kostar sú framkvæmd fé og ekki er unnt að ráðast í hana fyrr en byggingu skólans er lokið. Þá er brýnt að gera betur við staðarrústirnar suður af kirkjunni. Hefur fengist ofurlítill styrkur til þessa verks úr Þjóðhátíðarsjóði, en alls ónóg. Á þessu svæði eru grunnar fornra staðarhúsa, sem þarf að hreinsa svo að hleðslur komi í ljós svo og staðarhlaðið gamla. Traðir fornar liggja út frá staðnum greinilega. Þær þarf líka að hreinsa. Síðar mætti auðkenna með einföldum hætti allar vistarverur sem vitað er um samkvæmt fornum uppdrætti. Mundi margur gestkomandi njóta þess að geta gengið um þetta svæði þegar búið væri að snyrta það og setja upp látlausa leiðarvísun um húsaskipun. Þetta yrði gert án þess að raska neinu. Fornleifarannsókn þarna bíður síns tíma.

Það hefur mikið áunnist í Skálholti á tiltölulega skömmum tíma fyrir ötult og fórnfúst starf. Sú staðreynd, að staðurinn er nú meðal þeirra sem sjálfsagt þykir að sýna t.d. opinberum gestum erlendis frá, vitnar um það að hann telst til þjóðargersema. En samkvæmt því sem áður er sagt skortir talsvert á að fjárveitingavaldið dragi eðlilega ályktun af þessu eða virði nægilega þá ábyrgð sem ríkið gekkst undir með lögunum frá 1963.