27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

359. mál, rekstur Skálholtsstaðar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Það er greinilegt, að hv. sameinað þing hefur takmarkaðan áhuga á Skálholtsstað ef enginn ætlar að leggja hér orð í belg. Ég hlýt því að gera nokkrar verulega alvarlegar athugasemdir við svör hæstv. ráðh. og harma það. Ég var náttúrlega ekki að spyrja hvað kirkjuráð ætlar að gera við Skálholt, heldur hæstv. kirkjumálaráðherra, hvaða hugmyndir hann hefur um það. Ég hef hingað til haldið að Skálholtsstaður heyrði undir ráðuneyti hans.

Ég verð að lýsa því yfir, að órar á borð við það, að í Skálholti verði í framtíðinni prestaskóli, finnast mér varla frambærilegir hér á hv. Alþingi Íslendinga. Ég veit ekki betur en að guðfræðideild sé við Háskóla Íslands, og ég held að við verðum að láta hana duga.

Vissulega er lýðháskóli í Skálholti, með takmarkaðri aðsókn. Slíkur skóli er að verulegu leyti utan við skólakerfið íslenska, og ég hygg að flestir viti það nú þegar, að aðsókn að slíkum skóla er takmörkuð og verður æ minni. Það, sem ég var hins vegar að spyrja um hér, var ekki hvort það væri fallegt í Skálholti eða hvort þar væru gömul göng, það veit ég fullvel. Og ég er vissulega stolt af að sýna útlendingum Skálholtsstað þrátt fyrir allt. Hins vegar finnst mér leiðinlegt að sjá þar gluggalaus hús, þar sem rúður hafa brotnað smátt og smátt í vindi og veðrum vegna ónógrar notkunar og þar sem ekki býr í þeim fólk. Og ef ég heyrði rétt sagði hæstv. ráðh. að það væru sumarbúðir í Skálholti fyrir börn. Ég ætta þá bara að leyfa mér að segja: Það er ekki. Ég vænti þess að mér hafi misheyrst.

Það, sem ég legg hins vegar mesta áherslu á, vegna þess að ég trúi ekki öðru — alla vega ekki með þeirri baráttu fyrir fjármunum til Skálholtsstaðar sem hér kom fram við síðustu gerð fjárlagafrv. þar sem 10 millj. eru lagðar fram, og ég heyrði ekki að kirkjumálaráðherra legði neina sérstaka áherslu á meira fé til staðarins — en að ár og dagar líði þangað til Skálholt verður biskupssetur. Og að bókhlaða rísi í Skálholti — ég verð nú að segja í fullri alvöru: Ætli við byggjum ekki Þjóðarbókhlöðu áður en bókhlaða rís í Skálholti? Við hljótum að spyrja: Bókhlaða fyrir hvern? Með allri virðingu fyrir bændum Árnessýslu efast ég um að þeir hafi tíma til að sitja yfir ritum frá Hrappsey og Viðey og öðrum slíkum stöðum, þannig að ég held ekki að þetta safn eigi neitt erindi í Skálholt yfirleitt. Ég held að áratugir liði þangað til geistlegir menn sitja þar og halda þing og grúfa sig yfir gömul rit.

Það, sem hér er á ferðinni, er það sem allir vita sem til Skálholts koma, að þetta safn er að verða ónýtt. Það er ekki í góðri geymslu, því er á engan hátt óhætt. Og ég vil biðja hæstv. kirkjumálaráðherra að tala við Bókasafnsfræðingafélag Íslands og spyrja hvort þetta safn sé í góðum höndum. Það er nefnilega í engum höndum. Ég efast ekki um að Helgi Tryggvason hefur á sínum tíma skráð þetta safn vel og vandlega, en mér er til efs að hann hafi séð það síðan.

Ég verð því að segja, að þessi svör komu mér meira en á óvart, og veit jafnframt, að það er háttvísi hér á hinu háa Alþingi að þakka fyrir veitt svör. En fyrir þau svör, sem ég hlaut við þessum fsp. mínum hér, á ég afskaplega erfitt með að þakka, vegna þess að ég held að hér hafi verið upplýsingar frá — ja, ég veit ekki hverjum. Ég vil bara geta þess til gamans, að ég spurði í morgun biskupsritara hver ætti að sjá um bókasafnið í Skálholti. Og ég gat ekki fengið neinar upplýsingar um það. Þessar upplýsingar, sem hér komu fram, frá hvaða landsins klerki þær komu, það veit ég ekki.

En þegar ég spyr hver sé framtíð Skálholtsstaðar, þá er ég ekki að spyrja um einhverja óra sem hafa verið samþykktir á kirkjuþingi eða í kirkjuráði. Ég held að þeir fjármunir, sem til staðarins fara, verði að vera undir stjórn kirkjumálaráðherra. Og það hljóta að vera einhverjar hugmyndir með þeim fjárveitingum. Hvað á að gera í framtíðinni? Við þingmenn getum varla haft mikinn áhuga á því að vera að samþykkja hér fjárveitingar til staðar, sem einungis er talað um að byggja upp. Við verðum fyrst að vita til hvers á að byggja staðinn upp. Og ég vil taka það fram, að ég hef ekki á móti því að biskup sæti í Skálholti. En á meðan biskupar landsins eru aðeins tveir — og það verður að gera ráð fyrir að einhver þurfi að ná við þá nokkru sambandi — þá held ég að vafasamt sé að annar þeirra sitji í Skálholti. g held að það sé álíka hugmynd og að Alþingi Íslendinga flytji til Þingvalla.

Og þá hlýtur maður að spyrja: Til hvers er verið að byggja þennan stað upp? Til hvers ættum við að reka hann? Á fallegum sumardegi s.l. sumar var ekki sála á staðnum. Eins og gefur að skilja var skólinn auður, skólastjórahjónin og kennaraliðið í burtu. Þarna var ekkert nema nokkrir túristar sem eigruðu um jörðina og furðuðu sig á því, hvaða eyðilegu, niðurbrotnu hús þetta væru, sem þarna standa fyrir neðan kirkjuna.

En mest er mér í mun, eins og ég hef áður sagt, að bókasafninu verði bjargað áður en það eyðileggst.