28.01.1981
Efri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1953 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Mig langar í tilefni af umr. um þetta lagafrv. um breyt. á tekju- og eignarskatti að ítreka beiðni mína til hæstv. fjmrh., sem ég setti fram í umr. í Sþ. í haust þegar til umr. var fsp. um framkvæmd 59. gr. skattalaganna. Ég ítreka beiðni mína til hans um að störfum varðandi endurskoðun á einstökum liðum þessara nýju skattalaga verði hraðað. Hann hefur reyndar gert grein fyrir því í máli sínu hér á undan að fyrir því liggi vissar ástæður hvað endurskoðun hefur tafist. Ég tel að nú sé svo komið að við verðum að snúa okkur mjög eindregið og ákveðið að þeirri vinnu. Það eru vissir þættir sem þurfa endurskoðunar við, t.d. í 59. gr. sem ég ætla ekki að ræða um frekar hér og nú, og trúlega í fleiri greinum þessa nýja lagabálks.

Ég vil hins vegar fagna breytingunni sem hér er boðuð á hækkun vaxtafrádráttar. Við vitum að málefni húsbyggjenda og þeirra, sem hafa staðið í húsnæðiskaupum, eru nú erfið vegna hárra vaxta og svo þess, hversu þeim málum er háttað. Þeir eiga í margvíslegum erfiðleikum. Hér er komið verulega til móts við þeirra þarfir.

Það kom fram í máti hæstv. fjmrh., þegar hann las upp úr lögunum, að þegar fjallað er um lausaskuldir húsbyggjenda eru vextir af þeim frádráttarbærir í tvö ár frá því að íbúðarhúsnæði er keypt og í fjögur ár frá því að byggingarframkvæmdir hefjast. Ég gat þess í fyrra, að ég teldi að þessi tími væri e.t.v. of skammur, það væri hugsanlega rétt að reyna að lengja þennan tíma örlítið vegna þess hversu t.d. byggingartími er langur hjá okkur, menn væru yfirleitt nokkur ár að koma upp húsi og koma yfir sig húsi og þess vegna væri of skammur tími að þessi vaxtafrádráttur væri aðeins leyfilegur í fjögur ár í þeim tilvikum. Nú reikna ég með að byggingartíminn hafi frekar lengst en hitt vegna ýmissa erfiðleika, sérstaklega hárra vaxta, og þess vegna væri kannske sérstök ástæða til að taka þessi mál til endurskoðunar. Þó ber að geta þess, að í efnahagsáætluninni, sem hér var nefnd áðan, efnahagsáætlun ríkisstj., er gert ráð fyrir að reyna að breyta lausaskuldum húsbyggjenda og þeirra, sem keypt hafa húsnæði í föst lán til lengri tíma. Kann að vera að það mæti þessu sjónarmiði mínu ef vel tekst til um þá framkvæmd, sem ég vona sannarlega að takist vegna þess að ég tel að á því sé mikil þörf.

Ég vildi aðeins koma þessari ábendingu minni á framfæri.