27.01.1981
Sameinað þing: 42. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

78. mál, framtíðarskipan lífeyrismála

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég skal taka undir það með hv, 1. flm., að vissulega er þetta mál þess eðlis að það væri æskilegt að hér væru fleiri þm. viðstaddir. En svo vill nú verða venjulega á þessum tíma að æðimargir eru farnir að tínast í burtu og fátt verður um menn í salnum þegar fer að líða að kvöldmat.

Hér er vissulega hreyft stórmáli sem væri ástæða til að menn ræddu ítarlega, og auðvitað hefur það oft verið gert áður hér á Alþingi. Við erum t.d. nýbúin í Ed. að hlýða á mjög greinargóða framsöguræðu þar fyrir frv. þeirra sjálfstæðismanna um Lífeyrissjóð Íslands sem hv. 1. flm. kom hér inn á, og ég sé ekki ástæðu til að fara út í þessa till. efnislega. Öll erum við sammála um það, að hér þarf að stefna að framtíðarskipan sem feli í sér sem fyllstan jöfnuð. Það held ég að sé hafið yfir allan efa, að að því marki stefnum við öll. Við erum sammála um það einnig, að það ríkir ófremdarástand í dag bæði varðandi hina einstöku lífeyrissjóði, stöðu þeirra, eins og flm. kom hér inn á, og einnig hina miklu mismunun, hve lífeyrissjóðirnir eru missterkir og geta veitt sínum sjóðþegum mismunandi rétt, bæði varðandi lánafyrirgreiðslu og eins varðandi lífeyri.

Hv. flm. vék að því réttilega, að það mundi vera nokkuð öruggt að samræming af því tagi sem hér er að stefnt varðandi framtíðarskipan þessara mála mundi koma við einhverja, og e.t.v. hefur um of verið horft til þess, þegar menn hafa sest niður og reynt að koma sér niður á framtíðarskipan í þessum efnum, að það yrðu alltaf einhverjir ósáttir. En fram h já því verður ekki komist og við það verður að una. Þessi jöfnuður fæst ekki nema að einhverju leyti verði af einhverjum tekið í leiðinni, og af þeim sem hafa þá jafnframt bestu aðstöðuna fyrir. Það fer ekki á milli mála, að stjórnmálaflokkarnir hafa tekið þetta mál til meðferðar. Ætli nokkur stjórnarsáttmáli t.d. á undanförnum áratug hafi verið settur saman án þess að þar væri ákvæði mjög ákveðið um það, að stefnt skyldi að því að koma á fót beinu lífeyrissjóðskerfi fyrir alla landsmenn? Og ekki hefur verið látið sitja við orðin tóm hvað það snertir. Fjölmennar nefndir hafa að þessu starfað og starfa enn, þar sem eru fulltrúar þeirra aðila sem gleggst eiga hér um að fjalla og um að vita, og það er vissulega afleitt að ekki skuli enn hafa náðst sá árangur sem skyldi.

Hv. flm. vék hins vegar að því, að vissulega hafa margar réttarbætur náðst fram. Ég hygg að það fari ekki á milli mála, að stærsta réttarbótin í þessum efnum hafi verið þegar tekjutryggingunni var komið á og þær endurbætur sem síðar hafa verið gerðar á tekjutryggingunni, vegna þess að þar fengu þeir bætur sannarlega sem mest þurftu á að halda. Það er því vissulega vert að hugleiða hvort ekki lægju til þess gildar ástæður, á meðan ekki er komið á það skipulag sem hér er vikið að og margir hafa áður að vikið, að taka tekjutrygginguna alveg sérstaklega út úr til athugunar og til hækkunar.

Hv. flm. minnti á eftirlaunin til aldraðra, sem eru örugglega næst veigamesta réttarbótin sem fengist hefur á undanförnum árum, og viss réttarbót á þeim lögum, sem við vorum að samþykkja nú fyrir jólin, kemur þar líka til góða.

