27.01.1981
Sameinað þing: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1927 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

364. mál, fullorðinsfræðsla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Ég vil taka undir allt það sem hér hefur fram komið, að ég tel ákaflega þýðingarmikið að frv. um fullorðinsfræðslu verði lagt fram á þessu þingi. Ég sé í þeim gögnum, sem hér hefur verið dreift, að eitt af þeim atriðum, sem minnst er á í sambandi við frv. það sem lagt var fram á 102. löggjafarþingi, er ákvæði um að almennings- og skólabókasöfn skuli hafa yfir að ráða bókaflokkum eins og hér segir — með leyfi forseta: „handbókum og öðrum gögnum sem unnt er að nýta til fullorðinsfræðslu.“ Ég held að hér sé komið inn á mjög merkilegt atriði, vegna þess að undirstaða allrar fullorðinsfræðslu í landinu eru auðvitað almenningsbókasöfn.

Nú veit ég að hæstv. menntmrh. veit það fullvel, að almenningsbókasöfn eru í afskaplega bágu ásigkomulagi síðan sveitarfélögin áttu eingöngu að sjá þeim fyrir fjármunum, og mér er kunnugt um að nú situr nefnd sem á að endurskoða lög um almenningsbókasöfn. Ég vil því nota þetta tækifæri til þess að hvetja hæstv. menntmrh. til að reka mjög á eftir þessu verki. Þetta er miklu mikilvægara en menn gera sér almennt ljóst, og ég tel að það sé næstum tómt mál að tala um fullorðinsfræðslu af nokkru viti fyrr en veruleg breyting verður á rekstri almenningsbókasafna. Og ég held að öllum sé löngu ljóst að fækka þurfi mjög miðsöfnunum, en fjölga útibúunum.

Ég vil því eindregið nota þetta tækifæri til að reka á eftir þessu máli. Hins vegar vil ég jafnframt — og kannske stóð ekki síður upp til þess —lýsa yfir áhyggjum mínum af því, að það skiptir hér alverlega í tvö horn á hinu háa Alþingi hvenær menn taka þátt í umræðum og hvenær ekki. Ef verið er að tala um orkumál eða efnahagsmál þurfa allir að tala, en um leið og á að tala hér um menningarmál eða uppeldismál eða málefni barna, þá hverfa þingmenn. Ég vil því varpa þeirri spurningu fram til hins háa Alþingis að lokum: Til hvers er verið að hafa áhyggjur af efnahagsmálum, ef menn vita ekki til hvers þjóðfélag er rekið, af hverju við erum hér?