28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

151. mál, þingsköp Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð sem hæstv. félmrh. sagði í ræðu sinni. Það hefur mikið verið rætt um ýmsa annmarka á þingsköpum og hefur raunar ávallt verið svo af því að verkefni þingsins taka stöðugum breytingum eins og þjóðlífið sjálft. Hins vegar hefur Alþingi sýnt hóflega íhaldssemi við að gera miklar breytingar á þingsköpunum og má segja að tiltakanlegar breytingar hafi ekki verið gerðar nema svo sem einu sinni á áratug. Síðast voru gerðar allverulegar breytingar 1972, en aðdragandinn að þeim tók ærið langan tíma því að þingnefnd byrjaði að undirbúa þær árið 1966. Ekki tel ég þó þörf á því að slíkar breytingar taki ávallt svo langan tíma.

Það vill svo einkennilega til, þegar mál þetta var tekið fyrir núna, að þá var ég með í höndunum handrit að frv. um breytingar á þingsköpum sem ég ætlaði mér að leggja inn.

Það er ýmislegt sem væri athugandi og þyrfti að ræða um, en ég ákvað fyrir nokkru að gera tilraun til að setja á blað hugmyndir um breytingar á þremur meginatriðum, sem ég tel að hafi undanfarin ár vafist fyrir þingstörfum og jafnvel tafið sjálft löggjafarstarfið. Þar á ég við meðferð á þáltill., sem er flókið mál vegna þess að þær eru ólíkar, en oft og tíðum fá þær háðulega meðferð hér, eins og gerðist síðast í gær þegar hér voru rædd merk menningarmál fyrir tómum sal og var ekkert einsdæmi.

Annað málið, sem ég tek fyrir í þessu frv., eru fsp., en einmitt nú í vetur hefur borið mikið á því, að þingheimur hefur gert fyrirspurnatíma að almennum eldhúsumræðum. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt. Árangurinn hefur orðið sá, að það komast fyrir ein eða tvær fsp. í hverjum fyrirspurnatíma og allur þorri spurninga, sem þm. hafa lagt fyrir ráðh., verður að bíða óhóflega eftir afgreiðslu. Í þriðja lagi hef ég gert tilraun til að setja á blað í fyrsta skipti einhver ákvæði um umræður utan dagskrár. Um þær er ekki einn stafur í þingsköpum og þó tel ég að þær gegni ákaflega mikilvægu hlutverki og eigi fullkominn tilverurétt. Ég ræði þetta ekki frekar, því að ég mun leggja frv. fram. Þessi mál munu vafalaust fara til allshn., og ég tel að hún ætti að taka upp hugmynd hæstv. félmrh., ef hún vill ekki afgreiða það frv. sem er til umr. og önnur sem kunna að verða flutt, að setja a.m.k. í gang athugun á þingsköpunum öllum frá byrjun til enda.

Um það frv., sem hér liggur fyrir, vil ég aðeins segja að það er, eins og flm. sagði, mjög einfalt, en þó ærið afdrifaríkt. Ég er í grundvallaratriðum sammála því, að það er ekki eðlilegt að ráðh. hafi sérréttindi, en staða þeirra krefst þess stundum að það sé farið örlítið öðruvísi með þá en aðra þingmenn. En þau miklu sérréttindi, sem þeir hafa haft, eru ekki í samræmi við hugsunarhátt tímans að minni hyggju.