Það er fleira sem vissulega er rétt að minna á, vegna þess að þrátt fyrir það að við getum ekki verið ánægð með ástandið hafa menn þó verið að smáfikra sig áfram, og e.t.v. auðveldar það að ná saman endum í lokin. Ég minni á skyldutrygginguna sem komið var á í fyrra með skráningu lífeyrisréttinda og var vissulega úrbót fyrir ákveðna hópa sem utan við stóðu. Sama er að segja um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, sem kemur í stað biðreikningsins áður og veitir þar að auki aukin og betri réttindi. Þetta sýnir að að þessu hefur verið verulega unnið, bæði í tíð fyrrv. heilbrmrh. og eins nú. En þótt að þessu máli sé unnið er það hins vegar ljóst, að við eygjum ekki alveg í sjónmáli fulla samræmingu, framtíðarskipan eins og við vildum hafa hana. Við hljótum að stefna að því að það verði sem allra fyrst. En ég hygg að það hafi komið fram í sambandi við svar við fsp. um þessi mál fyrr á þinginu í vetur að þess væri varla að vænta, að fullur árangur næðist fyrr en um áramótin 1982–83. Vissulega er það nokkur tími, en þó væri betur að það yrði raunveruleiki og menn þyrftu ekki að bíða lengur en til þess tíma. En auðvitað hljótum við, sem höfum fylgst með þessari þróun á mörgum undanförnum árum, að óttast að sú dagsetning — þó okkur finnist hún kannske nokkuð síðla — standist ekki, að þessi skipan komist enn síðar á.

En ég stóð aðallega upp til að minna á það, að á meðan þessu skipulagi hefur ekki verið komið á, — sem ég held að allir hljóti að verða sammála um í lokin, þó að deildar meiningar séu um einstök útfærsluatriði, eins og hv. flm. kom inn á, — þarf að vinna að sjálfsögðustu leiðréttingum á þessum málum. Ég nefni sjómennina sem dæmi alveg sérstaklega, þ.e. að þeir fái sinn lífeyri frá 60 ára aldri frá tryggingunum eins og um hefur verið talað, eins og lofað hefur verið og ég vona að komist í fulla framkvæmd. Þetta hefur verið baráttumál þeirra. Það er að vísu alltaf spurning um það, hvort taka eigi einn þjóðfélagshóp þannig út úr, en þó held ég að við getum öll verið sammála um að þessir menn hafi nokkra sérstöðu og við eigum að taka nokkurt tillit til þeirra.

Sama er að segja um örorkustyrkþega. Þá á ég ekki við lífeyrisþega, heldur þá sem njóta örorkustyrks eða eru með verulega skerta starfsorku. Það liggur einnig fyrir, að það verði flýting á réttindum þeim til handa þannig að þeir fái réttindi fyrr en ella. Ég veit ekki hvort það er komið á, ég man það ekki í augnablikinu þegar ég minnist á þetta. Ég veit að að því er stefnt. Þannig mætti áfram telja vissa aðila sem þurfa svo rækilega á leiðréttingu að halda að eftir framtíðarskipan þessara mála verður ekki beðið.

Ég vildi sem sagt ekki láta þessa umræðu hjá líða án þess að taka undir ýmislegt af því sem fram hefur komið, án þess að ég fari að tilgreina sérstaklega þau ítarlegu atriði sem hv. 1. flm. kom hér inn á, sem vissulega eru athyglisverð og ég get í meginatriðum tekið undir. Og ég ítreka það um leið, að á meðan við höfum ekki komið á fullum jöfnuði í þessum efnum, eða þeim fyllsta jöfnuði sem við treystum okkur til, þá þurfum við a.m.k. að vinna að auknum réttindum þeim til handa sem í dag búa við lakastan lífeyrisrétt. Þeir eru margir, því miður, allt of margir, en ég trúi og veit að að því er unnið nú, og við vonumst til að sjá árangur þess þegar á þessu ári.

Ég vona svo að lokum að þeirri dagsetningu, sem nú er rætt um að miða við, verði a.m.k. ekki seinkað, svo að í ársbyrjun 1983 í síðasta lagi geti þessi framtíðarskipan verið komin á.