28.01.1981
Neðri deild: 45. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

151. mál, þingsköp Alþingis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það er stórmál að athuga vinnutíma Alþingis yfir árið. En það er ekki bara þingskapamál, það mundi verða að athuga í sambandi við stjórnarskrárákvæði líka, og við skulum koma því til stjórnarskrárnefndar, að hún taki það fyrir.

Ég er að þessu sinni sammála hinum íhaldssama formanni þingflokks Framsfl. — og íhaldssemina viðurkenndi hann sjálfur að fyrra bragði — um það að málfrelsið er mikilvægt, við verðum að fara vel með það. Ég veit ekki um neitt þing í veröldinni þar sem málfrelsi er eins takmarkalítið og það er hér á Alþingi.

Sumar greinar þingstarfa eru að vaxa öðrum yfir höfuð. Þess vegna er gersamlega óhjákvæmilegt að við verðum að setja okkur einhverjar reglur um þetta. Það er þegar fyrir því næg reynsla að menn gera það ekki af sjálfsdáðum. Og ég vil minna hv. þm. á að oft eru það þeir menn, hvort sem það eru kennarar eða aðrir, sem tala í 45 mínútur án þess að muna nokkuð um það, sem með sínum löngu ræðum hindra að aðrir komist að. Þess vegna verður að tryggja sem allra mest jafnvægi í þessum efnum, og við megum ekki vera hrædd við að setja sjálfum okkur reglur. En við skulum gæta þess, að einmitt þau atriði, sem eru aðalverkefni Alþingis, löggjafarstarfið og meginstjórnsýslan, fái sem bestan tíma og þar séu sem allra minnstar takmarkanir á ræðutíma manna. Það eru ýmsir aðrir fyrirferðarmiklir liðir sem við skulum skoða betur.