29.10.1980
Sameinað þing: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

39. mál, niðurgreiðslur og útflutningsbætur

Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hversu miklar niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir voru greiddar úr ríkissjóði á fyrstu níu mánuðum ársins 1980 (janúar – september)?

2. Hversu miklar útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir voru greiddar úr ríkissjóði á sama tíma?

3. Hver er ferill þessara fjármuna? Hver tekur við þessum greiðslum, hve oft og hvenær? Um hvaða hendur fara þessir fjármunir, hversu lengi eru þeir á hverjum stað og hvenær koma þeir í hendur endanlegra viðtakenda?

Sundurliðaðra svara er óskað.

óskað er skriflegs svars.

Svar:

1. Fjárhæð niðurgreiðslna.

Greiðslur úr ríkissjóði af reikningslið 12 201 Niðurgreiðslur á vöruverði nema alls á tímabilinu janúar — september 1980 16 653 271 þús. kr. Ath. í þessari fjárhæð eru meðtaldar greiðslur í lífeyrissjóð bænda 990 000 þús. kr. og 1 379 967 þús. kr. sem greiddar voru í janúar 1980 vegna ársins 1979 og gjaldfærðar á því ári.

2. Fjárhæð útflutningsbóta.

Greiðslur úr ríkissjóði af reikningslið 04 290 Útflutningsbætur nema alls á tímabilinu janúar — september 1980 8 109 182 þús. kr. að meðtalinni heildarfjárhæð vaxta og geymslugjalds vegna verðlagsársins 1979/1980 934 098 þús. kr.

3.1. Um afgreiðsluferil niðurgreiðslna.

Söluaðilar senda reglulega niðurgreiðslureikninga til Framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem safnar þeim saman frá mánudegi til föstudags í viku hverri, en þá er gengið frá greiðslubeiðni til viðskiptaráðuneytisins, er afgreiðir hana til ríkisféhirðis fyrir lokun næsta þriðjudag. Síðan líður ein vika vegna tékkavinnslu á vegum ríkisbókhalds.

Annan þriðjudag berst því greiðslan til Framleiðsluráðs sem afgreiðir greiðslurnar oftast samdægurs eða innan tveggja daga til söluaðila.

Niðurstaða:

Söfnunartími reikninga ......... 5 dagar

Vinnslutími í kerfinu ................................ 11 dagar

Útborgunartími hjá Framleiðsluráði .......... 2 dagar

Samtals 18 dagar

Frávik eru frá almennum söfnunartíma:

Skýrslum frá oddvitum vegna sölu á heimamjólk er safnað saman á lengri tíma og þær afgreiddar einu sinni í mánuði til útborgunar í gegnum kerfið.

Meginreglan er sú, að niðurgreiðslur séu komnar til söluaðila 18–30 dögum eftir lok sölutímabils, og fer það eftir viðbragðsflýti söluaðila hverju sinni við að skila sölugögnum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Eins og að framan greinir eru þeir fjármunir, er ríkissjóður greiðir í niðurgreiðslur, um 2 daga á leiðinni frá ríkissjóði til söluaðila.

3.2. Um afgreiðsluferil útflutningsbóta.

Útflutningsfyrirtæki senda reikninga yfir útflutningsbætur til Hagstofu Íslands og samrit til landbúnaðarráðuneytis og Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Hagstofa Íslands staðfestir verðábyrgð ríkissjóðs miðað við skráð heildsöluverð innanlands og á grundvelli fob-verðmætis samkvæmt upplýsingum útflutningsfyrirtækis, sbr. og staðfestingar gjaldeyriseftirlitsins þessu viðkomandi. Hagstofan sendir síðan nefndar verðábyrgðir til landbúnaðarráðuneytisins, sem gefur út greiðslubeiðnir vegna útflutningsbóta, þegar fjármálaráðuneytið heimilar útborgun.

Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur á móti útflutningsbótum og greiðir þær um hæl til útflutningsfyrirtækja.

Dæmi nr. 1.

Frosið dilkakjöt útflutt til Færeyja.

M/s Smyrill 15. september 1979.

Gjaldeyrisskil 16. október 1979.

Reikn. SÍS yfir útflutningsbætur dags. 5. nóvember 1979.

Staðfesting Hagstofu Íslands dags. 10. janúar 1980. Útborgun úr ríkissjóði dags. 13. febrúar 1980 til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Dæmi nr. 2.

Ostur útfluttur til Grikklands.

M/s Suðurland 10. október 1979.

Gjaldeyrisskil dags. 29. nóvember 1979.

Staðfestingarbeiðni SÍS til Seðlabanka vegna gjaldeyrisskila dags. 12. desember 1979.

Reikningur Osta- og smjörsölunnar yfir útflutningsbætur dags 18. desember 1979.

Staðfesting Hagstofu Íslands dags. 10. janúar 1980.

Útborgun úr ríkissjóði dags. 4. mars 1980 til Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

3.3. Um eftirlit með framkvæmd niðurgreiðslna.

Ríkisendurskoðun skoðar frumgögn reglulega hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins og ríkisbókhaldi, gerir nauðsynlegar kannanir eftir því sem tilefni gefast og innkallar ársreikninga frá öllum, sem hafa móttekið niðurgreiðslur frá Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Framleiðsluráð landbúnaðarins ber ábyrgð á virku innra eftirliti með niðurgreiðslum.

Ríkisendurskoðun hefur sett eftirfarandi reglur gagnvart kröfuhöfum:

1. Hver kröfureikningur skal bera með sér nafn, nafnnúmer og heimilisfang kröfuhafa, auk hlaupandi númers. Honum fylgi upplýsingaskýrslur samkvæmt nánari fyrirmælum Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

2. Hver kröfureikningur skal byggjast á áreiðanlegum og fullnægjandi skjölum, sem búið er að bóka í bókhaldi kröfuhafa á skipulegan og öruggan hátt skv. ákvæðum bókhaldslaga.

Kröfuhafi skal staðfesta reikninginn með undirritun. Einnig skal reikningurinn staðfestur af endurskoðendum. Endurskoðunaráritunin merkir eftirfarandi:

1. Að vörumagn og flokkar sé rétt tilgreint.

2: Að rétt sé skipt milli niðurgreiðslutímabila.

3. Að niðurgreiðsluupphæðir pr. einingu séu rétt tilgreindar.

4. Að reikningur sé rétt útreiknaður.

5. Að upplýsingar reikningsins séu samkvæmt bókuðum skjölum skv. bókhaldi kröfuhafa, sem auðvelt sé að staðreyna með skyndikönnun.

3. Ef í ljós koma útreikningsskekkjur eða önnur atriði, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins getur ekki samþykkt, skal endursenda reikningana og vísa þeim þar með frá greiðslu. Kröfuhafar geta skotið „öðrum atriðum“ undir úrskurð hjá ríkisendurskoðun.

4. Framleiðsluráð landbúnaðarins gefur nánari fyrirmæli um útfyllingu einstakra kröfureikninga, t.d. að niðurgreiðslur vegna tveggja niðurgreiðslutímabila séu ekki settar á sama kröfureikningum, o.s.frv.

5. Ef sami kröfuhafi tekur við umtalsverðum niðurgreiðslufjárhæðum að dómi ríkisendurskoðunar, skal niðurgreiðslureikningur staðfestur af löggiltum endurskoðanda.